Monday, March 06, 2006

Það er hrossakjöt í matinn

Hesti Ugluspegils var lógað fyrir skömmu. Þegar síðan var hrossakjöt í matinn fáeinum dögum síðar(af hesti alls óskyldur Ugluspegils) flugu honum í hug ýmsar hugleiðingar í bundnu máli um lífið og dauðann.

Úr borginni fínt er að fara um stund
og ferðast til nálægra staða
en þegar er haldið á Heljar fund
vill heiðríkjan burtu sér hraða.

Þó Skuggi sé enn þá með skeiðandi fætur
eru skarpar tennur hans eyddar.
Og aumingja dýranna örorkubætur
eru aðeins á himninum greiddar.

Er hvellurinn ómar um kletta og brýr
þá kreisti ég augun og veit
að aldrei muni ég annað dýr
aflífa í þessari sveit.

Svo líður tíminn, og tíminn getur
treyst mína styttu og stoð.
Svo fór eina helgi að frænkutetur
fékk mig í matarboð.

Mín ættmenni halda oft alls konar veislur
eins oft og þau framast geta
því úti um allt er fjarskylda fólkið
sem fær ekki nóg af að éta.

Og þarna sat ég og snögglega brá
og sjón minni vildi ei trúa:
Því það sem ég diskinn dembt hafði á
var dýrindis hrossabjúga.

Hér áður fyrr var mér af engu meint
og át bæði hausa og ugga,
en í bjúganu fannst mér ég geta greint
hinn glaðlega vangasvip Skugga.

Ó, Skuggi minn! garnirnar gauluðu í mér
og græðgin mér varð loks að falli.
Ég kjamsaði á þér með kartöflu og smér
og kraup fyrir freistarans kalli.

Þó dómsdagur þinn væri sársauka settur
þá sver ég við Óðinn og Eir
að þriðja disk loknum, en þá var ég mettur
þjáðist ég helmingi meir.

Á meðan ég lifi, á meðan ég anda
á meðan rennur mér blóð;
þá iðrast ég bjúgnanna eilífa fjanda
en andskoti var kartaflan góð.

No comments: