Sunday, May 01, 2005

Í lok veislunnar

Ugluspegill nær las yfir sig í dag en náði þó að klára að þýða þessa sögu. Hún heitir á frummálinu The end of the party eftir Graham Greene, og fjallar um tvíburana Pétur og Frans sem eru níu ára.

Image hosted by TinyPic.com

Pétur Margeirsson vaknaði snögglega og fann sólargeislann skína framan í sig. Út um gluggann sá hann nakta trjágrein slúta þvert yfir silfraðan gluggarammann. Regnið ýrði á glerið. Það var fimmti janúar.

Hann horfði á náttborðið þar sem næturkertið hafði brunnið út í litlu vatnsskálinni sem lá við hitt rúmið. Frans Margeirsson svaf enn og Pétur lagðist aftur út af með höfuðið í átt að honum. Hann hugsaði til þess að í raun væri hann að horfa á sjálfan sig, sama hárið, sömu augun, varirnar og kinnbeinin. En sú hugsun hvarf fljótt, þegar hann mundi hvað gerði þennan dag svo sérstakan. Fimmti janúar. Hann trúði því varla að heilt ár hafði liðið síðan frú Kaaber hélt barnaafmæli hjá sér.

Frans velti sér skyndilega á bakið og lagði handlegginn yfir andlitið og munninn. Hjartað í Pétri byrjaði að slá hraðar, núna af óróleika. Hann settist upp við dogg og hrópaði yfir náttborðið “vaknaðu”. Öxlin á Frans fór að hristast og hann danglaði samankrepptum hnefa út í loftið með augun enn þá lokuð. Skyndilega fannst Pétri eins og allt herbergið myrkvaðist og risastór fugl sveimaði yfir öllu. Hann öskraði “vaknaðu!” og silfraða dagsljósið og regndroparnir á rúðunni birtust skyndilega aftur. Frans neri stírurnar úr augunum. “Varst þú að hrópa?” spurði hann.

“Þú fékkst martröð,” sagði Pétur. Reynslan hafði þegar sýnt hversu nákvæmlega hugar þeirra tveggja endurspegluðu hvor annan. Pétur var sá eldri. Reyndar aðeins nokkrum mínútum, en það forskot sem lét hann sjá hlutina fyrr á meðan bróðir hans var enn þá í myrkri hafði gefið honum traust til að standa á eigin fótum og hann verndaði bróður sinn ósjálfrátt sem var svo hræddur við ótal margt.

“Mig dreymdi að ég væri dáinn,” sagði Frans.

“Hvernig var það?” spurði Pétur forvitinn.

“Ég man það ekki,” sagði Frans og andaði léttar þegar hann sá hina silfurkenndu birtu úti og lét hina þokukenndu minningu um drauminn leysast upp.

“Þig dreymdi stóran fugl.”

“Er það?” Frans tók vitneskju bróður síns trúarlega án þess að spyrja frekar. Þeir lágu þöglir í rúmunum sínum nokkra stund með andlitin hvor að öðrum, sömu grænu augun, sama nefið sem var pínu uppbrett á nefbroddinum, sömu varirnar og hinar sömu barnslegu kinnar. Fimmti janúar, flaug í gegnum huga Péturs, og hugur hans reikaði. Hann hugsaði um allar kökurnar og verðlaunin fyrir kappleikina. Eggjaboðhlaup með skeiðar í munninum, alla að bíta í epli sem flutu um í vatnsfötum eða skollaleik.

“Ég vil ekki fara,” sagði Frans skyndilega. “Ég býst við að Jórunn verði þarna... og Magga Vilmunds.” Hugsunin um afmælisboð með þeim tveimur var honum hatursefni. Þær voru eldri en hann. Jórunn var ellefu ára og Margrét Vilmundsdóttir þrettán. Löngu tíkarspenarnir þeirra sveifluðust fyrirlitningslega þegar þær valhoppuðu um. Vegna þess að þær voru stelpur gátu þær niðurlægt hann með látlausu glápi þar sem hann handfjatlaði eggið klaufalega á skeiðinni. Og í fyrra... hann sneri sér frá Pétri með eldrauðar kinnar.

“Hvað er að?” spurði hann.

“Æi...ekkert. Mér líður ekkert alltof vel, ég er með kvef. Ég ætti ekki að fara í afmælisveisluna.” Pétur varð undrandi. “Bíddu, Frans, ertu nokkuð með slæmt kvef?

“Það verður það ef ég fer í afmælisveisluna. Kannski dey ég.”

“Þá geturðu ekki farið,” sagði Pétur með þunga, reiðubúinn að leysa öll heimsins vandamál með þessari einföldu setningu. Frans andaði léttar, feginn að geta látið allt í hendurnar á Pétri. En þrátt fyrir að hann væri feginn sneri hann sér ekki að honum. Roðinn í kinnum hans bar minningar sem hann skammaðist sín fyrir, þegar allir voru í feluleik í myrkvuðu húsinu, og þegar hann öskraði af hræðslu þegar Margrét Vilmunds greip skyndilega í höndina á honum. Hann hafði ekki heyrt hana koma. Þannig voru stelpur. Það heyrðist aldrei í skónum þeirra. Né brakaði í gólffjölum þegar þær fóru um. Þær læddust hljóðlaust um eins og kettir.

Þegar fóstran kom inn með heitt vatn í bala lá Frans kvíðalaus og lagði allt sitt traust á Pétur. Hann sagði “fóstra, Frans er með kvef.”

Hin hávaxna stirðbusalega kona lagði handklæðin hjá vatnskönnunum og sagði án þess að snúa sér við, “hreina tauið kemur ekki fyrr en á morgun. Þú verður bara að lána honum eitthvað af handklæðunum þínum.”

“En fóstra,” sagði Pétur, “á hann ekki bara að vera í rúminu?”

“Við förum bara í góðan göngutúr núna fyrir hádegi,” sagði fóstran. “Vindurinn blæs óværunni burt. Farið núna á fætur, báðir tveir,” og hún lokaði hurðinni á eftir sér.

“Fyrirgefðu,” sagði Pétur, og bætti við þegar hann sá áhyggjusvipinn, “þú skalt bara vera áfram í rúminu. Ég segi mömmu að þér hafi liðið of illa til að fara framúr.”

En slík uppreisn var of mikil fyrir Frans. Þar að auki ef hann lægi kyrr í rúminu myndu þau koma og athuga andardráttinn og setja hitamæli upp í hann og líta á tunguna, og þau kæmust að því að hann væri að gera sér þetta upp. Það var reyndar satt að honum leið mjög illa, með verki í maganum og öran hjartslátt en hann vissi að það væri vegna óttans, óttans við afmælisveisluna, við að þurfa að fela sig í myrkrinu án Péturs og án allra kerta eða lampa til að fara með bænirnar sínar.

“Nei, ég fer framúr,” sagði hann og bætti síðan við með angistarróm “en ég fer ekki í afmælisveislunnar til frú Kaaber. Ég sver við Biblíuna, ég fer ekki.” Nú myndi allt fara vel, hugsaði hann. Guð léti hann ekki þurfa að svíkja þennan trúnaðareið. Hann fyndi lausn á þessu. Allur morgunninn var framundan og eftirmiðdagurinn þangað til klukkan yrði fjögur. Það var engin ástæða til að hafa áhyggjur núna á meðan frostnálarnar væru enn þá á grasinu úti eftir næturfrostið. Allt gæti gerst. Hann myndi kannski skera sig eða fótbrjóta sig eða fá virkilega slæmt kvef. Guði hlyti að detta eitthvað í hug.

Hann bar svo mikið traust á Guð að þegar móðir hans sagði við morgunverðarborðið, “ég frétti að þú værir með kvef, Frans?” gerði hann lítið úr því. “Við hefðum átt að fá nánari fregnir af því ef ekki væri fyrir afmælisboðið seinna í dag,” sagði hún með vott af kaldhæðni. Frans brosti vandræðalega og hissa yfir afskiptaleysi hennar. Öryggistilfinningin hefði enst jafnvel lengur hefði hann ekki mætt Jórunni í göngutúrnum. Hann var einn með fóstrunni, því Pétur hafði fengið leyfi til að klára kanínubúr sem hann var að gera í viðargeymslunni. Væri hann með honum hefði Frans verið nokkurn veginn sama, fóstran var jú líka fóstran hans Péturs, en núna var eins og hún væri þarna bara hans vegna, því honum væri ekki treystandi að fara einn í göngutúr. Jórunn var aðeins tveimur árum eldri og hún var ein á ferð.

Hún kom askvaðandi að þeim með tíkarspenana dinglandi upp og niður. Hún leit hæðnislega á Frans og smeðjulega á fóstruna. “Góðan daginn fóstra, kemur þú með Frans í afmælisveisluna á eftir? Ég og Magga verðum þar líka.” Og síðan hélt hún áfram niður eftir götunni í áttina að Margréti Vilmunds, algerlega meðvituð um hvað hún var ein á ferð á stóru löngu götunni.

“En indæl stúlka,” sagði fóstran. En Frans sagði ekki neitt. Hann fann hjartað taka kipp um leið og hann gerði sér grein fyrir hvað var í raun stutt í afmælisveisluna. Guð hafði ekki gert neitt fyrir hann og mínúturnar liðu.

Þær liðu of hratt til að hann gæti skipulagt flótta af einhverju tagi, eða undirbúið sig andlega. Hann fékk vægt áfall þegar hann stóð allt í einu á útidyraþrepunum með ullartrefil um hálsinn til varnar köldum vindinum og horfði á rafmagnsvasaljósið sem fóstran hélt á lýsa fram á veginn í myrkrinu. Hann sá endurskinið af birtunni frá húsinu fyrir aftan sig og heyrði í brytanum vera að leggja á borð þar sem móðir hans og faðir myndu borða kvöldverð. Hann var gripinn löngun til að hlaupa aftur inn og kalla á móður sína og segja henni að hann færi ekki í veisluna, að hann þyrði því ekki. Þau gátu ekki neytt hann til að fara. Hann heyrði næstum sjálfan sig segja þessi orð, og í leiðinni brjóta niður alla þá múra afskiptaleysis sem voru milli hans og foreldra hans. “Ég er hræddur við að fara. Ég fer ekki. Ég þori því ekki. Ég þarf að fela mig í myrkrinu eins og allir hinir og ég er hræddur við myrkrið. Ég á eftir að öskra og öskra og öskra.” Hann gat séð fyrir sér svipinn á móður sinni, síðan myndi hann heyra þetta dæmigerða fullorðinslega svar: “Ekki láta svona. Þú verður að fara. Við tókum heimboðinu hjá frú Kaaber.” En þau gætu ekki látið hann fara. Hann vissi það þar sem hann stóð hikandi á útidyraþrepunum á meðan fóstran gekk eftir frostbrakandi grasinu að garðhliðinu. Hann myndi segja: “Þið getið sagt þeim að ég sé veikur. Ég fer ekki, ég er hræddur við myrkrið.” Og móðir hans: “Ekki láta svona. Þú veist að það er ekkert að óttast við myrkrið.” En hann vissi af lyginni í þessu svari. Hann vissi þegar þau sögðu honum einnig að það væri ekkert að óttast við dauðann væru þau samt hrædd við að hugsa um dauðann. En þau gætu ekki neytt hann til að fara í veisluna. “Ég öskra. Ég öskra.”

“Frans, komdu hingað.” Hann heyrði í fóstrunni hinum megin á dauflýstri grasflötinni og sá kringlótta ljósgeislann lýsa á tré, síðan á runna og svo aftur á tréð. “Ég er að koma,” hrópaði hann með angist í röddinni og steig niður af þrepunum. Hann gat ekki sagt móður sinni frá þessari leyndu myrkhræðslu sinni og brúað þar með gjána sem lá milli þeirra, því hann hélt enn þá í hálmstráið að geta talið frú Hönnu Kaaber á að þurfa ekki að vera með.

Á meðan hann gekk að hinum bústna skrokki hennar gat hann enn þá huggað sig við þetta hálmstrá. Hjartað barðist óreglulega í brjósti hans en núna hafði hann stjórn á röddinni og sagði: “Gott kvöld frú Kaaber, það var indælt af yður að bjóða mér í veisluna.” Eftir þessa setningu leit hann út eins og hjartveikt gamalmenni þar sem hann stóð og horfði upp að henni. Frans blandaði nefnilega ekki miklu geði við önnur börn. Sem tvíburi var hann að mörgu leyti einkabarn. Að tala við Pétur var eins og að tala við spegilmynd sína, spegilmynd sem var örlítið brengluð af glerinu í speglinum. Í honum mátti sjá þann Frans sem hann væri ef hann væri ekki svona hræddur við myrkur, fótatak ókunnugra og leðurblökur í dimmum görðum.

