Einu sinni var Ugluspegill að sækja aldurhnigna ömmu sína í klippingu í ónefnda hárgreiðslustofu. Þar sem dágóður tími virtist þangað til hún yrði tilbúin settist Ugluspegill niður í hægindum sínum og fór að fletta Vikunni.
Í því blaði rakst hann á, eins og hann hefur gert annars staðar, grein eftir virtan sálfræðing sem fjallaði um niðurstöður rannsóknar hans á fólki sem blandaði saman vinnu og einkalífi. Sagt var frá lögfræðingi nokkrum sem hafði eitt sinn meira að gera en venjulega svo hann brá á það ráð að fara yfir mál skjólstæðinga sína á kvöldin þegar hann var kominn heim úr vinnunni.
Með tímanum tók hann að sér æ fleiri mál þar eð hann var í raun farinn að vinna nokkurs konar yfirvinnu í rúminu á kvöldin en að sama skapi fór lögfræðingurinn að finna fyrir streitu, stefnleysi og öðrum kvillum af sama tagi þar eð hann var ekki lengur viss um hvenær hann væri laus frá amstri vinnunnar og hvenær ekki. Í lok greinarinnar ráðlagði sálfræðingurinn fólki að klára dagsskyldur sínar á vinnustað eða að minnsta kosti ekki gera neitt sem tengdist vinnunni heimavið.
Á leiðinni heim fór Ugluspegill að hugsa hvort hann sem nemi í menntaskóla væri ekki einmitt að þverbrjóta þessi ráð sem gefin voru í greininni. Þeir nemar sem lesa þetta vita að í lok hvers skóladags er maður fjarri því laus frá skyldum dagsins hvað skólann varðar því á herðar nemenda er hlaðið töluverðu magni af skyndiprófum, ritgerðum, verkefnablöðum o.s.frv. sem þeim er sagt allt frá upphafi sinnar skólaskyldu að klára heima hjá sér. Ugluspegill kannast við þá tilfinningu að telja sig loksins vera kominn heim til að geta hvílt sig en uppgötvað sér til armæðu að hans bíður heilmikil vinna í viðbót.
Væri ekki betra ef þessi vinna færi öll fram í skólanum rétt eins og á flestöllum vinnustöðum í þjóðlífinu? Ugluspegill spurði nokkra samnemendur sína.
Fyrst mætti hann og Sigurður Kári honum Gunnari Erni fyrir utan Cösu Nova.
Hvað finnst þér Gunnar um það að nemendur þurfi að gera skólaverkefni heima hjá sér?
Mér finnst það asnalegt kerfi, við erum í rauninni að taka vinnuna heim með okkur. Það væri betra að við værum lengur í skólanum og þyrftum þá ekki að hafa áhyggjur af honum heimavið.
Telurðu að það hafi í för með sér aukna vinnu fyrir kennara þar eð þeirra bíður líka töluvert af verkefnum þegar þeir hætta kennslu?
Nei, ég hef þá skoðun að kennarar eigi að byggja einkunnir sínar á mati en ekki skyndiprófum eða tímaverkefnum sem taka eilífan tíma frá kennurum og nemendum. Það ætti að lengja kennslutímann og gera hann þar með virkari. Svo finnst mér við mættum hafa betri kennara, þeir eru ekkert spes.
Við héldum áfram inn í Cösukjallara og hittum þar Sögu Garðarsdóttur að borða epli.
Saga, hvað finnst þér um fyrirkomulag heimavinnu? Myndirðu frekar vilja gera hana í skólanum?
Já!, þá fæ ég ekki alltaf samviskubit og svona þegar ég kem heim og þarf að fara á handboltaæfingu eða kóræfingu eða morfís eða eitthvað, heldur get ég bara einbeitt mér að því sem ekki tengist skólanum! Takk fyrir að segja mér þetta, núna ætla ég alltaf bara á íþöku eftir skóla.
Með þetta fór Saga í burtu, en við ákváðum að spyrja einn í viðbót. Daníel Friðrik var í fótboltaspilinu rétt hjá.
Jæja Danni, hefur þú tekið eftir því t.d. í dagblöðum eða sjónvarpi að fólki sé ráðlagt að blanda ekki saman vinnu og einkalífi?
Já, það hef ég.
Fyndist þér þá réttlátt að til dæmis skylda nemendur til að eyða ákveðnum tíma á Íþöku eða einhverjum stað eftir skóla þar sem þeir myndu vinna heimaverkefnin sín?
Já, þótt það yrði soldið flókið. Margir nemendur myndu sjálfsagt bara slæpast og ekki nenna að gera neitt, en þannig er það því miður oft einnig í tímum.
Myndi þá ekki dembast yfir enn meiri vinna á kennarana þar sem þeir þurfa þá að vinna miklu lengur?
Nei því mín skoðun er að það ætti að fjölga kennurum, að skapa fleiri störf.
Samkvæmt óformlegri könnun sem Ugluspegill gerði í bekknum sínum var mikill meirihluti andvígur því að þurfa að gera verkefni heima hjá sér. En hver er hinn raunverulegi tilgangur heimavinnu? Hvenær dagsins hættir maður í hinum "venjulega" skóla og byrjar skóladag hins lífsins? Hvenær er maður að læra og hvenær ekki?
Að mati Ugluspegils er vafasamt hvort bera megi til dæmis saman vinnu þess sem er í járnabindingum og þess sem er í menntaskóla. En á hinn bóginn væri það fullkomlega í takti við þjóðlífið að nemar hættu líka vinnu á sama tíma og foreldrar þeirra.
Er hinn upprunalegi tilgangur heimavinnu að virkja hjá nemendum sjálfstæð vinnubrögð og fela þeim ákveðið traust? Væri það óþarfa eftirlit að vakta nemendur þegar þeir vinna heimavinnuna sína? Hverju sem því líður er ljóst að gildi og skilgreiningu heimavinnu þarf að endurskoða frá grunni.
Tuesday, January 31, 2006
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment