Þeir sem þekktu Harald Garðarsson vissu að það stóð Jón Garðarsson utan á dyrabjöllunni hans. Hann bjó einn á annarri hæð við Lokastíg í grænu, fallegu húsi og þegar sá sjaldgæfi atburður gerðist að einhver dinglaði hjá honum sem hann þekkti ekki skipti það ekki máli þótt hið raunverulega nafn hans stæði ekki á bjöllunni.
Stundum spurðu vinir hans Harald að þessu, oftar í gríni heldur en í alvöru, og Haraldur svaraði á móti að ástæðan fyrir því að það væri svona góður andi í húsinu væri því hann fengi að vera á dyrabjöllunni í staðinn fyrir hann sjálfan. “Þið munið eftir sögunni af númer sautján, strákar,” sagði hann yfirleitt í kjölfarið. “Þegar nýr eigandi flutti í húsið var hann ásóttur af andanum í húsinu sem sagðist heita Meyfróður, og vildi fá að vera með á dyrabjöllunni, en eigandinn vildi það ekki, því hann var hreinn sveinn og fannst nafnið ekki passa.”
Þegar Haraldur keypti húsið hafði áður búið þar gömul kona sem var með óteljandi blómategundir í garðinum. Hún tók háalvarlegt loforð af honum að hann skyldi nú vera duglegur að vökva þau og annast því henni liði betur á elliheimilinu vitandi af því að blómin hennar væru í góðu standi.
Jæja þá, sagði Haraldur á sínum tíma, þetta er jú eiginlega hennar blóm og því þá ekki hennar garður?
Hann komst fljótt að því að garðurinn þurfti að minnsta kosti klukkutíma aðhlynningu á dag til að halda öllu í lagi, því allt í einu virtist hann hafa stækkað um helming og litlu sætu blómin voru orðin að dauðþyrstum vatnssvelgjum sem virtust gefa upp öndina við minnsta frávik. Þrátt fyrir að það væri brjálað að gera á viðgerðarstofunni púlaði Haraldur samviskusamlega á fjórum fótum að arfahreinsa, vökva og mosatæta. Hann þurfti oft að taka með sér heim töskur, gleraugu, straujárn og jafnvel heilu ruggustólana sem hann var að laga langt fram á nótt.
Það var því ekki laust við að hann fengi leynda feginstilfinningu þegar hann sá andlit hennar í minningargreinunum einn daginn þó vottur af samviskubiti fylgdi á eftir, svo hann sleppti vökvun í garðinum einn daginn og mætti í jarðarförina, sem var að sjálfsögðu svo yfirfull af blómum að presturinn þurfti stundum að brýna röddina til að yfirgnæfa hnerrakórinn kringum kistuna.
“Nú get ég loksins einbeitt mér að viðgerðunum í staðinn fyrir þennan fjandans garð,” hugsaði Haraldur þegar hann kom heim úr jarðarförinni og lokaði hliðinu. Hann hafði reglulega fengið skot frá félögunum yfir að vera aftur kominn í unglingavinnuna að reyta arfa fyrir gamlar kellingar sem væru í tygjum við húsdrauga á dyrabjöllunni.
Nokkrum mánuðum síðar voru þeir voru á barnum og hann hafði fengið sér nokkrum bjórum of mikið. “Andinn lifir, strákar,” sagði hann og þrumaði vísifingrinum út í loftið. “Ég reyndi eitt sinn að skipta um nafnspjald á bjöllunni, en nóttina eftir að ég tók það niður ætlaði allt að verða vitlaust í húsinu; um morguninn voru hnífapörin komin í diskahilluna, diskarnir voru í ruslafötunni og ruslið í henni komið í hnífaparaskúffuna.” Hann gleypti síðasta sopann og ýtti glasinu að Jónasi. Þeir höfðu verið vinir síðan í grunnskóla og hann hafði heyrt þessa dyrabjöllusögu hundrað sinnum, og aldrei almennilega trúað henni, en samt fannst honum skrýtið að Halli, sem gerðist aldrei uppvís að lygum, skyldi halda þessu svona sterkt fram. Þegar hann fór út á lífið hafði hann alltaf þann sið að bjóða upp á alla drykki fyrir alla, og þverneitaði að þiggja sama greiða á móti. Með því að ýta glasinu að honum meinti hann að Jónas ætti að ná í tvo í viðbót, og báðir vissu í boði hvers. “Sparaðu þúsund kallinn Halli,” sagði Jónas og setti sitt ofan í hans, “röltum bara heim.”
Þeir fóru upp Bankastrætið og þaðan á Skólavörðustíginn. Þegar þeir gengu inn um hliðið á Lokastígnum sá Jónas glitta í blómaskarann hjá ljósastaurnum. “Bíddu Halli, ekki segja mér að þú sért ennþá að vökva þetta plöntudrasl?”
“Nei ég hætti því þegar kellingin dó...en eftir viku leit garðurinn enn nákvæmlega eins út, og eftir mánuð voru þessar fjólur meira að segja orðnar helmingi stærri, og svo rigndi ekkert maður. Svo byrjuðu einhverjar grenihríslur að pota sér upp og þá fannst mér þetta of krípí og reyndi að hætta að hugsa um það.”
Jónas horfði á hurðina lokast þegar Haraldur gekk inn, og hristi hausinn og sneri við. “Hann er að verða ruglaður,” hugsaði hann með sér og bjóst til að fara aftur á barinn.
Einn daginn eftir vinnu var Haraldur að taka til í verkfærakassanum sínum þegar dyrabjallan hringdi. Það var hellidemba úti og þar sem hann hafði skynsamlegt vantraust á íslenskri veðráttu fannst honum fátt betra en að hella upp á kaffi, taka allar tangir, skrúfjárn og klippur upp úr verkfærakassanum, þrífa í bak og fyrir og raða svo samviskusamlega ofan í meðan regnið buldi á þakinu.
En dyrabjallan hringdi. Tvisvar meira að segja. Haraldur var að pússa rörtöngina(sem var farin að ryðga, hann lagði á minnið að kaupa sér nýja við tækifæri), gekk að dyrunum og opnaði.
Úti stóð stúlka, á að giska rétt yfir tvítugt. Hún var rennandi blaut, með rauða lopahúfu og hvítt ullarsjal yfir herðarnar sem var allt skakkt á henni út af bleytunni. Hún brosti til Haralds og rétti honum höndina. “Hæ, ég heiti Linda. Sorrí ef ég er að trufla eitthvað, en gemsinn minn varð batteríslaus og ég þyrfti að hringja í leigubíl til að komast heim. Má ég fá að nota símann?”
Haraldur varð dálítið hissa og stóð í dyragættinni nokkra stund áður en hann gat sagt nokkuð. “Ha já, að sjálfsögðu, endilega komdu inn. Viltu ekki þurrka þér, þú getur hengt af þér þarna.” Hann benti inn í forstofuna með risavöxnu rörtönginni áður en hann áttaði sig og lagði hana vandræðalega frá sér á kommóðuna. Stúlkan gekk inn, fór pent úr skónum sem byrjuðu strax að mynda poll á gólfinu. Síðan tók hún af sér sjalið, teygði sig út á dyrapallinn og byrjaði að vinda það um leið og hún hló feimnislegum hlátri, þessum hlátri sem fallegar stúlkur búa aðeins yfir þegar þær fá að koma inn til ókunnugs manns að þurrka fötin sín.
“Langar þig kannski í kaffisopa?” spurði Haraldur. “Ég var einmitt að hella upp á ef þú vilt.” Hann fór inn í eldhús og náði í annan bolla. Á leiðinni til baka staðnæmdist hann og horfði á stúlkuna bisa við að koma sokkunum af sér, sem gerði verkið aðeins erfiðara vegna þess að enginn stóll var nálægt. “Hérna, sestu niður og fáðu þér eitthvað heitt. Ég á líka eftir að kynna mig og svona, ég heiti Haraldur.”
“Já hæ,” hún tók sopa með augun lokuð. “En stendur ekki Jón á bjöllunni?”
“Humm jú sjáðu til, einu sinni voru hnífapörin farin alla leið upp í diska...”
“Nei hvað heitir þessi!” sagði hún og hló þegar hundurinn hans kom hlaupandi inn ganginn áður en Haraldur náði að útskýra hvert ruslið hefði endað. “Hann heitir Lappi,” svaraði hann og fannst allt í einu Lappi vera fáránlegt nafn, eins og eitthvert hundspott úr barnabók eftir Enid Blyton sem kynni að tala og væri ekki flaðrandi upp um Lindu eins og hans heimski hundur var að gera.
