Heima á Fróni er kominn nóvember. Klukkan er tíu mínútur yfir sjö og myrkrið hefur hellst yfir húsin í Reykjavík. Þegar maður treður snjóinn eftir auðum strætunum er hægt að horfa inn í hlý og björt húsin og finna lyktina af ýsu og kartöflum leggja út um opinn glugga og jafnvel heyra glamrið þegar hnífapörin klingja við diskana í bland við fréttatímann.
Stuttu seinna liggur leiðin fram hjá fínum veitingastað. Þar eru öll borð auð fyrir utan tvö eða þrjú þar sem fínir bissnesskallar skála í rauðvíni, hlæja og þurrka sér pent um munninn með þurrku úr taui. Þaðan leggur enga ýsulykt.
Í Beijing er líka nóvember. Þar er reyndar enginn snjór á götunum en myrkrið skellur á þar rétt eins og annars staðar. Alls staðar er fólk á gangi, en í hvaða erindagjörðum?
Jú, að fara út að borða. Á hverju götuhorni og víðar eru matsölustaðir, kóreskir, japanskir, vestrænir, Suður-kínverskir og fl. sem eru allir svo þéttsetnir að oft finnst ekki laust borð fyrr en í þriðju tilraun. Öfugt við Ísland einkennast þessir staðir ekki annað hvort af subbulegum skyndibitamat eða flottræfils smjattbitum sem kosta nokkur árslaun verkamanns. Í Beijing er hægt að fá dýrindis máltíð af öllum stærðum og gerðum á verði sem er nokkrum krónum yfir efniskostnaði samsvarandi matar sem eldaður er heima. Maður fær sér einfaldlega sæti, pantar af matseðlinum og oft er svo mikið að gera að kokkarnir elda ákveðna rétti viðstöðulaust svo maður þarf ekki að bíða nema í nokkrar mínútur. Síðan er farið og borgað við afgreiðsluborðið og það án þess að svitna við að sjá verðið. Svona staði vantar á Íslandi.
Tuesday, September 12, 2006
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment