Wednesday, January 30, 2008

Þegar skólinn minn var sjálfsmorðsstöð

Veturinn 2006-7 var ég ásamt tveimur vinum mínum og meðleigjendum nemandi í Menningar- og tungumálaháskóla Beijing, sem er oftast skammstafaður BLCU (Beijing language and culture University).

Það voru mín fyrstu kynni af háskóla, þótt þau væru nokkuð óhefðbundin, hér var maður staddur ásamt tíu þúsund öðrum útlendingum hvaðanæva að í ca. 17 milljóna stórborg, allar stærðir voru af öðrum skala en ég átti að venjast heima á Íslandi hvað t.d. verðlag og fólksfjölda varðar - ekki síst skólasvæðinu sem var gígantískt fyrir mér fyrstu vikurnar. Það einkenndist þó af einhverri akademískri ró; nóg af litlum steintorgum eða rjóðrum með sætum sem nemendur sátu við og lásu í haustblíðunni, hálf-sovéskar heimavistarblokkir með kínversku yfirbragði þar sem nemendur höfðust við í meinlætalegum íbúðum, litlar tjarnir með gosbrunni og steinbrú yfir og krúttlegri sjoppu þar sem maður gat keypt sér gos í frímínútunum.

Það var alltaf sól sem skein gegnum grenitrén inn á skólasvæðið og aldrei hin minnsta gola, og þarna lifði maður í mjög firrtu en þó róandi samræmi við tilbúna náttúru sem var sköpuð til að maður gæti fundið hvað mest næði til að lesa. Athugið að myndirnar úr skólanum eru allar teknar af mér, þegar minningin um skólasvæðið var ekki tengt öðru en ánægjulegum frímínútum og fallegu umhverfi.

Ég vissi náttúrulega um allar þær hörmungar sem höfðu gengið yfir þetta land allt frá elstu keisaraættum, en einhvern veginn spáði ég ekkert í það hvernig lífið hafði mögulega verið hjá nemendum um miðja síðustu öld. Þegar ég kom aftur heim til Íslands og fór að læra sagnfræði við Háskóla Íslands rakst ég á "rauðu bókina" svonefndu í kúrs um íslenska sósíalista.

Sú bók inniheldur skjöl, skýrslur og bréf frá meðlimum leynifélagsins SÍA (Sósíalistafélag Íslendinga Austantjalds) til Kommúnista-, og seinna Sósíalistaflokksins um kynni þeirra af kommúnisnanum í framkvæmd í hinum ýmsu löndum. Árið 1963 komst Heimdallur yfir þessi skjöl og sendi þau til Moggans sem hóf að birta þau smám saman en Einar Olgeirsson þáverandi formaður Sósíalistaflokksins varð æfur og vildi láta brenna öll gögnin.




Í bókinni eru m.a. bréf frá Skúla Magnússyni, ungum menntamanni af Vestfjörðum sem hreifst af kommúnismanum, fór til náms í Kína 1959 og lærði kínversku í sama skóla og ég. Hann átti í bréfaskiptum við annan skoðanabróður sinn, Hjalta Kristgeirsson sem var við nám í Búdapest og eru þar að rökræða um framkvæmd (eða "byssnessinn" eins og þeir orða það) kommúnismans. (Þessi Skúli var meira að segja líka í bréfaskiptum við Hjörleif Guttormsson!) Við skulum þó gefa Skúla orðið:

"Þú hefur enga hugmynd um , hvað ég á við, þegar ég nefndi "byssnessinn." Þú virðist halda, að þar sé um marxíska kenningarfræði að ræða. Það er alrangt, að minnsta kosti að því er undirstöðuna og aðalatriðin viðvíkur. "Byssnessinn" eru þær fjarstæður, sem flokkurinn heldur að fólki í ræðu og á prenti og allir verða viljugir nauðugir að syngja undir. Af slíku er nóg í Kína, um Ungverjaland veit ég ekki, en að óvörum kæmi mér það ekki. T.d. fólkið er frumkvöðull alls, allir eru fullir af áhuga og elska flokkinn út af lífinu, flokkurinn er óskeikull, hamingjan tekur risaskref upp á við meðan vinnubúðirnar fyllast af fólki, sem hefur verið svipt frelsi sínu..."




Hann heldur síðan áfram og fjallar um ástandið í skólanum og að næðið þar til náms sé orðið heldur knappt vegna ýmissa "anna":


"Þegar ég hafði dvalizt í nokkra mánuði í landi þessu upphófst mikill annatími. Hann far ekki falinn í þeim störfum, sem ég þekkti vestan af fjörðum: hrognkelsa- og silungsveiði, smö
lunum og réttum vor og haust, heyskap á sumrum né tóvinnu á vetrum. Hann var falinn í sjálfsmorðum. Sumir átu nagla, títuprjóna og glerbrot, aðrir stukku niður af þriðju og fjórðu hæð, enn aðrir köstuðu sér í vötn þau, sem hér eru í campusinum. Einn prófessor var t.d. dreginn upp úr vatninu og barinn af stúdentum sínum með þeirri yfirlýsingu, að hann hefði gjörla vitað, að vatnið væri of grunnt til að drekkja sér þar í og væri hann bara í þykjustuleik; og var téður prófessor hið snarasta sendur á geðveikrahæli (vinnubúðir). Einn stúdent kastaði sér niður af þriðju hæð og braut á sér báða fætur. "Framvarðalið verkalýðsins: Flokkurinn" (með stórum staf eins og Guð) rak niður tvo þölla á staðnum og negldi þar kassafjöl á með slíkri áletran: "Hvaða óhreina plan gegn fólkinu hafði téður stúdent í huga, þegar hann kastaði sér hér niður?"

Hér voru á ferðinni þeir menn, sem orðið höfðu við áskorun Maos í ræðu hans 27. febrúar 1957 um blómin og skólana, svo sem frægt er orðið, að segja hug sinn allan. Ég get sagt þér, að svo mikið er traust alþýðu manna til "framvarðaliðs" síns, að menn héldu sem fastast kjafti í að minnsta kosti tvær vikur... ...meðan flokkurinn lagði sem fastast að þeim að tala. Loks sprakk stíflan, en aðeins í tíu daga, þá var troðið upp í skarðið. Allir þeir, sem ég veit um, töluðu meira og minna ófúsir vegna hvatningarorða og loforða, og svo mun hafa verið um flesta. Flestir komu aðeins með blákaldar staðreyndir, nokkrir þó með "kennisetningar".

Það komust þeir lengst á villunnar braut að boða borgaralegt þingræði og tveggja flokka kerfi. Á þessum
mönnum var síðan barið á þann hátt, að æstur var upp skríll, þeir settir í miðjuna í hring, sem skríllinn myndaði, (aðeins einn í hvert skipti að sjálfsögðu) og látnir hneigja höfuð, síðan öskrar skríllinn skammir og svívirðingar að þeim; og við útlendingar hér heyrðum óhljóðin, þegar við fórum í hressingargöngur á síðkvöldum. Þeir sem hættulegri þóttu fengu enga hvíld, hvorki á degi né nóttu. Það var gert á þann hátt, að sendur var hópur manna til að atyrða þá; þegar sá hópur hafði dvalið um stund var annar sendur og svo koll af kolli, dag og nótt, sólarhringum saman. Ein stúlka, örvilnuð af öllu saman, svipti sig öllum klæðum, svo að karlmennirnir kynnu ekki við að dvelja lengur, þá voru stúlkurnar bara sendar í staðinn. Síðar frétti ég, að stúlkuauminginn hefði sturlazt."



Skúli gerðist afhuga kommúnismanum þegar hann kom heim og þeim "byssness" sem honum fylgdi. Fyrir venjulegan nemanda eins og mig hefði það verið erfiður "byssness" að þurfa að upplifa eftirfarandi:


"Hverju mannsbarni hlýtur að vera ljóst, að allir eru alltaf að njósna um alla. Margir stúdentar eiga engan trúnaðarvin meðal skólafélaga sinna; þeir lifa ekki normölu andlegu lífi. Börn fara hér á skrifstofur "framvarðasveitar verkalýðsins" og gefa reglulegar skýrslur um foreldra sína. Kona og maður og börn þeirra njósna hvort um annað; eðlilegt mannlegt samband milli fólks er rofið, en í stað þess liggja allir þræðir um lófa "Flokksins".
Ég fæ ekki betur séð en, að Kommúnistaflokkur Kína sé með verstu úrhrökum, sem veraldarsagan greinir. Eignist kínverskur stúdent okkur að vinum og ef upp kemst, eru þeir oftast nær skammaðir og bannað að hafa við okkur samneyti. Fellum við ást á stúlkum, hverfa þær sporlaust.


Þetta, sem ég hef nú verið að skrifa, kalla ég m.a. "byssnessinn", sem beri að sjá í gegnum. Fólk sem ég hefi haft iðulegt samneyti við, hefur nokkrum sinnum horfið, auk þess veit ég þess dæmi (um þá, sem ég hefi ekki þekkt persónulega) í tugatali. Ég veit, að slóð þessa fólks liggur í öllum tilfellum um skrifstofur öryggislögreglunnar.

Ég hefi komið inn á heimili nokkurra alþýðukvenna með yngsta barnið á nöktu brjóstinu og skara hinna stærri í kring og eigandi föðurinn og fyrirvinnuna í nauðungarvinnu. "Flokkurinn" þurfti á vinnuafli hans að halda til að geta dregið brattara strik í línuriti á blöðum tímarita, gefnum út á erlendum málum og á glanspappír og með myndir af hlæjandi eða brosandi Kínverjum, í þeim tilgangi að villa útlendingum sýnar á hinu raunverulega kínverska þjóðfélagi. Þetta dirfist ég enn að kalla "byssnessinn".



Það hefði verið skrýtið, næstum því ógeðfellt fyrir mig að ganga um götur heimavistarinnar í BLCU vitandi allt þetta. Að sjálfsögðu var okkur haldið öllu þessu leyndu fyrir okkur og í annálum skólans helst minnst á það að hann hefði samræmt hið svokallaða pinyin kerfi, latnesk hljóðritun fyrir kínversku, á alþjóðavísu. Ósköp held ég að fáir vinir mínir sem lifðu og sváfu á heimavistinni hafi vitað hvað raunverulega gerðist þarna fjörutíu og sex árum fyrr.

Oft þegar ég sá gamalt fólk úti á götu velti ég því fyrir mér hvernig það forvitnilega og frumstæða Kína sem það ólst upp í hefði verið. En þegar ég sá þrítugt, fertugt og fimmtugt fólk velti ég fyrir mér hvaða ólýsanlegu hörmungar það hefði upplifað í hundrað blóma átakinu og menningarbyltingunni. Það er ótrúlega stutt síðan og fyrir okkur Íslendingum var kommúnisminn í Kína raunveruleg og viðurkennd stjórnmálastefna. Það er auðvelt að kyngja þeim mistökum í dag en fyrir Skúla Magnússon árið 1959 hefur það verið öllu erfiðara.

Friday, December 07, 2007

Ný færsla

Ég hef verið últralatur bloggari núna undanfarið...skammdegið hérna á Íslandi er ritstíflandi. Þetta er skrifað heima hjá henni Þóru á meðan kjötið snarkar á grillinu og bíður eftir að verða tilbúið. Ég er að vinna í Dressmann þessa dagana með Jónatni, Aríel og Ella verslunarstjóra að selja skyrtur og bindi og líkar vel.

Svo er það sagnfræðin eftir jól. Ég reyni við og við að grípa í sagnfræðileg rit, Sagan öll o.s.frv. og keypti mér núna í dag ævisögur Joseph Fouché og Maríu Stúart eftir Stefan Zweig og hlakka til að lesa. 

Mig hefur alltaf langað á fund hjá kvæðamannafélaginu Iðunni og skellti mér síðasta miðvikudagskvöld. Núna klukkan átta er síðan jólafundur hjá þeim þar sem verður fullt af hagyrðingum að kveða rímur...mér líður eins og gömlum karli. Hef samt gaman af þessu.

Svo líður senn að hátíð góss og kviðar og meintri meyfæðingu. Í tilefni af því orti Steindór Andersen:

Lausnarinn var lagður í
lága jötu.
Íslendingar út af því
éta skötu.

Monday, October 29, 2007

Trúfrelsi - en ekki trúarjafnræði

“Hvaða máli skiptir það – það er trúfrelsi á Íslandi,” er setning sem maður heyrir oft í rökræðum um hvort ástandið sé sanngjarnt hvað varðar skiptingu skattpeninga til trúfélaga. Það virðist nefnilega vera svo að fólk rugli oft hugtökunum trúfrelsi og trúarjafnræði þegar þær fjárveitingar sem renna til Þjóðkirkunnar ber á góma. Hér á Íslandi ríkir nefnilega engan veginn trúarjafnræði og fyrir því eru ýmsar ástæður.



Að sjálfsögðu ber hér fyrst að nefna lög sem Alþingi setti þess efnis að allir skuli greiða gjald sem renni til þess trúfélags sem þeir aðhyllast (eða Háskólans ef þeir eru skráðir utan trúfélaga). Hér er í gangi fáránlegt kerfi sem miðast að því að ríkið sjái um innheimtingu sóknargjalda en ekki trúfélögin sjálf. Hvers vegna ættu þau ekki að vera fullfær um það? Og hvers vegna þurfa trúleysingjar samt að greiða gjaldið þótt þeir séu ekki skráðir í neitt félag?

Það rotna við þetta er að innheimtingin rennur saman við tekjuskattinn án þess að flestir taki eftir því. Ef Þjóðkirkjan þyrfti að innheimta sín sóknargjöld sjálf bærust inn um lúguna til margra ykkar árlegt umslag með reikningi upp á heilar 11.000 krónur sem þið þyrftuð gjöra svo vel að borga. Margir myndu eflaust bregðast illa við því og heimta að fá að sleppa að borga þetta (sem er ekki hægt nema kannski gefa Gunnari í Krossinum eða Háskólanum). Er þetta kannski eitt af því sem er innifalið í 62. grein stjórnarskrárinnar um að Þjóðkirkjan skuli vera studd og vernduð af ríkinu?

Ekki nóg með það. Hún fær á hverju ári rúmlega fjóran og hálfan milljarð íslenskra króna til að halda við kirkjum sínum, borga prestum laun og eflaust ótal fleira sem þarf fyrir uppihaldið.

Til að geta réttlætt þetta beita talsmenn þjóðkirkjunnar m.a. fyrir sig hefðarrökum. Hin evangelísk-lúttherska kirkja hefur verið þjóðtrú Íslendinga síðan siðaskipti urðu og því eigi hún rétt á því að þiggja fjármagn frá skattgreiðendum til að halda siðinum við. Þetta heldur þó engu vatni því hér er t.d. ekkert tillit tekið til þeirra sem aðhyllast ekki “þjóðtrúna” hversu “samgróin” hún er þjóðinni eins og þeir vilja meina. Ekki fær kaþólska kirkjan neitt vegna sögulegs mikilvægis fyrir innrætingu góðs siðar í samfélagið, hvað þá ásatrúarfélagið. Prestar og prelátar kirkjunnar stæra sig af því að þeir standi vörð um siðgæði landsmanna og landsmenn telji kirkjuna afar mikilvæga – hvers vegna þurfa þeir þá að vera á ríkisspenanum til að geta skrimt? “Þetta hefur alltaf verið svona” er síðasta hálmstrá þeirra sem vilja ekki breyta hlutunum.



Annað hálmstrá sem gripið er til eru meirihlutarökin. “Þjóðkirkjan hefur langflesta landsmenn í sínum röðum og þess vegna er ekkert óeðlilegt að það fái þessar fjárveitingar.”

Í lögum stendur að nýfædd börn skulu sjálfkrafa skráð í trúfélag móður. Þeir sem aðhyllast önnur trúarbrögð (ef einhver) en mæður þeirra þurfa því að byrja að skrá sig úr trúfélaginu áður en þeir geta skráð sig í eitthvað annað! Hér er komin aðalástæða þess að Þjóðkirkjan hefur þennan meirihluta landsmanna í söfnuði sínum. Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft um 99% landsmanna skráð í flokkinn og allir sem sérstaklega aðhylltust aðra flokka hefðu fyrst þurft að afskrá sig úr Sjálfstæðisflokknum, hvernig væri staða hans í dag?



Í skjóli þessa meirihlutaraka reynir Þjóðkirkjan að komast upp með ýmislegt sem skekkir trúarjafnræði í landinu. RÚV er ætlað að setja áherslu á og vernda ríkissiðinn, með dagskrárliðum á borð við Orð dagsins, Sunnudags- og jólamessur o.s.frv.

Í nýlegum úrskurði Hæstaréttar í málaferlum Ásatrúarfélagsins gegn Þjóðkirkjunni kom fram að Þjóðkirkjan er réttnefnd Ríkiskirkja og enn fremur að starfsmenn hennar séu opinberir starfsmenn með réttindi og skyldur gagnvart almenningi eins og í öðrum opinberum geirum. Á nýlegu kirkjuþingi ákvað ríkiskirkjan að staðfesta samvist samkynhneigðra, en neitar enn þá að tala um giftingu þeirra sem hjónaband, þ.e. þeir líta mismunandi á sambúð og samvist einstaklinga út frá kynhneigð þeirra. Hér er um grófa mismunun að ræða frá opinberum starfsmönnum. Málið lítur enn verr út þegar við skoðum réttindi annarra trúfélaga því þau mega heldur ekki gefa saman samkynhneigð pör! Þannig má Fríkirkjan eða Ásatrúarfélagið ekki gefa saman karl og karl eða konu og konu vegna þess að það stangast á við trúarrit Þjóðkirkjunnar!



Í skjóli meirihlutarakanna viðgengst enn þá að við skattgreiðendur borgum fyrir menntun presta þjóðkirkjunnar. Í skjóli þeirra kemst hún einnig upp með ýmislegt stórfurðulegt sem fær enn þá að standa í námsskránni. Áður en grunnskólabörnum er veitt nokkur menntun í trúarbragðafræðslu þurfa þau að ganga í gegnum margra ára kristinfræðikennslu með námsbækur skrifaðar af prestum Þjóðkirkjunnar, þar sem börnunum eru oft kennd grundvallaratriði kristinnar trúar án þess að tekið sé fram að þetta sé “þeirra” trúarbókstafur – hversu rotið hljómar það? Í námsskránni er einnig tiltekið að börnunum skuli innrætt kristilegt siðgæði – eins fullkomnara og kærleiksríkara og það kann að hljóma miðað við siðgæði annarra trúarbragða (ef nokkur þörf er á að innræta þeim eitthvert trúarlegt siðgæði á annað borð – það ætti að vera hlutverk foreldranna).

Hver hlustar eiginlega á svona? Ekki margir, sem betur fer. En sú staðreynd að þetta er enn í lögum veldur mér áhyggjum. Trúarjafnræði á Íslandi stendur hallari fæti í orði en á borði en það sýnir okkur aðeins að það sé þeim mun auðveldara að breyta því til betri vegar. Þetta snýst ekki einu sinni um trúarbrögð þegar allt kemur til alls – hægt væri að yfirfæra þetta á stjórnmálaflokk, kynþáttamismunun eða hvað sem er og fólk myndi um leið sjá hið grófa misrétti sem hér er á ferðinni. Sú staðreynd að um trúfélag er að ræða gerir það ekki vitund heilagra.

Monday, October 08, 2007

Rakað sig hringhent

Þegar maður er orðinn uppiskroppa með yrkisefni er um að gera að yrkja nógu helvíti dýrt...



Á kvöldin finn ég komast í
krappa sinnisvöku.
Raksturinn er ráð við því
rýja kinn og höku.

Hárin brönu hér og þar
hylja vönum grettur.
Fer á skjön við flesta hvar
fjandans grönin sprettur.

Blaði lyfti, legg til at
lögu giftulega.
Það í skiptið skeggið gat
með skærum klippt eins mega.

Áfram fargar atgeirinn
alltof marga skerður.
Af mér sargast óhroðinn
-engu bjargað verður.

En fljótt mig hræðir hárbeitt egg
með hnífnum æð er skorin.
Eins það blæðir í mitt skegg
sem árnar flæða á vorin.

Leit var hafin vatni við
og votur af mér strjúka.
Hlaut þar skafinn skatni frið
skot sér gaf að brúka.

Eftir þennan djöfuls dag
dreyra enn þá sárin.
Mitt andlit brennir blóðugt flag
sem blaut í renna tárin.

Ekkert lánið öðlast mér
aðeins smán í bunum;
Í byrjun mánuðs blæða fer
með bölvans þjáningunum.

Friday, October 05, 2007

Það jafnast fátt á við alvöruna





Ég er orðinn óhræddur við að setja það sem sumir myndu kalla væmin myndbönd á bloggið. En það er heldur engin tilviljun. Þegar ég horfi á þetta rennur hugurinn til ákveðinnar manneskju.
Á meðan læt ég mér nægja að sakna hennar innilega. Kannski hljómar þetta yfirdrifið... but it ain't nothing like the real thing.

Thursday, October 04, 2007

Skrapp til Suzhou

Vikufrí í skólanum!