Hún hætti skyndilega að kjassa hundinum og leit á Harald hugsandi augnaráði. “Heyrðu, manstu ekki eftir Enid Blyton bókinni sem var með einhverjum Lappa...? Ég ímyndaði mér hann alltaf nákvæmlega svona.” Hún tók annan sopa af kaffinu. “Finnst þér ekki merkilegt hvað hundar eru tilbúnir að gera allt fyrir mann án þess að fá endilega nokkuð til baka, nema kannski hundamat? Mér finnst alltaf að við mættum gera meira af því.”
Haraldur fann ekkert sniðugt svar við þessu. “Ha humm, jújú, þeir eru alltaf skemmtilegir.” Reyndar var hundurinn hans þveröfug lýsing á þeim eins og hún lýsti því. Hann svaf allan daginn, át á við þrjá og nennti aldrei að leika við hann eða gera neitt yfirhöfuð nema þegar einhver kom í heimsókn eins og núna. Jónas þurfti einhvern tímann að losna við hvolp og spurði hvort hann gæti ekki tekið við honum. Fyrstu mánuðina var hann lítill sætur hnoðri sem nagaði húsgögnin og skeit á teppið, en fékk svo einhvern lífsleiða yfir sig eftir því sem á leið. Hann virtist hins vegar kunna vel við Lindu og að sama skapi hún við hann.
Haraldur fór aftur inn í eldhús að ná í tusku til að þurrka pollinn af gólfinu. Lappi elti hann þangað og ýtti með nefinu á lærið hans eins og hann gerði alltaf þegar hann langaði í hundanammi. “Nei, svona hættu þessu, þú hefur ekki gott af því,” sagði hann og ýtti lærinu á móti meðan hann teygði sig í efstu hilluna eftir tuskunni. Um leið og hann beygði inn á ganginn spurði hann “á ég ekki bara að skutla þér heim,” þegar hann sá hana leggja símtólið á. “Leigubíllinn kemur eftir svona hálftíma,” sagði hún.
Nú kom hún sér þægilega fyrir í stólnum og Haraldur virti hana fyrir sér með krosslagða fætur og blautu fötin á bakvið liggjandi á ofninum. “Býrðu einn hérna?” spurði hún.
“Já.”
“Ókei, og hvernig er það?”
“Hmm, ég veit ekki, bara fínt.”
Það kom þögn. Löng þögn. Haraldur fann hvað hann varð óstyrkur í leit sinni að einhverju skemmtilegu til að spyrja um en fann ekkert sem gæti hljómað nógu vel. Hann tók sopa af kaffinu, brosti kurteislega til hennar og gjóaði augunum út í loftið.
“Ég bý líka ein. Eða, það er að segja, nýflutt hingað. Ég átti heima á Patreksfirði. Hefurðu komið þangað?”
Haraldur hafði reyndar komið til Patreksfjarðar. Oft meira að segja. Langafi hans hafði búið þar þegar hann var lítill og hann hafði oft ferðast um Vestfirði með Patreksfjörð sem svona áningarstað. “Heyrðu já, þekkirðu hann Valda á Suðurgötunni? Við vorum oft saman þegar við vorum litlir, hann er kannski aðeins eldri en þú?”
“Já haha auðvitað þekki ég hann. Hann var með mér í skólaleikritinu þegar við vorum í grunnskóla. Núna er hann reyndar líka fluttur í bæinn, man ekki hvar nákvæmlega.”
Nú lifnaði yfir samræðunum og þau spjölluðu um hitt og þetta. Haraldi fannst hálftíminn líða eins og nokkrar mínútur og skyndilega heyrðist flautað fyrir utan. Linda stökk upp úr sætinu og dreif sig í fötin, sem voru núna ekki eins blaut og áður. “Bless bless,” sagði hún og smellti á hann mömmukossi á kinnina um leið og hún hagræddi sjalinu, “númerið mitt er á borðinu. Þú átt inni hjá mér greiða.”
Haraldur horfði á leigubílinn renna burt gegnum litaða glerið á útidyrahurðinni. Um leið sá hann gemsann hennar liggja við hliðina á rörtönginni, greip hann og opnaði hurðina. “Linda! öskraði hann niður götuna en að sjálfsögðu heyrði enginn í honum.
Næsta dag var Haraldur frekar utan við sig í vinnunni. Þörfin fyrir að laga virtist allt í einu ekki eins sterk og áður. “Hvers vegna í ósköpunum nennir fólk ekki að passa betur upp á hlutina,” hugsaði hann og losaði skrúfu af þvottavél sem hafði fengið slæma útreið hjá þeim sem kom með hana í viðgerð. Hann fékk oft til sín muni sem ættu betur heima á ruslahaugunum, en þrátt fyrir að hafa farið með þá eins og verðlaust skran bjuggust margir við því að þegar þeir komu með þá til Haralds fengju þeir hlutina til baka eins og nýja. “Aldrei hef ég þurft að láta laga neitt, ekki einu sinni hent bognum skeiðum. Kannski er kominn tími fyrir breytingar.”
Það var föstudagur og strákarnir höfðu hringt í hann og ætluðu að kíkja á pöbbinn. Í þetta skiptið setti hann bara nokkra hundraðkalla í veskið áður en hann klæddi sig í rauða flauelsjakkann.
“Hey, strákar, ég var að heyra að einhver væri floginn á séns!” sagði Jónas og potaði í síðuna á Haraldi. Nú splæsum við allir bjór á kallinn!” Þeir bjuggust við sömu ræðunni um að þetta væri í boði hans, en Haraldur þagði bara með hendur í skauti. Það hafði verið einhver drungi yfir honum frá því hann en nú lifnaði yfir honum þegar fjórir, nei fimm bjórar voru settir á borðið. “Er hún sæt? Vildi hún ekki láta skutla sér heim? Er það satt að hún skildi brjóstahaldarann eftir?”
“Hættiði þessu strákar,” sagði Haraldur glettnislega. Ég þekki hana varla, en hún skildi nú samt símanúmerið eftir.” Alla vikuna hafði hann leitað að tylliástæðu til að hringja í en eftir þriðja bjórinn hafði honum snúist hugur. Hann sat með krosslagða fætur, horfði út um gluggann og var þungt hugsi. “Hvers vegna er ég alltaf látinn gera allt? Ég nenni ekki að vesenast eins og hundur fyrir fólk og fá bara mat á diskinn fyrir.”
Þeir voru að fara í jakkana og kíkja á einhvern annan stað. Haraldur var orðinn frekar ölvaður eftir að hafa drukkið í langan tíma á kostnað strákanna. Hann gekk óstyrkum skrefum og hafði dregist nokkuð aftur úr hinum sem sungu hástöfum og virtust skemmta sér vel. Allt í einu finnur hann hönd grípa um mittið á honum. Haraldur sneri sér við og sá fallegasta bros sem hann hafði nokkurn tímann barið augum.
“Nei ert þú hér!” sagði Linda glaðlega og lagfærði sokkabuxurnar á vinstri fótleggnum. Hún átti dálítið erfitt með að halda jafnvægi á einum fæti, “Úps, ég hefði kannski átt að sleppa þessum síðasta kokteil."
Núna þurfti Haraldur engan Patreksfjörð til að brjóta ísinn. “Mikið brosirðu alltafr fallega,” sagði hann. Langar þig að koma eitthvert, kannski á þennan stað,” sagði hann og benti eitthvað út í loftið án þess að taka augun af henni.
“Jájá, eða bara eitthvert. Ég þyrfti nú eiginlega að ná í símann minn...” bætti hún við og beit í vörina á sér og horfði á hann með augnaráði sem gat ekki misskilist.
Þau héldu utan um hvort annað þegar tunglið sá þau beygja inn fyrir hornið á Lokastígnum. Haraldi leið vel. Hann var loksins að gera eitthvað sem honum fannst ekki vera á stundaskránni.
Hann missti andann þegar hann sá garðinn. Þar sem fjólurnar höfðu teygt sig upp úr moldinni var núna sviðin jörð og það sást ekki vottur af grænum lit á grasinu. Hann stóð dolfallinn og horfði yfir blettinn sem leit út eins og einhver hefði varpað sprengjuflaug í hann miðjan. “Hvað í fjandanum er í gangi?!” æpti hann og gekk að svörtu trjábolunum sem enn rauk upp úr.
Þegar hann kom nær dyrunum sá hann víra lafa út um dyrakarminn þar sem bjallan hafði verið áður. “Þetta er fáránlegt,” sagði hann með hásri röddu og leit á Lindu sem hafði byrjað að varalita sig í mestu makindum. “Sérðu þetta ekki?” hrópaði hann að henni og æddi til baka.
Linda tók fast utan um hendurnar á honum og stöðvaði hann. “Svona svona Haraldur minn. Þú vissir alveg að þetta myndi gerast, laun heimsins eru vanþakklæti. Maður verður jú að rækta garðinn sinn.”
No comments:
Post a Comment