Á Viktoríutímanum hugkvæmdist einhverjum að lífga upp á gosbrunna ensku hallargarðanna með því að láta sveigjanlegar glerpípur klæddar með málmhimnu og hrágúmmíi ofan í vatnsleiðslurnar og láta ljós skína inn um hinn endann þannig að gosbrunnurinn upplýstist allur á kvöldin, aðlinum til mikillar hughrifningar. Engum datt hins vegar í hug að hægt væri að nota þennan hlut í eitthvað annað en gagnslaust skraut, seinni tíma vísindamönnum til mikillar gremju. Minnir þetta óneitanlega á hinn gríska uppfinningamann Heron frá Alexandríu, sem einn daginn var að dunda með málmpípur við matarpottinn sinn þegar honum datt í hug að hægt væri að nýta gufukraftinn í eitthvað skemmtilegt. Því miður sáu Grikkirnir, rétt eins og viktoríanski aðallinn, ekki notagildi hlutanna eins vel og ætla mætti. (Að vísu var búið að finna upp ljósaperuna á 19. öld þannig að fína fólkið þurfti ekki að brenna þræla til að lýsa upp partíin sín, en ef þú lætur Forn-Grikkja fá ljósleiðara og þræl er aldrei að vita hvað gerist).
Í dag eru ljósleiðarar m.a. notaðir í læknisfræðinni sem sjónpípur í skurðaðgerðum, geimaldar-jólaseríur eða í ógeðslega ljóta lampa sem eru alls staðar í kolaportinu(sjá mynd). Það er ekki fyrr en á síðustu árum sem farið er að nota þá í eitthvað gagnlegt, samanber línu.net byltingin sem olli því að Reykvíkingar voru hættir að geta sofið út um helgar þegar þeir byrjuðu að rífa upp hverja einustu götu í þágu tækninnar. Ljósleiðarar eru jú miklu betri aðferð til að flytja gögn milli staða en gamli koparvírinn þar sem þeir eru léttari, fyrirferðarminni, flytja margfalt margfalt meiri upplýsingar, minni orka tapast og þeir eru að verða ódýrari og ódýrari meðan koparvírinn hækkar sífellt í verði.
Við sjáum ljósleiðara oftast fyrir okkur sem gagnsæjan streng að svipaðri þykkt og fiskilína en raunin er að sú lína eru mörg hundruð ljósleiðara sem búið er að setja í eina leiðslu. Sjálfur kjarninn í leiðaranum sem ljósið fer um er ekki nema átta nanómetrar og utan um það bætast alls konar himnur og hlífar sem gerir hvern streng um einn þriðja af þykkt mannshárs.
En hvers vegna takmarkast notkun ljósleiðara við gagnaflutning? Í nýjum skrifstofubyggingum eru menn farnir að nota þá til að lýsa upp hús. Það er mjög óhentugt að leiða orku sem nota á í ljós með rafmagni þegar einfaldlega er hægt að leiða hana á ljósformi frá upphafi til enda. Töluverð orka tapast þegar rafmagninu er breytt í ljósorku auk þess sem mikið af því breytist í hita. Ugluspegill spáir því að eftir nokkra áratugi verði ljósleiðararnir búnir að leysa af meirihluta rafmagnslýsingar í híbýlum vesturlanda.
Hvað sem líður gagnrýniröddunum Ugluspegill með ljósleiðaranum. Um árið kviknaði í húsi frænku hans vegna lélegra rafleiðslna - eitthvað sem hefði aldrei gerst ef ljósleiðarar væru í húsinu. Hann vonar einnig að ekki fari fyrir þeirri uppgötvun eins og gufuvél Herons að enda sem gagnslaust leikfang á týndu pergament-skjali heldur nauðsynlegur faktor á öllum húsateikningum.
Tuesday, April 18, 2006
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment