Tuesday, September 18, 2007

Sólarljóð

Það kom morgunn!


Sumardagurinn fyrsti
og ég sólina faðmaði og kyssti.


“Horðu ekki beint í hana,”
var fóstru minni tamt
að tönnlast á
eins og af gömlum vana
(en ég gerði það samt)
því glaður ég sá


stærsta af stjörnufestingum
standandi efst á himninum
og í morgunbirtunni rósrauðum
ryður hún inn í mig geislunum.


Það hlýna fer
í hjarta mér.



Það kom hádegi!


Vorrigningin klárast
jafnvel veturinn tárast
(og vötn og lækir hætta að gárast.)


Við sólin blikkum hvort til annars
og byrjum að flissa
því beint yfir höfði mér
skín hún aðeins til Kristján Hrannars
sem kannski er hissa
hvernig athyglin beinist að sér


Þótt ég langförull legðist
léti hún mig ekki í friði
og í sífellu segðist
vera stöðugt á iði
(full óþreyju eftir mér biði.)


Ég flauta lag, kæruleysislega
um miðjan dag.



Það kom kvöld!


Það sefar þó tregann
síðasta útilegan.


Við hlæjum í hálfkveðnu gríni
ég er hræddur að klára erindið
sem við bæði vitum hvernig endar.
Hún býður mér ber sem ég tíni
og bakar hörundið
holdlegrar kenndar.


Hún baðar mig rauðum kvöldlokkum.


Hraðar en fuglinn flýgur
færa örlögin mig til hliðar
og ég varnarlaus horfi er hún hnígur
til viðar.



....................


Það kom nótt.


Eftir hinsta kvöld
kemur hélan köld.


Til skiptis ég frýs eða brenn
Til skiptis verð hræddur og feginn
og fylgist með fréttunum.
Fjúff, hún skín þó enn
einhvers staðar hinum megin
á hnettinum.


Ég fæ að sjá hana aftur.


Í myrkrinu hungraðir hrafnar
heppnina síst eiga að boða
mitt hjarta er þakið ís.


En vonin í dögginni dafnar
og í dimmunni dreyrir af roða
í austri hún aftur rís!

No comments: