Hér verða raktar hinar ævintýralegu ástafarir knapa og reiðskjóta hans. Að sjálfsögðu fá þó dónaorð ekki að rata inn í rímu þessa enda myndi það hafa slæm áhrif á unga lesendur(eða gamla) sem kannski villast hingað inn.
Haldið skal í hestatúr
hóla og dali þeysum
í fjallasal er farið úr
frakka, sjali og peysum.
Frelsið alltaf fagurt er
með fuglasöngsins hljóma
Náttúran er heilög hér
heldur leyndardóma.
Fákurinn þá fór á skrið
og fimur hreyfði fætur
með hnakktöskur sem héngu við
hestsins skökulrætur.
Bráðum sást í bungur tvær
báðar vörðu hlaðnar
áfram héldu upp á þær
yfir klárnum glaðnar.
Hylur veginn hófadyn
harður sleginn losta.
Glaður steig í stóra vin
svalar feginn þorsta.
Knapinn hreykinn sest í svörð
svip sinn vill ei dylja.
Mælir svo við Móður jörð
sinn meinta ástarvilja:
"Ekki stendur á mér þá
ef ég fæ í leynum
að öslast þína Almannagjá
á átta hófa hreinum."
Sundreið klárinn samstundis
í söltu vatni hyldýpis
eins og þessi ys og þys
ætlaði til helvítis.
Ekki linnti leiknum þó
leiddi blint að vonum.
Kapall synti, knapi sló
kátur brynnti honum.
En báðir skelfdir steyptust þá
úr safakeldu stórri
í öllu veldi í aðra gjá
er var heldur mjórri.
Niður datt, og heldur hratt
hrossins magi dældi
Við þann skratta varð óglatt
veltist um og ældi.
Móður jörð þar manninn sveik
mitt í ástarstrokum.
Heim úr þessum hildarleik
heilir náðu að lokum.
Lesandi, ég legg þér ráð
ljúft í þessum línum:
Klárnum aðeins brynna í bráð
með berum höndum þínum.
Monday, November 27, 2006
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Ég öfunda þig skáldagáfunar.
Post a Comment