Þær vikur sem nú fara í hönd munu reynast mörgum dimmiterum erfiðar. Til að létta byrðina sem próflestri fylgja er gott að gera eftirfarandi:
Farðu út í búð og kauptu þér kaffivél og nokkra kassa af kaffi. Settu vélina á góðan stað í eldhúsinu og hengdu upp dagatal fyrir ofan. Fyrir hvern dag verðurðu að hella upp á fjórum sinnum og merkja það skilmerkilega á dagatalið. Kaffi er eitt mikilvægasta hjálpargagnið sem hinn morkni stúdentsheili þarf til að fúnkera yfir daginn. Ekki er leyfilegt að svíkjast undan með því að gefa hundinum einn til tvo bolla heldur er skylda að drekka allt kaffið einn.
Eftir að hafa torgað nokkrum könnum af kaffi skaltu búa til gervi-einkunnaskjal. Fáðu einhvern á heimilinu til að skrifa lélegar einkunnir á það, setja borða utan um og afhenda þér nokkrum sinnum á dag með hamingjuóskum. Þetta undirbýr þig andlega fyrir skólaslitin auk þess sem það verður ekkert slæmt lengur að taka á móti lélegum einkunnum.
Kauptu þér götusóp. Farðu með hann niður í gatnamálaráðuneyti og hjálpaðu götusópurunum að hreinsa götur bæjarins. Þetta ætti að koma þér betur í skilning um að það er allt í lagi að enda sem götusópari ef illa gengur í prófunum. Eftir að hafa sópað nokkrar götur er tilvalið að skola því niður með vænum skammti af kaffi.
Farðu á netið og náðu í nokkur gömul stúdentspróf. Fylltu þau út eins og um venjulegt próf væri að ræða og láttu einhvern kennara fara yfir þau. Sé einkunnin 5 er allt í lagi en fáirðu hærra en fimm skaltu þreyta prófið aftur þangað til þú færð nákvæmlega 5. Þegar þú hefur náð þeirri hárfínnu línu að bulla sig upp í fimmuna skaltu verðlauna þig með meira kaffi.
Að kaffidrykkju lokinni skaltu fara á fyrirlestur upp í háskóla hjá einhverjum prófessor. Ugluspegill mælir með fagi sem enginn botnar í, t.d. forspjallsheimspeki eða næringarfræði. Þegar þú hefur virt fyrir þér sveitta háskólanema sem standa í þessu rugli á hverjum degi líður þér miklu betur yfir að vera bara í stúdentsprófum.
Passaðu þig svo á því bara að drekka nóg af kaffi.
kaffi
kaffi
Sunday, April 09, 2006
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment