Stóra systir mín herti sig við uppvaskið og lét stóra pottinn glamra við vaskinn. “Kláraðu nú kaffið þitt svo ég geti þvegið bollann í leiðinni. Bíddu bara þangað til þú flytur út einhvern tímann, þá skaltu vera búin að kaupa þér uppþvottavél.”
“Hann veit ábyggilega ekki einu sinni hvað ég heiti,” sagði ég og tók síðasta sopann, “á þriðjudaginn áttum við að höggva út vasa og það enduðu allir á því að brjóta steinana í mask og hann þurfti að þeytast út um allt til að hjálpa, og tók ekki einu sinni eftir mér þó að ég væri sú eina sem náði að klára verkið.”
Honum. Alltaf með þessa örlitlu skeggrót og barta sem litu út eins og Guð hefði skapað barta sérstaklega fyrir hann. Undir þessari skyrtu hlaut að leynast ómótstæðileg bringa...andlit sem einhver gamall endurreisnarsnillingur hafði meitlað í stein og síðan lifnað við og kenndi nú höggmyndalist í kjallarastofu í Iðnskólanum.
Og hann bjó yfir endurreisnarsnilld. Fimmtán ára hélt hann sína fyrstu sýningu í bílskúrnum og sýndi brjóstmyndir af bekkjarfélögum sínum, þar sem hann hafði meitlað andlitsdrætti þeirra svo nákvæmlega að þær drógu fljótt að sér athygli alvöru gagnrýnenda sem kepptust við að lofa hinn unga listamann. Núna, átta árum seinna höfðu sýningarnar skipt tugum, bæði á Íslandi og víða um Evrópu og Bandaríkin. Fyrst þegar maður sá stytturnar af hestum, mönnum, kirkjum og fleira sá maður alltaf eitthvað bogið við þær. Hlutföllin milli hófanna á hestinum og höfuðsins litu kannski ekki alveg rétt út...eða gerðu þau? Maður gekk í kringum styttuna og skoðaði hana frá öllum hliðum, og smám saman fannst manni þessi tiltekni hestur vera orðinn eins eðlilegur og fallegur og nokkur hestur getur orðið. “Það er eins og Búkefalos hefði litið í augu Medúsu og steingerst,” hafði einn gagnrýnandinn sagt í Mogganum og maður var ekki alveg viss um hvort þetta væri meint í gríni eða alvöru.
Hann var líka með vinnustofu í Iðnskólanum sem sá yfir Frakkastíg, Skólavörðuholtið, Leif Eiríksson og svo Hnitbjörg beint á móti, þar sem safn Einars Jónssonar var. Honum fannst alltaf jafn óviðeigandi þegar hann var nefndur nöfnum eins og “hinn nýi Einar Jónsson” og svo framvegis. “Ég og Einar eigum ekkert sameiginlegt þannig séð, nema ég held að hann hafi notað sama skónúmer,” sagði hann í viðtali í sjónvarpsfréttum um kvöldið. Fréttamaðurinn hló að þessari sjálfsöruggu athugasemd en hann varð vandræðalegur um leið og hann áttaði sig á því hvað þetta gat hljómað egósentrískt. “Nei æ,” hann fitlaði við kragann, “ég meinti þetta ekki svona...” Með úfna, svarta hárið sitt og í vinnusloppnum og hvítt ryk út um allt. Ómótstæðilegur. Á bak við hann mátti sjá hálfkláraða styttu af manni í þjóðbúningi á hestbaki, styttu sem hann hafði unnið að í meira en tvo mánuði. Á döfinni var ný sýning í Listasafni ASÍ þar sem von var á heimsfrægum erlendum listgagnrýnendum og blablabla... ég nennti ekki að fylgjast með því þegar þessi ótrúlega sæti strákur sem ég fékk að sjá augliti til auglitis tvisvar í viku var núna kominn inn í stofu og horfði á mig gegnum myndavélina.
Hvers vegna tók hann ekki eftir því að ég var sú eina sem náði að klára þennan heimskulega vasa? Ég lá á maganum uppi í rúmi og nennti ekki að standa upp til að stilla útvarpið þótt það kæmi bara suð úr því.
Ég sá atvikið ljóslifandi fyrir mér. Í síðustu viku hafði hann stillt öllum upp í hring og lét í miðjuna lítinn vasa sem hann hafði gert. Hann var með víðu opi sem mjókkaði við hálsinn og svo komu út tvö handföng hvort á sinni hliðinni. Við áttum að gera eftirlíkingu.
Lísa, vitlausa stelpan sem sat við hliðina á mér og hefur ábyggilega aldrei haldið á hamri áður var alltaf að kvarta yfir því að hún fengi verstu steinana. “Fær maður ekki almennilegt dót til að negla?” sagði hún í tón sem enginn getur þolað. “Þetta heitir ekki að negla...vitlausa stelputuðra,” hugsaði ég með sjálfri mér og hamaðist við að reyna að klára sem mest áður en tíminn væri búinn. Samt stillti ég mig ekki um að gjóa augunum reglulega á hann. Allt sem hann sagði og ráðlagði hinum var svo sjálfsagt og einfalt...en það er erfiðara að höggva út styttu en virðist. Ég náði þó að gera steininn sæmilega hringlaga og með smá dæld efst, og tók svo litla meitilinn og byrjaði á handföngunum. Steinninn hjá Lísu sprakk í miðjunni og kubbaðist í tvennt. “Þetta er algjört drasl!” hrópaði hún og henti meitlinum í gólfið. Það sýndist heldur ekki ganga eins vel hjá hinum, en ég hélt áfram og náði að gata fyrir öðru handfanginu.
Hann gekk hringinn og aðstoðaði, hjó nokkrum sinnum þarna hjá einum og lagfærði gripið hjá öðrum. Hann var ótrúlega góður með hamarinn og beitti honum svo mjúkt að steinninn varð að leir í þær sekúndur sem hann kom við. Svo gekk hann til Lísu og sagði “Æ varst þú óheppin með steininn, það eru alltaf einhverjir sem springa bara sama hvað maður reynir. Sjáðu, ef þú prófar að byrja á köntunum og...” Ég hætti að höggva og horfði á Lísu setja upp smeðjulegan svip. Hún hafði sko ekki verið óheppin með stein, heldur er hún smeðju klunni sem kann ekkert og er bara á þessu námskeiði til að smeðjast við hann og þykjast vera eitthvað merkileg. Og hún vissi það sjálf.
Ég byrjaði að höggva hraðar en áður í von um að hann kæmi til mín og gæfi mér smá hrós, eða að minnsta kosti leiðbeiningar um hvað ég gæti gert betur.
En bjallan hringdi, og hann stóð upp, tók af sér sloppinn og gekk á milli okkar án þess einu sinni að líta á vasann. Líta á hann! Ég sat eftir smástund, gekk frá dótinu og hjólaði heim í vondu skapi og bölvaði vindinum.
Það var bankað á hurðina og ég hrökk við. “Það er bréf til þín,” sagði mamma fyrir utan, “vonandi er ég ekki að trufla þig við heimavinnuna en ég held að þú viljir lesa það núna.”
Ég opnaði dyrnar og tók við stórri, rauðri rós með áföstu umslagi. Þegar ég las nafnið utan á fraus ég föst við hurðarhúninn og las það aftur og í þriðja skiptið til að vera viss. Svo reif ég það upp í flýtigangi:
Kæra ....... mig langaði að senda þér bréf og biðjast afsökunar vegna síðasta tíma á þriðjudaginn. Eftir að allir voru farnir rak ég augun í vasa sem var merktur þér og ég hafði ekki tíma til að líta á. Hann er sá best gerði af öllum sem ég hef séð hjá nemanda lengi, og það hvatti mig til að spyrja hvort þig langaði að koma í einkatíma þar sem þú gætir unnið frjálsar að verkefnunum og tekið frekari framförum. Að sjálfsögðu þarftu ekkert að borga fyrir þá, þeir eru í boði mín.
Með kveðju ......herbergið snerist og ég fann hjartað taka kipp. Ég trúði þessu ekki...strákurinn með bartana, og strákurinn í hvíta sloppnum sem var alltaf með ómótstæðilegt hár og vangasvip og vasinn og...ég reisti upp hendurnar og lét mig detta á rúmið og lét bréfið undir koddann. Svo lá ég og gaf skít í heimaverkefnin, gaf skít í allar áhyggjur sem höfðu verið að plaga mig og lét mig falla.
Ég vaknaði löngu seinna þegar það var orðið dimmt, og var enn þá í svefnrofunum þegar ég teygði mig ósjálfrátt undir koddann að hagræða honum og fann pappírinn og mundi um leið. Núna vöknuðu hins vegar öðruvísi tilfinningar en áður. Ég lá í myrkrinu og fitlaði við bréfið.
Var þessi vasi virkilega það góður eða var rósin bara misheppnuð kurteisi? Hvað ef ég klúðra öllu í einkatímanum, brýt steininn eða geri eitthvað vitlaust eða...af hverju hringdi hann ekki bara eða sagði mér þetta í næsta tíma? Og sagði hann ekki hvenær tímarnir voru? Gleymdi hann því eða eru þetta einhver skilaboð sem ég fatta ekki?
Ég ákvað bara að reyna að hugsa um eitthvað annað og bíða fram á næsta mánudag.
Og svo liðu dagarnir. Systir mín var ekkert smá glöð þegar ég sagði henni frá þessu í símann. “Vá, þetta setur mann alveg nokkur ár aftur í tímann...það var strákur í menntó sem skildi eftir miða á borðinu mínu einu sinni og spurði hvort ég hefði gaman af því að búa til snjóengla. Eftir skóla hitti ég hann fyrir utan og við lögðumst á jörðina hlið við hlið, flissandi eins og litlir krakkar og gerðum engla... ég meina, hvað meira þarf til þess að vera skotin í strák?”
“Bíddu bíddu, ekki halda að þetta bréf sé sambærilegt... mitt gæti þess vegna verið skilaboð frá yfirmanni eða miði undir rúðuþurrkunni með afsökun fyrir að einhver rispaði bílinn manns. Fyrir utan rósina.”
“Maður veit aldrei hvað þeir meina...ástarbréf frá strákum á bara að letra í vindinn, eins og einhver sagði. Það er ekki fyrr en þeir hætta að hringja sem þeir fyrst liggja ástsjúkir heima og nærast á kaffi. Líta ekki á vasann eða þig eina stundina og þykjast vera voða sorrí þá næstu.”
Eftir skóla á mánudaginn var ég svo upptekin við að finna almennilega afmælisgjöf handa vinkonu minni að skyndilega var klukkan orðin fjögur og ég enn þá niðri í bæ með kalt nef og tvo fulla innkaupapoka. Ég þurfti að hlaupa síðasta spölinn til að verða ekki alltof sein og var mætt þegar hinir voru byrjaðir. Pokarnir og kápan fengu að liggja einhvers staðar í hrúgu í fatahenginu og ég settist niður lafmóð. Hann var að sækja nýjan stein fyrir strák sem hafði brotið sinn vasa... núna kom hann aftur og brosti til mín um leið og hann lét steininn niður. Svo gekk hann á milli og eftir um það bil hálftíma var hann kominn til mín. “Vá, þú ert næstum því búinn að klára vasann. Ég var svo mikill auli að ég gleymdi að nefna einhvern sérstakan tíma, en ég er allavega laus núna á eftir. Annars sýnist mér nú að þú þurfit enga aðstoð, vasinn þinn er alveg eins...”
“Takk,” var það eina sem ég kom upp úr mér, “þetta er nú ekkert merkilegt,” ætlaði ég svo að segja næst en fattaði um leið hvernig það gæti misskilist. Í staðinn þagði ég með aulabrosið og leitaði að einhverju til að segja, en hann sagði bara “sjáumst á eftir” og gekk til þess næsta.
Tíminn var búinn og allir voru farnir nema ég. Hann var að ganga frá einhverju inni í herbergi og kom svo aftur með tvo rjúkandi kaffibolla. “Eigum við ekki að koma upp í vinnustofuna?” spurði hann og án þess að bíða eftir svari gekk hann út á gang og upp stigann.
Dyrnar voru stífar og það brakaði í þeim þegar hann bisaði við að opna þær með annarri hendinni. Skyndilega hrundu þær upp á gátt og ég sá inn í stóra salinn sem var fullur af skúlptúrum. Risastórt naut sem lá á fjórum fótum með illúðlegan svip, tveir menn hlið við hlið með fiðlur sem litu út eins og gæsir og litlar styttur af hestum út um allt. Á miðju gólfinu gnæfði maðurinn á hestbaki yfir allt og nú leit hann allt öðruvísi út en í sjónvarpinu.
“Þeir eru að gera mig vitlausan,” hann benti á styttuna og brosti, “það er alltaf eitthvað sem ég reyni að fanga en næ aldrei almennilega úr þeim.”
“Er það út af steininum eða,” sagði ég lágt og passaði mig á að rekast ekki í litla fugla sem lágu alveg við borðbrúnina.
“Það er alltaf steinninn,” svaraði hann og kímdi. “Maður heyrir alltaf einhverjar klisjur frá þeim sem þykjast hafa vit á þessu. Þeir segja að sannur myndhöggvari viti um leið og þeir sjá steininn hvað hægt sé að skapa úr þessu. Að þessi marmari hér geti aldrei orðið neitt annað en hestur og það væri aldrei hægt að gera til dæmis nakta konu úr honum. Ég hef aldrei hlustað á þetta, gamli kennarinn minn til dæmis lagði alltaf áherslu á að það eina sem myndhöggvarinn gerði væri að fjarlægja hið óþarfa og sjá hina sönnu list innan í steininum. Það er bara einhver vitleysa.”
“Gerir þú þá ekki bara nakta konu úr steininum til að sýna þeim?”
Hann staðnæmdist, sneri sér við í sporunum og horfði á mig með rannsakandi augnaráði. “Ég hef gert þær. Ég hef sko búið þær til. Ábyggilega svona fjörutíu eða fimmtíu. Þær enda allar þarna.” Hann benti út í horn á lítinn gám sem var fullur af steinbrotum og rusli.
“Á öllum þeim sýningum sem ég hef haldið hef ég aldrei komið fram með nakta konu. Þær eru erfiðastar. Hvernig eiga brjóstin að vera? Mega þau vera pínu misstór eða ófullkomin? Verður naflinn að vera settlegur og lítill? Og hvað er nakta konan að gera...hvað gera naktar konur svona yfirleitt?”
Hann saup á kaffinu og ég fékk fann skrýtna tilfinningu í maganum. “Ég er alltaf í leit að hinni fullkomnu konu. Einhvern daginn skal ég ná að skapa hana og sýna öllum. Verst að þegar maður horfir á steinklump veit maður að það er engu við hann að bæta. Það er ekkert sem ég get gert við hann nema taka af honum. Hvers konar sköpun er það eiginlega? Ég hef ekki skapað neitt af þessu hérna inni, ég er bara að stæla venjulega fugla og menn og naktar konur og...stundum finnst mér eins og þetta sé ekki þess virði. Það eina sem ég get búið til er að...afbúa hluti til.”
Hann settist niður við borð og bauð mér sæti. “Æ sorrí þetta raus í mér, ég er bara illa sofinn eða eitthvað.” Hann hikaði, horfði í augun á mér og varð pínu vandræðalegur á svipinn. “Málið er að ég... held nefnilega að ég sé búinn að finna styttuna.”
No comments:
Post a Comment