Fór til Suzhou

Tók myndir

Fann loksins leið til að koma myndunum úr símanum yfir á tölvuna


Ég stofnaði myndaalbúm á photobucket, linkurinn er

http://s234.photobucket.com/albums/ee1/ugluspegill/


Endilega skoðið, fleiri myndir eru svo á leiðinni. Núna ætla ég að labba út á lestarstöð, taka metrolestina eitthvert út í rassgat og sjá hvort ég lendi í einhverju skemmtilegu.

Bless á meðan!

Wednesday, September 26, 2007

Árið er 1975

Og Gunnlaugur Guðmundsson, danskóngur Íslands lætur yngri kynslóðina heyra það. Allt í einu finnst mér Helgi P ekkert svo rosalega hallærislegur.

Tuesday, September 18, 2007

Sólarljóð

Það kom morgunn!


Sumardagurinn fyrsti
og ég sólina faðmaði og kyssti.


“Horðu ekki beint í hana,”
var fóstru minni tamt
að tönnlast á
eins og af gömlum vana
(en ég gerði það samt)
því glaður ég sá


stærsta af stjörnufestingum
standandi efst á himninum
og í morgunbirtunni rósrauðum
ryður hún inn í mig geislunum.


Það hlýna fer
í hjarta mér.



Það kom hádegi!


Vorrigningin klárast
jafnvel veturinn tárast
(og vötn og lækir hætta að gárast.)


Við sólin blikkum hvort til annars
og byrjum að flissa
því beint yfir höfði mér
skín hún aðeins til Kristján Hrannars
sem kannski er hissa
hvernig athyglin beinist að sér


Þótt ég langförull legðist
léti hún mig ekki í friði
og í sífellu segðist
vera stöðugt á iði
(full óþreyju eftir mér biði.)


Ég flauta lag, kæruleysislega
um miðjan dag.



Það kom kvöld!


Það sefar þó tregann
síðasta útilegan.


Við hlæjum í hálfkveðnu gríni
ég er hræddur að klára erindið
sem við bæði vitum hvernig endar.
Hún býður mér ber sem ég tíni
og bakar hörundið
holdlegrar kenndar.


Hún baðar mig rauðum kvöldlokkum.


Hraðar en fuglinn flýgur
færa örlögin mig til hliðar
og ég varnarlaus horfi er hún hnígur
til viðar.



....................


Það kom nótt.


Eftir hinsta kvöld
kemur hélan köld.


Til skiptis ég frýs eða brenn
Til skiptis verð hræddur og feginn
og fylgist með fréttunum.
Fjúff, hún skín þó enn
einhvers staðar hinum megin
á hnettinum.


Ég fæ að sjá hana aftur.


Í myrkrinu hungraðir hrafnar
heppnina síst eiga að boða
mitt hjarta er þakið ís.


En vonin í dögginni dafnar
og í dimmunni dreyrir af roða
í austri hún aftur rís!

Monday, September 17, 2007

Fluttur í Kristjánsborgarhöll

Síðasta vika hefur verið erilsöm. Ég er fluttur inn í 220 fm Kristjánsborgarhöll, ásamt einkaþjóni mínum sem heitir David og er samkynhneigður Breti sem bjó á fljótabát á Thames áður en hann ákvað að skella sér til Kína. Hann talar, auk ensku og kínversku, flæmsku reiprennandi, þýsku, hrafl í spænsku, japönsku, les latínu jafnvel og ég, getur stautað sig fram úr Bjólfskviðu og reyndi meira að segja einu sinni að læra íslensku en gafst þá upp á málfræðinni. Á heimavistinni þurfti hann að deila herbergi með einhverjum biblíunöttara frá Kansas sem var sköpunarsinni af verstu sort og fyrirleit samkynhneigða.

Við höfum farið ófáar ferðirnar í Walmart, Suguo og Carrefour til að kaupa nauðsynlegustu húsgögnin (eigum reyndar eftir að redda okkur almennilegum sófa þannig að David sefur í stofunni á svefnsófanum sínum svo við getum notað hann á daginn). Þvottavél kom ekki í húsið fyrr en á allra síðustu stundu, og þá hafði ég búið í ferðatöskunni í tæplega tvær vikur án þess að geta þvegið eina einustu spjör. Sú sem við Siggi og Halldór notuðum í Beijing spilaði alltaf Jingle-bells þegar hún var sett í gang en þessi spilar brúðkaupsmars Wagners hátt og snjallt. Hvað er málið?


Stöðuprófið sem ég fór í reyndist hroðalega, hroðalega erfitt og ég var settur í algjöran byrjendabekk, sem ég átti að sjálfsögðu ekkert heima í, ásamt fleirum sem voru á svipuðu stigi og ég og skildu ekkert í þessu. Það tók við gríðarlegt stapp að fá að breyta því ásamt meðfylgjandi rifrildi á kínversku við konurnar í afgreiðslunni sem vildu greinilega fá munnlega sönnun á því að við ættum heima í þessum eða öðrum bekk.

Íbúðin er enn þá bara hálfköruð, þótt stór sé. Ég hafði verið hér í um viku þegar David flutti loksins inn, og hafði fram að þeim tíma þurft að fara í ískaldar sturtur því ekkert var heita vatnið. Það fyrsta sem hann rekur augun í er einhver málmkassi í eldhúsinu með rafmagnssnúru út úr sér, og verður feginn. “Jæja, það er gott að það er a.m.k. heitt vatn hérna,” segir hann um leið og hann stingur draslinu í samband, skrúfar frá gasventli og flýtir sér upp í sjóðandi heita sturtu á meðan Íslendingurinn sem hafði alist upp við heitt vatn streymandi upp úr jörðinni varð frekar kindarlegur. Að sjálfsögðu hafði ég ekkert eldað fram að þessu með engin eldhúsáhöld og var skíthræddur við að koma við alla þessa gasventla. “Engar áhyggjur Kristján, þetta er bara óumflýjanlegur menningarmismunur,” segir David um leið og hann vefur handklæði um höfuðið á sér eins og homma (og kvenna) er siður.



En til að aumingja David geti svo mikið sem sturtað niður þarf hann að láta renna vatn úr sturtuhausnum ofan í opinn vatnskassann svo hægt sé að teygja höndina niður að gúmmítappanum og hleypa vatninu niður. Það sama gildir á mínu klósetti nema ég fékk þennan lúxusspotta sem sjá má á myndinni.

Það verður innflutningspartý hjá okkur næsta föstudag. Ég taldi mig nú vera alveg þokkalega félagsveru en hann þekkir nú þegar alla í bekknum mínum á undan mér, og eiginlega bara hverja einustu útlensku hræðu í Nanjing háskólanum, sem hann hefur að sjálfsögðu boðið í húllumhæið.



Annars er lífið hér í Kína óðum að taka á sig fastar skorður. Ég kem þó heim fyrr heldur en síðar, og mun eyða jólunum á Íslandinu með fjölskyldunni og yndislegustu kærustu í heimi sem bíður eftir mér þolinmóð. Á gervihnattaöld er þægilegt að flokka það ekki undir munað að geta talað

við hana í síma í meira en klukkutíma á dag, heldur ókeypis valkost þökk sé internetinu. Ein mynd af henni verður að fylgja með.



Wednesday, September 05, 2007

Ellýarbálkur


Fullur harmi finnst mér rétt að setja

fáeinar línur þér til minningar.

Særð til bana fallið hefur hetja

sem hávært syrgja moggabloggarar.



Í fyrstu hóf hún sína raust upp roggin

og ritaði á stafrænt kálfaskinn

af sannleiksþrá (því sjaldan lýgur Mogginn

og síst af öllu almannarómurinn.)



Með tímanum það vakti feikna furðu

hve fagurt stílform okkur birtist þar.

Sögur þessar ódauðlegar urðu

undir styrkri leiðslu Ellýar.



En hversu sem hún kann að vera fögur

þín kæra dagbók, full af orðagnótt

þá sjá menn í henni klúrar kynlífssögur

af kvenmönnum með dulda brókarsótt.



Já, öfundin er illgjörn vél á hjólum

sem orðspor manna í rústir leggur enn;

Í internetsins ystu skálkaskjólum

skulu ætíð þrífast vondir menn.



Í hljóði bið ég sjálfan Guð að senda

þeim samúð, fyrir náð og miskunn hans

svo þessar sögur þyrftu ekki að enda

undir bláum öldum ljósvakans.



En veslings Ellý, hvað ætli varð um hana?

Ættum við að fella nokkuð tár?

Nei, sko, hún hefur skipt í gamlan vana

og skrifar núna í Moggann stjörnuspár.