Wednesday, February 28, 2007

Kristján gerist leiguskáld

Sem píanóleikari hef ég stundum spilað undir í veislum, afmælum og öðrum viðburðum á Hótel Sögu. Stundum er ég einn að hamra gömul djasslög á milljónadýrgripi á þremur fótum í súlnasalnum eða með fiðluleikara, söngkonu og fleira. Tónlistarmaður sem spilar undir, bakgrunnstónlist einn úti í horni fær oftast lítið lof fyrir undirleikinn þannig séð, nema nokkur handabönd frá djassáhugamönnum, afgangssnittur og nokkra drykki á barnum (fyrir utan greiðsluna að sjálfsögðu, maður hefur yfir engu að kvarta). Sumir veislugestir taka ekki einu sinni eftir því að lifandi tónlist hafi verið í veislunni heldur bara píanóspil af geisladiski.

Af þeirri ástæðu, sem og mörgum öðrum, finnst mér að sjálfsögðu skemmtilegra að koma fram sem ákveðið númer þar sem allra augu hvíla á manni í nokkrar mínútur, maður sér eftir að hafa ekki greitt sér betur um morguninn en fær sem betur fer lófatak í lokin til staðfestingar um að þetta hafi nú ekki verið alslæmt hjá manni.

Í þessum veislum eru svo alltaf einhverjir aðrir dagskrárliðir, ræður, hópsöngur, jafnvel töframenn og oftar en ekki kvæðaupplestur um afmælisbarnið, brúðhjónin, hinn látna eða hvert sem tilefnið er. Á Hótel Sögu sat ég í nokkurra mínútna pásu frá undirleiknum og saup á kaffi þegar bróðir fimmtugu konunnar klöngraðist upp í púlt með samanbrotið blað og vildi lesa lítið kvæði sem hann hafði gert um hana. Yfirleitt er þetta heldur ómerkilegur kveðskapur þar sem "digur flaug" rímar við Sigurlaug og uppnefni á borð við Atli fatli, sem ég hafði síðast heyrt í níu ára bekk rifjast upp fyrir stórveisluskáldunum þegar þau eru öll af vilja gerð, en lítið meira en það, til að semja eitthvað ódauðlegt um vini sína og ættingja.
Nú hvíldu allra augu á honum í nokkrar mínútur, meira að segja barþjónanna og kokksins, en ég leit yfir hópinn og sá mismunandi augnaráð. Sumir drógu augað í pung, aðrir fitluðu vandræðalega við kökudiskinn meðan ljóðskáldið tæmdi úr kvæðabrunni sínum yfir alla viðstadda. Þótt sumir hafi ekki vit á kveðskap taka þó allir eftir þegar eitthvað neyðarlegt er flutt fyrir þá.

Ég varð þeirri stund fegnastur þegar ég kláraði úr bollanum og rölti aftur að flyglinum meðan gestirnir voru enn að jafna sig á þeim braghroða sem hafði dunið á þeim skömmu áður, og þegar fínu frúrnar héldu að teipið væri aftur komið í gang önduðu þær léttar og héldu áfram að slúðra um rakarann sinn.

Nú verð ég að gera eitthvað í þessu, hugsaði ég og tók sóló í I fall in love too easily eftir Sammy Cahn. Það er ekki afmælisbörnum bjóðandi að láta yrkja um sig eitthvað drasl sem brýtur öll fagurfræðileg gildi. Ég hafði ort töluvert sjálfur og sett á bloggsíðuna mína og víðar á netið og vonaði hálfpartinn að ég hefði stigið í pontuna með samanbrotna blaðið og flutt eitthvað betra en þetta.

---

Leiguskáld? át mamma upp eftir mér í símanum. Læturðu þá aðra flytja ljóð eftir þig og eigna sér það bara?

Nei nei auðvitað ekki, fólk veit alveg að þetta er eftir mig. Ég ætla meira að segja að bjóðast til þess að mæta og lesa það sjálfur upp, ókeypis að sjálfsögðu.

Og...rukkaru þá eftir erindi eða...bragarhætti og svona?

Jájá, ef það eru spes óskir um innrím og lengd og eitthvað þannig tek ég náttúrulega bara samkvæmt því. Mér finnst leiguskáld líka ágætis orð, þetta er svona eins og gömlu tónskáldin sem voru á samning hjá einhverri hirð. Mig langar líka til að vera skáld án þess að þurfa að fara út í Guðstein Eyjólfs og kaupa mér hommalegan trefil og sixpensara eins og öll "alvöru" skáld á Íslandi virðast gera.

Ég þarf bara að auglýsa grimmt í Fréttablaðinu og á netinu, það er ábyggilega fullt af fólki sem er tilbúið í að kaupa flott kvæði fyrir ástvini sína. Þegar ég kem heim til Íslands verður krókurinn makaður og stuðlarnir skerptir.

2 comments:

Þorsteinn said...

Þú verður ráðinn í veislur fjölskyldunnar til frambúðar.

Unknown said...

Við þau tíðindi að Kristján ætlaði að gerast leiguskáld datt mér í hug staka. Hún er undir mjög knöppum hætti og er samhenda en einnig hinn mesti leirburður.

Kvæðaskáld ég kenni
með kónganef stórt flenni
nískur er sem Nenni
nokkuð góður penni.