Þegar Kambódíumenn svara í símann segja þeir halló. Skýrt og greinilega eins og ég skrifa það, með hringlaga ó-i og öllu, alveg eins og á Íslandi. Þeir hafa líka hægri umferð öfugt við nágrannaríkið í vestri.
Þó er ekki mikið meira sameiginlegt með þessum tveimur löndum. Það var undarleg tilfinning að sitja við afskekkta vegabúð sem var um leið heimili hjá kambódískri fjölskyldu, borða Pringles-flögur(sérstaklega auglýstar með 0% fitu) og sjá bíl frá World Food Program keyra fram hjá hlaðinn vistum. Vegirnir frá landamærunum til Siem Reap(þar sem hinar frægu Ankhor-Vat fornminjar standa) eru allir lélegir malarvegir og samkvæmt Lonely Planet er það vegna þess að mafían mútar ríkinu til að halda þeim í slæmu ástandi svo fólk taki frekar flug, að sjálfsögðu í eigu hennar. Við ditsuðum mafíuna og tókum fimm tíma rykugt rútuferðalag þar sem ég sá fleiri geitur, kindur, hænur og svín en áður á ævinni.
Því miður verða myndir trauðla settar inn vegna þess að þær eru komnar á geisladisk í Tælandi og öllu albúminu verður skellt inn að reisunni lokinni á bloggsíðunni hans Sigga (meðleigjanda nr. 2). Vísurnar standa líka enn þá á sér því ég hef verið gjörsamlega andlaus í rútuhristingi um Suð-austur Asíu að hálfa væri nóg. Í staðinn hefur yndislestur komið sér vel til að drepa tímann og á ferðalaginu hef ég klárað eftirfarandi bækur:
Tímavélin e. H.G. Wells
Greifinn af Monte Cristo e. Alexander Dumas (djöfull er hún góð)
Sagan af Pí e. Yann Martel
Hálfan Forrest Gump e. Winston Groom
Khao-San Road og nærliggjandi götur e. ónefndan Grikkja sem hefur lifað fastur í þrjú ár í aðaltúristahverfi Bangkok þar sem hann lýsir heiminum sem þar þrífst og lífinu sem hann hefur þurft að lifa til að geta komist þar af. Ég hef hugsað mér að þýða hana þegar heim er komið, hvort ég birti hana á þessu bloggi kafla eftir kafla eða einhvern veginn öðruvísi kemur í ljós.
Á morgun förum við til Víetnam.
Friday, February 09, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment