

Í dag eru ljósleiðarar m.a. notaðir í læknisfræðinni sem sjónpípur í skurðaðgerðum, geimaldar-jólaseríur eða í ógeðslega ljóta lampa sem eru alls staðar í kolaportinu(sjá mynd). Það er ekki fyrr en á síðustu árum sem farið er að nota þá í eitthvað gagnlegt, samanber línu.net byltingin sem olli því að Reykvíkingar voru hættir að geta sofið út um helgar þegar þeir byrjuðu að rífa upp hverja einustu götu í þágu tækninnar. Ljósleiðarar eru jú miklu betri aðferð til að flytja gögn milli staða en gamli koparvírinn þar sem þeir eru léttari, fyrirferðarminni, flytja margfalt margfalt meiri upplýsingar, minni orka tapast og þeir eru að verða ódýrari og ódýrari meðan koparvírinn hækkar sífellt í verði.
Við sjáum ljósleiðara oftast fyrir okkur sem gagnsæjan streng að svipaðri þykkt og fiskilína en raunin er að sú lína eru mörg hundruð ljósleiðara sem búið er að setja í eina leiðslu. Sjálfur kjarninn í leiðaranum sem ljósið fer um er ekki nema átta nanómetrar og utan um það bætast alls konar himnur og hlífar sem gerir hvern streng um einn þriðja af þykkt mannshárs.
En hvers vegna takmarkast notkun ljósleiðara við gagnaflutning? Í nýjum skrifstofubyggingum eru menn farnir að nota þá til að lýsa upp hús. Það er mjög óhentugt að leiða orku sem nota á í ljós með rafmagni þegar einfaldlega er hægt að leiða hana á ljósformi frá upphafi til enda. Töluverð orka tapast þegar rafmagninu er breytt í ljósorku auk þess sem mikið af því breytist í hita. Ugluspegill spáir því að eftir nokkra áratugi verði ljósleiðararnir búnir að leysa af meirihluta rafmagnslýsingar í híbýlum vesturlanda.

No comments:
Post a Comment