“Elsku barn,” sagði frú Hanna Kaaber hálfshugar og smalaði krökkunum saman eins og flokk af hænum. Hún skellti þeim í alla leikina á listanum sem hún var búin að gera, eggjaboðhlaupið með skeiðunum, kapphlaup þar sem tveir voru bundnir saman á annarri löppinni og eplaleikinn, sem Frans fannst vera hámark niðurlægingarinnar. Þegar hann þurfti ekki að gera neitt stóð hann úti í horni eins langt frá augnaráði Möggu Vilmunds og hann gat, og hugsaði hvernig hann gæti komið sér undan þessum hræðilega feluleik. Hann hafði gálgafrest þangað til eftir tetímann, og þegar hann sat við langborðið og horfði á bjarmann frá tíu kertum á afmæliskökunni hjá Kalla Kaaber gerði hann sér raunverulega grein fyrir því hversu stutt var eftir. Á meðan allar hugsanir um undankomu flugu um höfuð hans heyrði hann skerandi rödd Jórunnar: “Eftir tetímann skulum við fara í feluleik í myrkrinu.”

“Æi nei,” sagði Pétur um leið og hann horfði á angistarfullt andlit Frans, “ekki gera það. Við förum í feluleikinn á hverju einasta ári.”

“En það er í dagskránni,” hreytti Magga Vilmunds út úr sér með frekjulegum tón. “Ég sá það sjálf. Ég kíkti yfir öxlina á frú Kaaber. Klukkan fimm: Tetími. Kortér í sex til hálfsjö: Feluleikur í myrkrinu. Það stendur allt hérna.”

Pétur svaraði engu, því ef það stóð í dagskránni hjá frú Kaaber þýddi ekkert að malda í móinn. Hann spurði hvort hann mætti fá aðra kökusneið og saup á teinu sínu. Kannski væri hægt að seinka feluleiknum um kortér eða svo, til að Frans gæti fengið örlítinn tíma í viðbót til að finna einhver ráð. En þarna gat meira að segja Pétur lítið gert. Allir krakkarnir voru þegar staðnir upp frá borðum tvö og tvö eða þrjú og þrjú saman. Þetta var þriðja skyssan sem hann gerði í dag og hann sá aftur eins og endurspeglun úr öðrum huga stóran fugl sem myrkvaði andlit bróður síns með vængjunum. En hann hratt frá sér þeirri hugsun og kláraði kökusneiðina á meðan hann þuldi yfir þessa setningu sem hann hafði heyrt svo oft áður: “Það er ekkert að óttast við myrkrið.” Þeir bræður voru síðastir frá borðinu og gengu inn í stóra anddyrið þar sem frú Hanna Kaaber stóð með rannsakandi og óþolinmótt augnaráð.

“Og nú,” sagði hún, “förum við í feluleik í myrkrinu.” Pétur leit á bróður sinn og sá varir hans klemmast saman. Hann vissi að Frans hafði óttast þessa setningu frá því þeir komu í afmælisveisluna en hafði reynt að herða upp hugann. Á meðan hinir krakkarnir sögðu hver við annan “já, já, förum í feluleik,” væri Frans að biðja heitt til Guðs að hann fyndi einhverja ástæðu til að þurfa ekki að vera með. “Förum endilega í feluleik,” sögðu krakkarnir. “Við skulum skipta í lið. Er allt húsið með? Hvar er stikkið?”

“Ég held,“ sagði Frans Margeirsson eftir að hafa gengið óstyrkum sporum að frú Hönnu Kaaber, “að það taki því ekki fyrir mig að vera með. Fóstran sagði okkur að við þyrftum bráðum að fara.”

“Nei nei, fóstran ykkar getur alveg beðið,” sagði Frú Kaaber annars hugar og benti nokkrum krökkum sem höfðu þegar ætt upp stigann að koma til baka. “Móður ykkar verður ábyggilega alveg sama.”

Við þessu átti Frans bókstaflega engin svör. Hann hafði verið viss um að þessi afsökun virkaði. Það eina sem hann gat sagt, í þessum afsökunartón sem hin börnin þoldu ekki, var “ég held ég ætti kannski ekki að vera með.” Hann stóð hreyfingarlaus í sömu sporum og sýndi engin svipbrigði þótt hann væri dauðhræddur. En vitneskjan um hræðsluna, eða kannski frekar spegilmynd hennar, var einnig vitneskja bróður hans. Í dálitla stund var Pétur Margeirsson næstum því búinn að öskra upphátt af hræðslu við að ljósin yrðu slökkt og hann skilinn einn eftir á miðju gólfinu með hrollvekjandi fótatak í kringum sig. Síðan sá hann að þetta var ekki hans eigin ótti, heldur bróður hans. Hann sagði við frú Kaaber án þess að hugsa sig um “fyrirgefðu, frú, en ég held að Frans ætti ekki að vera með. Hann verður svo skelkaður við myrkrið.”

Þetta var það versta sem hann gat sagt. Sex börn byrjuðu að syngja “hræðsluskjóða, hræðsluskjóða,” og litu á Frans Margeirsson með sakleysislegum barnsandlitum sem gátu verið grimmari en nokkuð annað. Án þess að líta á bróður sinn sagði Frans, “auðvitað verð ég með, ég er ekki hræddur, ég hélt bara að...” En það voru allir búnir að gleyma honum. Í staðinn fyrir háðsglósur frá hinum krökkunum kom nú hinn yfirþyrmandi ótti sem var margfalt verri. Börnin þyrptust í kringum frú Kaaber og héldu áfram að spyrja hana sömu spurninga. “Já, allt húsið er tekið með. Við slökkvum á öllum ljósunum. Já, þið megið fela ykkur í neðstu skápunum. Þið verðið að vera í felum eins lengi og leikurinn stendur yfir. Nei, það er ekkert stikk.”

Pétur stóð skömmustulegur yfir klaufaskapnum í sér. Hann fann í huga sér hvað Frans var sár yfir þessu frumkvæði hans. Nokkrir krakkar hlupu upp stigann, og ljósin á efstu hæðinni slokknuðu. Síðan kom myrkrið neðar og neðar eins og vængir á leðurblöku sem settist á stigapallinn. Önnur börn slökktu á ljósunum í enda stofunnar og loks voru engin ljós eftir fyrir utan ljósakrónuna þar sem öll börnin voru samankomin fyrir neðan. Í kringum sveimuðu leðurblökurnar alls staðar yfir og biðu þess að slökkt yrði á henni líka.

“Þú og Frans eruð í liðinu sem á að fela sig,” sagði hávaxin stúlka. Síðan varð allt dimmt. Honum fannst gólfteppið dúa undan sér þegar hann heyrði alla hlaupa í burtu út í hornin. “Hvar er Frans?” hugsaði hann, “ef ég finn hann verður hann ekki eins hræddur við öll þessi hljóð.” Þessi hljóð voru hljóð sem einkennir þögnina, þegar ískrar í ryðgaðri hjör, einhver lokar gólfskáp eða þegar fingur er dreginn eftir lökkuðum viði.

Pétur stóð í myrkrinu á miðju gólfinu. Hann var ekki að hlusta heldur beið eftir skilaboðum frá bróður sínum um hvar hann væri. Frans lá einhvers staðar í hnipri með hendur fyrir eyrum og augun lokuð þótt það hefði ekkert að segja. Hugur hans var nær ónæmur fyrir allri skynjun. Skyndilega heyrðist rödd segja “byrjað að leita!” og Pétur hrökk við eins og bróðir sinn hefði gjörsamlega brotnað saman. Það sem var fyrir Frans grípandi ofsahræðsla sem minnkaði ekki heldur jókst og jókst, var fyrir honum óeigingjarn vilji til að hjálpa honum. “Ef ég væri Frans, hvar myndi ég fela mig?” hugsaði hann í skyndingu. Svarið kom fljótt. “Á milli eikarskápsins vinstra megin við dyrnar á lesstofunni og leðursófans.” Það kom honum ekkert sérstaklega á óvart hversu svarið kom fljótt. Það var ekkert fjarhrifsskynjanabull á milli tvíburanna. Þeir höfðu verið saman í móðurkviði og það komst ekkert á milli þeirra.

Pétur læddist hljóðlega að felustað Frans. Við og við brakaði í stól eða borði. Til að láta minna á sér bera beygði hann sig niður og ætlaði að fara úr skónum. Krossinn sem hann bar um hálsinn slóst í gólfið og hið málmkennda hljóð varð til þess að fjölmörg fótatök bárust í áttina að honum. En hann var fljótt kominn á sokkaleistana og hefði skellt upp úr ef hljóðið sem myndaðist þegar einhver datt um skóna hefði ekki vakið ótta bróður hans. Nú gat hann læðst betur um. Hann fór á sokkaleistunum eins hratt og hann gat í átt að bróður sínum án þess að það heyrðist. Af eðlisávísun vissi hann að Frans væri nálægt veggnum og setti fingur fyrir munninn á honum.

Frans öskraði ekki, en það óttakast sem hann fékk gaf Pétri nokkra hugmynd um hvað hann var hræddur. “Þetta er allt í lagi,” hvíslaði hann og þreifaði fyrir sér þangað til hann fann þvalan lófa hans. “Þetta er bara ég. Ég skal vera hjá þér.” Og er hann greip í hina höndina hlustaði hann á klið af hvísli sem hafði myndast við atganginn.

Einhver snerti bókaskápinn nálægt höfði Péturs og hann fann um leið hvernig Frans brást við. Ótti hans var núna ekki eins mikill, vonaði hann, en hann var enn þá þarna til staðar. Hann vissi að það var ótti bróður síns en ekki sinn eiginn sem hann fann fyrir. Fyrir honum var myrkrið aðeins fjarvera ljóss. Hann beið þolinmóður eftir að vera fundinn.

Þeir sögðu ekkert meir, því á milli Frans og Péturs var snerting nánasta samskiptaleiðin. Með því að halda í hendur hvors annars gátu hugsanir flogið á milli margfalt hraðar en með orðum. Pétur gat upplifað allan ótta Frans, frá ofsahræðslu til staðbundins ótta sem hélt áfram og áfram samfara hjartslætti hans. Pétur hugsaði, “ég er hérna hjá þér. Þú þarft ekki að vera hræddur. Ljósin munu kvikna bráðum. Það er ekkert að óttast við þessi hljóð. Þetta er ábyggilega Jórunn, eða Magga Vilmunds.” Hann hélt stöðugt áfram að hughreysta bróður sinn, en samt jókst óttinn í sífellu. “Þau eru byrjuð að hvísla á milli sín. Þau eru bara orðin þreytt á að leita að okkur. Ljósin mun kvikna. Við höfum unnið leikinn. Ekki vera hræddur, þetta var bara einhver í stiganum, ábyggilega frú Kaaber. Hlustaðu, þau eru að leita að ljósrofunum.” Fótatak heyrðist á teppinu, hendur sem þreifuðu á veggjunum, gluggatjald var dregið frá, einhver ýtti á rofa og annar opnaði gólfskáp. Laus bók í skápnum fyrir ofan þá datt á hliðina þegar einhver rakst í. “Bara Jórunn, eða Magga Vilmunds eða frú Kaaber,” hélt Pétur áfram stöðugt áður en kviknaði á ljósakrónunni eins og nýútsprungið blóm.

Raddir barnanna jukust og urðu stöðugar. “Hvar er Pétur? Er búið að gá uppi? Og hvar er Frans?” en allir þögnuðu um leið og frú Hanna Kaaber öskraði. En hún var ekki sú fyrsta sem sá Frans þar sem hann hafði dottið að veggnum og lá hreyfingarlaus á gólfinu. Pétur hélt enn þá í hönd hans, bæði undrandi, reiður og furðu lostinn. Það var ekki nóg með að bróðir hans væri dáinn. Hugur hans áttaði sig ekki á því hvers vegna ótti bróður hans væri enn þá til staðar. Hann var of ungur til að skilja mótsagnirnar til fulls, en þar sem Frans var staddur nú fannst enginn ótti og ekkert myrkur.

1 comment:

Kristján Hrannar said...

Nei, hún er svo skemmtileg, ég læt ykkur bara njóta hennar á frummálinu :)