Monday, October 29, 2007

Trúfrelsi - en ekki trúarjafnræði

“Hvaða máli skiptir það – það er trúfrelsi á Íslandi,” er setning sem maður heyrir oft í rökræðum um hvort ástandið sé sanngjarnt hvað varðar skiptingu skattpeninga til trúfélaga. Það virðist nefnilega vera svo að fólk rugli oft hugtökunum trúfrelsi og trúarjafnræði þegar þær fjárveitingar sem renna til Þjóðkirkunnar ber á góma. Hér á Íslandi ríkir nefnilega engan veginn trúarjafnræði og fyrir því eru ýmsar ástæður.



Að sjálfsögðu ber hér fyrst að nefna lög sem Alþingi setti þess efnis að allir skuli greiða gjald sem renni til þess trúfélags sem þeir aðhyllast (eða Háskólans ef þeir eru skráðir utan trúfélaga). Hér er í gangi fáránlegt kerfi sem miðast að því að ríkið sjái um innheimtingu sóknargjalda en ekki trúfélögin sjálf. Hvers vegna ættu þau ekki að vera fullfær um það? Og hvers vegna þurfa trúleysingjar samt að greiða gjaldið þótt þeir séu ekki skráðir í neitt félag?

Það rotna við þetta er að innheimtingin rennur saman við tekjuskattinn án þess að flestir taki eftir því. Ef Þjóðkirkjan þyrfti að innheimta sín sóknargjöld sjálf bærust inn um lúguna til margra ykkar árlegt umslag með reikningi upp á heilar 11.000 krónur sem þið þyrftuð gjöra svo vel að borga. Margir myndu eflaust bregðast illa við því og heimta að fá að sleppa að borga þetta (sem er ekki hægt nema kannski gefa Gunnari í Krossinum eða Háskólanum). Er þetta kannski eitt af því sem er innifalið í 62. grein stjórnarskrárinnar um að Þjóðkirkjan skuli vera studd og vernduð af ríkinu?

Ekki nóg með það. Hún fær á hverju ári rúmlega fjóran og hálfan milljarð íslenskra króna til að halda við kirkjum sínum, borga prestum laun og eflaust ótal fleira sem þarf fyrir uppihaldið.

Til að geta réttlætt þetta beita talsmenn þjóðkirkjunnar m.a. fyrir sig hefðarrökum. Hin evangelísk-lúttherska kirkja hefur verið þjóðtrú Íslendinga síðan siðaskipti urðu og því eigi hún rétt á því að þiggja fjármagn frá skattgreiðendum til að halda siðinum við. Þetta heldur þó engu vatni því hér er t.d. ekkert tillit tekið til þeirra sem aðhyllast ekki “þjóðtrúna” hversu “samgróin” hún er þjóðinni eins og þeir vilja meina. Ekki fær kaþólska kirkjan neitt vegna sögulegs mikilvægis fyrir innrætingu góðs siðar í samfélagið, hvað þá ásatrúarfélagið. Prestar og prelátar kirkjunnar stæra sig af því að þeir standi vörð um siðgæði landsmanna og landsmenn telji kirkjuna afar mikilvæga – hvers vegna þurfa þeir þá að vera á ríkisspenanum til að geta skrimt? “Þetta hefur alltaf verið svona” er síðasta hálmstrá þeirra sem vilja ekki breyta hlutunum.



Annað hálmstrá sem gripið er til eru meirihlutarökin. “Þjóðkirkjan hefur langflesta landsmenn í sínum röðum og þess vegna er ekkert óeðlilegt að það fái þessar fjárveitingar.”

Í lögum stendur að nýfædd börn skulu sjálfkrafa skráð í trúfélag móður. Þeir sem aðhyllast önnur trúarbrögð (ef einhver) en mæður þeirra þurfa því að byrja að skrá sig úr trúfélaginu áður en þeir geta skráð sig í eitthvað annað! Hér er komin aðalástæða þess að Þjóðkirkjan hefur þennan meirihluta landsmanna í söfnuði sínum. Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft um 99% landsmanna skráð í flokkinn og allir sem sérstaklega aðhylltust aðra flokka hefðu fyrst þurft að afskrá sig úr Sjálfstæðisflokknum, hvernig væri staða hans í dag?



