Blaðamenn Ugluspegils, þeir Kristján 5.A og Sigurður 5.U fóru á Laugaveginn í dag. Þetta var fyrsta heimsóknin af mörgum í búðarýninni þar sem þeir taka fyrir flestallar búðir götunnar (sem ekki er búið að rífa) og veita þeim stjörnugjöf(eða í þessu tilviki uglugjöf). Í fyrstu lotu verður fjallað um hina markaðsráðandi smávörubúð Tiger.
Í þessu húsi, Laugavegi þrettán sem áður hýsti plötubúðina Japis er nú komin þessi búð. Hún selur allt á milli himins og jarðar og þótt víðar væri leitað. Ugluspegill og Sigurður fengu nostalgíutilfinninguna hríslast niður bakið á sér er þeir gengu um gólf þessa gamla húss sem fyrrum hýsti endalausa plöturekka sem geymist í sætum bjarma í minningunni.
Ein stúlka var að afgreiða og spurðu þeir kumpánar hana spjörunum úr.
Jæja, hvernig ganga svo viðskiptin?
Alveg glimrandi vel skal ég segja ykkur(snýst síðan við að afgreiða þrjá kúnna með föngin full af vörum), eins og þið sjáið er nóg að gera. Það skemmtilega er að það fer líka eftir veðri hvað fólk kaupir. Í dag hefur rignt nokkuð sem þýðir að regnhlífarnar rjúka út.
Já það má með sanni segja...færðu mikið af MR-ingum hingað?
Ekki svo ég viti til þótt einstaka viðskiptavinur sé í MR bol. Hins vegar koma margir námsmenn sem hafa kannski ekki of mikið milli handanna. Talandi um það, þá kom einn hingað í búðina og keypti vörur fyrir þrjátíu og þrjú þúsund krónur. Síðan kom Örn Árnason leikari um daginn í leit að einhverju sem hann gæti notað sem skammarverðlaun á árshátíð. Hann endaði á því að kaupa þetta:
Ef Josef Ratzinger kæmi hingað, hvað myndirðu reyna að selja honum?
Hver er Josef Ratzinger?
Það er nýkjörinn páfi.
Já ókei. Ég veit það ekki, kannski selja honum Búddha-styttur. Því miður seljum við ekki smokka(hlær).
Þið virðist nú selja allt annað en smokka. Hver myndirðu segja að væri aðalkeppinauturinn á markaðnum?
Ja, ætli það sé nokkur keppinautur?
Þannig að þið eruð markaðsráðandi fyrirtæki?
Já ætli það ekki?
“Það setur ykkur í nokkuð slæma stöðu ef þið ætluðuð að kaupa kannski fjölmiðil?” gellur þá í Sigurði.
Nú var allt orðið brjálað í versluninni svo þeir töfðu afgreiðslukonuna ekki lengur. Þess í stað fóru þeir í stutta skoðunarferð um búðina.
Á heildina litið er þetta skemmtileg búð. Hún er björt og rúmgóð og maður getur verið viss um að finna eitthvað ómissandi, jafnvel þótt engin not hafi verið fyrir hlutinn fyrir. Svo kostar allt bara tvöhundruð eða fjögurhundruð kall sem er þægilegt fyrir budduna. Tiger búðin fær átta uglur af tíu.
No comments:
Post a Comment