,,Þú verður þá bara að taka þessa pappíra til baka,” sagði ég við Chang og þurrkaði lítinn svitadropa af enninu. “Ef þessir asnar niðri á stöð vilja að við séum einhverjar barnapíur fyrir glæponana hafa þeir rangt fyrir sér.”
Það var óskaplega heitt. Ég leit út um eina gluggann á skrifstofunni sem við Chang deildum og sá kyrralífsmynd af limgerðinu og trjánum sem stóðu við Xue Han götuna. Það bærðist ekki eitt einasta lauf og það átti eftir að hitna með deginum. Chang stóð upp, dæsti og gekk letilega að krananum sem stóð við hliðina á skjalaskápnum og fékk sér vatnsglas.
“Þú veist að þeir eru farnir að nota dönsku aðferðina,” sagði hann og skrúfaði frá. “Alltaf eitthvað svoleiðis. Maður er nýfarinn að geta komið í veg fyrir þessa reiðhjólaþjófa og þá koma einhverjir aðrir af dekur-einbirna kynslóðinni sem þykjast geta fengið allt sem þeir vilja og nota dönsku aðferðina. Ég get svo svarið það.”
“Danska aðferðin” var einn af þessum starfsmannabröndurum sem kom upp á síðustu árshátíð. Þjófar í Danmörku höfðu tekið upp á því að smyrja danskri jarðaberjasultu á glugga á húsum sem þeir ætluðu að ræna, láta síðan dagblað yfir klístrugan gluggann og brjóta glerið án þess að nokkuð hljóð heyrðist. Þeir gátu síðan rænt og ruplað hverju sem er meðan allir voru í fastasvefni. Hér í Beijing þekkti fólk ekki hluti á borð við þjófavarnir og var því grunlaust þegar einhverjir óprúttnir tóku upp þessa sömu aðferð, líklegast eftir að hafa séð hana í framkvæmd í mynd um Olsen-gengið. Þegar Chang var í innbrotadeildinni hafði fengið fengið ótal mál inn á borð til sín þar sem húsráðendur voru í öngum sínum þegar þeir vöknuðu og sáu stofuna galtóma, fyrir utan rauðu sultuklessurnar á gólfinu.
“Þú og þín einbirna-kynslóð. Alltaf kennirðu þeim um það sem illa fer. Hvað með mig?” sagði ég og hló kurteislega. “Er ég ekki bara einn af þessum reiðhjólaþjófum sem gera ekki handtak fyrir utan að sníkja pening af afa?”
Samt hafði hann að vissu leyti rétt fyrir sér. Þegar ríkisstjórnin hrinti einbirnastefnunni í framkvæmd varð til kynslóð dekurrófa sem var miðpunktur allrar fjölskyldunnar og vandist því að geta fengið hvað sem var. Þótt ótrúlegt mætti virðast leiddust þeir einstaklingar frekar út í glæpi og Chang var ekki í vafa um hvers vegna. Sjálfur var ég eina barnið í minni fjölskyldu og eftir því sem ég óx úr grasi sá ég hvað þetta fyrirkomulag gat verið undarlegt. Ég hallaði mér aftur í stólnum og varð skyndilega feginn að vera staddur réttu megin við skrifborðið þegar fíkniefnaneytendur og þjófar voru leiddir inn á þessa hverfisstöð til skýrslugerðar.
Skyndilega heyrðist klingja í bjöllunum sem héngu fyrir ofan hurðina þegar dyrnar voru opnaðar. Inn gekk maður á miðjum aldri og á eftir honum þrír vestrænir ungir menn, líklegast frá Evrópu eða Bandaríkjunum. Þeir brostu til okkar og ég bauð þeim sæti.
“Góðan daginn,” sagði maðurinn áður en hann settist í hvíta hægindastólinn, “ég heiti Wang Li og er kominn til að skrá þessa ungu menn sem leigjendur hjá mér.”
Það var og. Á meðan ég seildist í neðstu skúffuna til að ná í eyðublöðin bað ég strákana um vegabréfin og gjóaði augunum á þá svo lítið bæri á. Sá stærsti þeirra var með dökkt hár, þreytulegur í útliti og virtist ekki alveg vera búinn að venjast hitanum. Hinir tveir voru með ljósara hár, norrænir í útliti, há kinnbein og nef og alltof mikið klæddir. Þeir voru allir með vegabréfin tilbúin og réttu þau fram án þess að segja nokkuð. Nújæja, Ísland, hugsaði ég með mér og skoðaði nöfnin þeirra, sem enduðu öll á Son.
Ég lét piltana hafa vegabréfin og brosti dauft. “Já þetta er fínt, ertu með leigusamninginn?”
Á stöðina okkar fengum við um það bil eina heimsókn á viku þar sem leigusalar komu með háskólanema, verkamenn eða ættingja frá útlöndum sem leigðu hjá þeim. Þá þurfti að fylla út leigusamning sem fékkst á aðalstöðinni og tryggja að þeir væru ekki ólöglegir innflytjendur eða eitthvað í svipuðum dúr. Í sumum tilfellum, hins vegar, nenntu leigusalarnir ekki að standa í svoleiðis veseni og komu bara með sína eigin samninga páraða á bréfsnifsi, kolólöglega að sjálfsögðu. Leigjendurnir skildu yfirleitt enga kínversku og voru því í raun varnarlausir gagnvart svona aðferðum. Wang rétti mér skítugan miða sem hann hafði skrifað sjálfur og ég bjó mig undir hina venjulegu gagnrýnisræðu.
“Þú veist að þetta gildir ekki, það er ekki hægt að gera svona samning upp á eigin spýtur. Hvernig veit ég að þessi vegabréf eru ekki fölsuð eða að þeir séu að koma ólöglega inn í landið.”
“Neinei það er í fínu lagi með þessa stráka,” sagði Wang og bað um vatnsglas. “Ég þyrfti að eyða tveimur dögum í biðraðageðveikinni á aðalstöðinni og þú veist nú hvernig konurnar í afgreiðslunni eru, ekki satt?”
“Það skiptir engu máli maður. Við fáum svona menn eins og þig á hverjum degi, heldurðu að ég hafi ekki nóg annað að gera?” Það var best að byrsta sig strax, annars gátu þessir leigusalar vælt í sífellu þangað til ég eða Chang nenntum ekki að standa í því lengur og skrifuðum leyfið upp á þá og vonuðum svo að ekkert slæmt myndi gerast. Íslensku strákarnir urðu svolítið skrýtnir á svipinn, litu hver á annan og sögðu eitthvað sín á milli.
Wang drakk vatnsglasið í einum sopa og hélt svo áfram. “Þið lögreglumennirnir eruð allir eins. Haldið að þið séuð svo mikilvægir, húkandi á ykkar stöðu endalaust án þess að gera mikið meira en að mæta klukkan níu og hengja jakkann á stólinn. Ég get sagt ykkur að það er ekki nóg að eiga einhvern frænda í yfirmannastöðu til að geta setið í þessari skítakompu allan daginn og hraunað yfir venjulegt fólk sem hefur ekki orku í að standa í kerfinu.” Síðustu setninguna sagði hann með töluverðri áherslu og skellti vatnsglasinu um leið á borðið. Chang blóðroðnaði og þóttist þurfa að hringja eitthvað og nú stóðu íslensku strákarnir hálf-kindarlegir og fitluðu við vegabréfin sín, óvart orðnir fórnarlömb í þessum vandræðalegu aðstæðum.
En það hafði fokið lítillega í mig. “Heyrðu góði, það hefur einhver gleymt að ala þig upp. Svíkjandi fé úr saklausum útlendingum og vælandi í lögreglumönnum yfir einhverjum biðröðum. Þú getur haft þetta eins og þú vilt, hunskastu út.”
Wang saup hveljur yfir þessum hörðu en hugsanlega réttmætu orðum. “Ég vona að ég þurfi aldrei að sjá framan í þig aftur,” sagði hann, fleygði miðanum á borðið og teymdi vesalings stráklingana út sem vissu nú hvorki upp né niður yfir því hvað væri að gerast. Þegar hann var búinn að koma þeim út og bjó sig undir hið sama sneri hann sér við í dyragættinni. “Veistu hvað það búa margir í þessu hverfi? Fimm milljónir. Það er svipað og í Danmörku, svo það eru ágætis líkur á því að ég muni aldrei sjá þig framar.” Með þetta snerist hann á hæli og skellti hurðinni svo glumdi í bjöllunum.
Ég sat eftir, hugsi, og horfði á krumpurnar í hvíta hægindastólnum þar sem Wang hafði setið. Eftir nokkrar mínútur kláraði Chang símtalið, hvað svo sem það snerist um, og horfði á mig augnaráði sem hvorugur skildi. “Þú getur bara farið núna,” sagði ég eftir drykklanga þögn, “ég þarf hvort eð er að vinna frameftir.” Það færðist feginsvipur yfir Chang sem byrjaði strax að taka saman skjölin og búa sig undir að fara heim. Ég reyndi hins vegar að finna eitthvað annað en hægindastólinn til að glápa á meðan ég hugsaði um verkefnin sem biðu mín. Hurðin lokaðist og ég var einn.
Klukkan var orðin kortér í tólf þegar ég lauk loksins við skýrsluverkefnið sem hafði mátt bíða alla vikuna. Þetta hafði verið ósköp venjulegur vinnudagur, þótt hann hafi verið í lengri kantinum, en það var eitthvað við hina óþægilegu heimsókn sem plagaði mig. “Fimm milljónir?” sagði ég við sjálfan mig um leið og ég tók til á skrifborðinu. “Hvers vegna sagði hann þetta? Fáránleg líking.”
Stuttu seinna renndi ég hjólinu inn ganginn á fyrstu hæð og teygði mig í lyklana í rassvasanum þegar ég sá að hurðin var opin í hálfa gátt og inni stóð nágrannakonan, náföl í andlitinu að tala við húsvörðinn. “Þetta er óskaplegt,” sagði hún og benti inn í stofu og ég steig inn og fann daufa lykt af jarðarberjasultu.
No comments:
Post a Comment