Í skjóli þessa meirihlutaraka reynir Þjóðkirkjan að komast upp með ýmislegt sem skekkir trúarjafnræði í landinu. RÚV er ætlað að setja áherslu á og vernda ríkissiðinn, með dagskrárliðum á borð við Orð dagsins, Sunnudags- og jólamessur o.s.frv.

Í nýlegum úrskurði Hæstaréttar í málaferlum Ásatrúarfélagsins gegn Þjóðkirkjunni kom fram að Þjóðkirkjan er réttnefnd Ríkiskirkja og enn fremur að starfsmenn hennar séu opinberir starfsmenn með réttindi og skyldur gagnvart almenningi eins og í öðrum opinberum geirum. Á nýlegu kirkjuþingi ákvað ríkiskirkjan að staðfesta samvist samkynhneigðra, en neitar enn þá að tala um giftingu þeirra sem hjónaband, þ.e. þeir líta mismunandi á sambúð og samvist einstaklinga út frá kynhneigð þeirra. Hér er um grófa mismunun að ræða frá opinberum starfsmönnum. Málið lítur enn verr út þegar við skoðum réttindi annarra trúfélaga því þau mega heldur ekki gefa saman samkynhneigð pör! Þannig má Fríkirkjan eða Ásatrúarfélagið ekki gefa saman karl og karl eða konu og konu vegna þess að það stangast á við trúarrit Þjóðkirkjunnar!



Í skjóli meirihlutarakanna viðgengst enn þá að við skattgreiðendur borgum fyrir menntun presta þjóðkirkjunnar. Í skjóli þeirra kemst hún einnig upp með ýmislegt stórfurðulegt sem fær enn þá að standa í námsskránni. Áður en grunnskólabörnum er veitt nokkur menntun í trúarbragðafræðslu þurfa þau að ganga í gegnum margra ára kristinfræðikennslu með námsbækur skrifaðar af prestum Þjóðkirkjunnar, þar sem börnunum eru oft kennd grundvallaratriði kristinnar trúar án þess að tekið sé fram að þetta sé “þeirra” trúarbókstafur – hversu rotið hljómar það? Í námsskránni er einnig tiltekið að börnunum skuli innrætt kristilegt siðgæði – eins fullkomnara og kærleiksríkara og það kann að hljóma miðað við siðgæði annarra trúarbragða (ef nokkur þörf er á að innræta þeim eitthvert trúarlegt siðgæði á annað borð – það ætti að vera hlutverk foreldranna).

Hver hlustar eiginlega á svona? Ekki margir, sem betur fer. En sú staðreynd að þetta er enn í lögum veldur mér áhyggjum. Trúarjafnræði á Íslandi stendur hallari fæti í orði en á borði en það sýnir okkur aðeins að það sé þeim mun auðveldara að breyta því til betri vegar. Þetta snýst ekki einu sinni um trúarbrögð þegar allt kemur til alls – hægt væri að yfirfæra þetta á stjórnmálaflokk, kynþáttamismunun eða hvað sem er og fólk myndi um leið sjá hið grófa misrétti sem hér er á ferðinni. Sú staðreynd að um trúfélag er að ræða gerir það ekki vitund heilagra.

5 comments:

Doddi said...

"Efnafræði tekur við af gullgerðarlist, stjarneðlisfræði af stjörnuspeki og heimspeki af trúarbrögðum", sagði fróður maður forðum.

Það er klárlega margt bogið við þetta fyrirkomulag, en kannski hefur fólk það bara of gott til að nenna að spá í trúarbrögð yfir höfuð... Ef þessi umræða brynni heitt á landanum myndi hann vafalaust svipta af sér þessari götóttu kápu forneskjunnar sem er þjóðkirkjan.

Mun hann kannski bara horfa á Dr. Phil þangað til?

Doddi said...
This comment has been removed by the author.
Doddi said...
This comment has been removed by the author.
Anonymous said...

Ég held að fólk af eldri kynslóðinni og fleiri yrðu ekki kátir ef hætt væri að útvarpa jólamessunni....sjálf yrði ég öskuill...hana nú og hafðu það!!!!

Anonymous said...

ég pant fá nýtt blogg...