Thursday, June 07, 2007

Fimm uppáhalds tónlistarmyndböndin

Saga tónlistarmyndbanda er ótrúlega stutt í samanburði við kvikmyndasöguna. Þótt stundum sé talað um myndbrot við sinfóníu Schriabin um Prómeþeif, sem fyrsta eiginlega tónlistarmyndbandið, eða Alexander Nevsky eftir Sergei Eisenstein frá 1938 við tónlist Prokofievs ofl. er hæpið að bera þau saman við þann lista sem ég ætla að skrifa um hér.

Frægt er myndbandið við Bohemian Rhapsody sem er oft talað um sem fyrsta tónlistarmyndbandið eins og við þekkjum þau í dag, þó það sé ekki eldra en frá 1975. MTV hóf ekki útsendingar fyrr en 1981 með því að sýna myndbandið við Video killed the radio star með The Buggles.

Það er því ekkert langt síðan að menn fóru að viðurkenna hið knappa form tónlistarmyndbandsins sem alvöru kvikmyndalist, og í dag getur maður séð ótrúlegt úrval með gæðunum eftir því. Ég tók saman fimm myndbönd sem hafa alltaf verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér.5. UNKLE - Rabbit in your headlights - leikstj. Jonathan Glazer
Ég kannaðist við þetta lag þegar ég heyrði það í útvarpinu um daginn og fannst vera skrýtið af hverju ég hefði ekki heyrt það á neinni Radiohead plötu. Thom Yorke er hins vegar aðeins gestarödd í þessu lagi hjá breska dúóinu UNKLE sem sömdu lagið. Leikstjórinn Jonathan Glazer hefur þó unnið með Radiohead við gerð myndbanda laganna Street spirit og Karma police.
Fyrst tekur maður þessu myndbandi ekkert sérstaklega alvarlega. Maður horfir á það með öðru auganu og flettir Mogganum, en þegar líða tekur á það kemur í ljós að hér er eitthvað á ferðinni sem vert er að sjá aftur. Þeir James Lavelle og Tim Goldsworthy, sem skipa UNKLE eru einmitt farþegar í bílnum sem stoppar. Myndband sem maður gleymir aldrei.

4. Blur - Coffee and TV - leikstj. Hammer & Tongs
Myndböndum af hljómsveitum að spila lagið má nokkurn veginn skipta í tvennt. Vídeó af bandinu að spila í stúdíói/úti á götu með aðdáendur í kring/í sundlaug fyllta af vatni upp í ökkla, án plotts, og sama útfærsla nema með söguþræði eða plotti(myndböndin með hljómsveitum að spila í vatni er reyndar sér kapítuli, en jæja). Þau eru oft illa hugsaðar til enda og enda í mörgum tilvikum í hópi lakari myndbanda. En hvað ef þú bætir við krúttlegustu mjólkurfernu sem sést hefur? Einhvern veginn verður úr því frábært myndband. Líklega er það þó hið æðislega lag Blur og óaðfinnanlega kvikmyndataka hjá þeim kumpánum Hammer & Tongs (Karey Kirkpatrick og Garth Jennings) sem gerir gæfumuninn. Þeir höfðu áður gert myndbandið við Pumping on your Stereo með Supergrass og leikstýrðu svo Hitchhiker's Guide to the Galaxy. Þetta tónlistarmyndband er þó líklega það sem stendur uppi á ferilskránni þeirra hingað til.


3. Aphex Twin - Windowlicker - leikstj. Chris Cunningham
Hvers vegna datt engum fyrr í hug að gera háðsádeilu á rappmyndbönd? Hvers vegna er það svona sóðalega fyndið að sjá Aphex Twin með pimpalegt skegg og brjóst í bikiníi? Hvers vegna hefur Chris Cunningham gert svona mörg ódauðleg tónlistarmyndbönd? Ég veit ekki alveg hvernig á að svara þessum spurningum, en góð tónlistarmyndbönd villa ekki á sér heimildir. Þau frá Aphex Twin eru náttúrulega í sérflokki hvað húmor, lengd og innihald varðar, ég bókstaflega varð að hafa eitt frá honum hér á þessum lista. Njótið bara.


2. Daft Punk - Around the world - leikstj. Michel GondryVá hvað þetta er steikt. Alveg yndislega steikt. Maður skilur það kannski aðeins betur þegar horft er á myndbandið á youtube af Michel Gondry að leysa rúbik-kubb með fótunum.


1. Björk - All is full of love - Chris CunninghamÉg ætla ekkert að skafa af því, þetta er besta tónlistarmyndband sem hefur nokkurn tímann verið gert. Það er kannski of mikið að hafa tvö myndbönd í leikstjórn Chris Cunningham á þessum lista, en þetta er bara svo ólíkt hinu með Aphex Twin, það eina sem þau eiga sameiginlegt er að vera fáránlega góð.

Það er ekki oft sem maður sér vídeó sem passar svo fullkomlega við lagið að það verður óaðskiljanlegur hluti af því. Var tölvutæknin í alvörunni svona góð árið 1997? Hérna er Björk á ákveðnum hátindi ferils síns sem fylgdi í kjölfar Homogenic þó svo að öll myndbönd hennar séu augnaveisla út af fyrir sig. Þetta vann ótal verðlaun á sínum tíma og kannski ekki skrýtið. Hér er á ferðinni ótrúlegt kvikmyndalistaverk sem býr yfir einhverri undarlegri fegurð. Það er afrek fyrir sig að þjappa öllu því saman í fjórar mínútur en hér er það gert óaðfinnanlega.

4 comments:

Doddi said...

Bravó!

Þetta er verulega flott og metnaðarfull bloggmennska sem þú iðkar hér, Fjallaskáld!

Við viljum meira.

Einar Steinn said...

Takk fyrir þetta.

Eftirlætis tónlistarmyndbandið mitt er efalust myndbandið við lagið One með Metallicu. Myndefnið er sótt í kvikmynd Dalton Trumbo, Johnny Got His Gun sem er gerð eftir samnefndri skáldsögu Trumbos.

Smelli hlekknum hér:

Svo er myndbandið við Lullaby með The Cure einnig mjög flott: http://www.youtube.com/watch?v=waia83h6Y2k

Einar Steinn said...

Ó, afsakið, Metallicu-hlekkurinn rataði ekki hinn. hér kemur hann: http://www.youtube.com/watch?v=waia83h6Y2k

Einar Steinn said...

Eins verð ég að nefna Michael Jackson. Hann á mikið af flottustu tónistarmyndböndunum, ég nefni t.d. Billie Jean, Smooth Criminal og Thriller.