Ef íslensk tunga er aðeins spariflík
að endingu hún verður fagurt lík.
En sé hún höfð að ígangsklæðum enn
hún áfram lifir, ný og forn í senn.
Þórarinn Eldjárn kemst hér furðulega nálægt sannleikanum því dálkurinn Íslenskt mál birtist í sínum fínustu líkklæðum í Morgunblaðinu þann 22. apríl síðastliðinn. Þeir sem lesa þessa pistla eftir G. Friðjónsson(ekki er gefið upp hans fyrra nafn) hafa eflaust tekið eftir því að innihald þeirra minnir frekar á predikanir rykfallinna pokapresta heldur en fræðandi greinar um hina lifandi íslensku. Hinn dularfulli G. þylur upp endalaus dæmi um það sem honum finnst vera röng notkun á íslenskum forsetningum, orðtækjum o.s.frv. og skellir allri skuldinni á enskuna. Hann skrifar m.a.: "Oftast er um að ræða tökugóss sem hefur verið aðlagað íslensku, t.d. síðan er það opin spurning hvernig flensunni í Asíu vindur fram [e. open question; þ. eine offene Frage], Lögreglan reyndi að róa fólk niður [e. calm down]."
Herra G þeytist hér um með grímu að hætti Hugo Weaving og plaffar niður hina óforskömmuðu enskuskúrka sem sletta eins og Helgi Hóseason á allt sem fyrir ber. En það sem Herra G fattar ekki er að málfasisminn liggur hjá honum sjálfum. Hvað er að því þótt málfræði tungumálsins breytist? Eftir fimmtíu ár segja allir mig hlakkar til og ég vill og fólki finnst það bara fínt. Þessi þróun hefur átt sér stað(eða "er búin að eiga sér stað", til að pirra málfasistann) síðan orð eins og "uuugh" og "rurrr" duttu úr tísku. Hvar var herra G þegar germanska hljóðbyltingin átti sér stað? Klofnaði hann í herðar niður í einfaldan sérhljóða þegar trylltur múgurinn óð uppi með "ljóta" framburðinn sinn? Og hver nennir að lesa þessa pistla lengur? Þeir dóu með málfasismanum sem Ugluspegill hefur engu minni áhyggjur af en áhrifum úr öðrum tungumálum. Hvar eru gömlu gæðingarnir? Hvar er Guðni Kolbeinsson og málfarsmínúta hans?? Hversu lengi enn þurfum við að sitja uppi með einhverja rykfallna nöldurseggi sem herða snöruna hægt og rólega að hálsi íslenskunnar meðan við lýðurinn horfum aðgerðalaus á?
Það sem íslensk tunga þarf er alvöru undercover hetja sem svífst einskis í baráttu sinni gegn forpokun á íslenskunni. Það var fínt að hafa Rasmus Cristian Rask hérna 1823 að stinga kansellíblöðruna eins og gatasigti en núna er 2006, halló! Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af einhverju Gillzenegger slangri, Egill Skallagrímsson gæti barið hann í stöppu sama hvað hann "krullar mikið bís". Hin dularfulla íslenskuhetja myndi gera sletturum lífið leitt og vinna góðverk þeim sem tala og skrifa vandaða íslensku.
Guðni Kolbeinsson er hetjan okkar allra. Hann er hjálpin sem kemur til staðar þegar neyðin er stærst. Með korðann að vopni sker hann á þau graftarkýli sem grassera á bólugröfnu andliti íslenskunnar og ræðst að þeim hlutum sem virkilega plaga íslenskuna þegar herra G lætur sér nægja að ráðast á minnimáttar. "Íslensk tunga" morgunblaðsins er aumasta vopnið sem fyrirfinnst í vopnabúri málfarsráðunautanna. Fjölnismenn hefðu skammast sín.
Saturday, April 22, 2006
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment