Hér ætlar Ugluspegill ekki að lofa hin gullnu ár grunnskólans eða hið saklausa iðjuleysi æskunnar. En eftir að hann rambaði inn á síður hjá nokkrum af grunnskólum landsins fór hann að velta því fyrir sér muninn á einkareknum skólunum og þeim ríkisreknu.
Sjálfur var Ugluspegill í einkaskóla öll sín ár utan það síðasta, og hefur honum alltaf þótt fróðlegt þegar hann rifjar upp grunnskólaár sín að bera saman þessar tvær stofnanir. Hann ákvað því að fara inn á heimasíðu hjá einhverjum einkaskóla og kynna sér markmið og sérstöðu hans. Tjarnarskóli varð fyrir valinu, en samkvæmt heimasíðu hans "er [skólinn] rekinn sem einkahlutafélag."
Skólinn er talsvert ungur, stofnaður 1985 og hefur alla tíð haft það að leiðarljósi "að nemendum og starfsfólki líði vel í skólanum, þjálfa nemendur í sjálfstæðum vinnubrögðum, stuðla að heilbrigðum lífsháttum" og svo framvegis. Við fyrstu sýn virðist ekkert öðruvísi við þennan skóla en þegar nánar er rýnt í starfshætti hans kemur ýmislegt í ljós.
"Allt frá stofnun skólans (1985) hefur mannræktin verið stunduð af kappi í skólanum. Allir starfsmenn skólans hafa meðvitað hlúð að þessum þætti sérstaklega í öllum daglegum samskiptum en einnig í sérstökum kennslustundum í öllum bekkjum undir nafninu “mannrækt”. Í nýjustu Aðalnámskrá grunnskóla hefur hliðstæð iðja hlotið nafnið “lífsleikni”."
Aha! Þetta er áhugavert. Tjarnarskóli var semsagt brautryðjandi í þeirri lífsleiknikennslu sem nú er höfð í öllum grunnskólum landsins og er Ugluspegli svo ofarlega í sínum æskuminningum. Þetta er gott dæmi um það þegar ríkisreknir skólar taka upp vinnuhætti og aðferðir þeirra einkareknu. Lífsleikni er að sjálfsögðu mikilvægt fag og er í raun furðulegt að henni skuli ekki hafa verið hampað meira en raun ber vitni, miðað við þá áherslu sem lögð er á að undirbúa nemendur sína sem best fyrir lífið.
Höldum áfram. Á vefsíðunni má einnig lesa:
"Í 8. og 9. bekk eru kennslustundir í framsögn og ræðumennsku."
Þetta líst Ugluspegli á. Alla þá sem hafa þurft að koma fram fyrir hóp af fólki, halda ræðu eða annað þvíumlíkt hafa einhvern tímann rekið í vörðurnar og sopið af hinum beiska drykk reynsluleysisins. Það er í raun fáránlegt að eftir tíu ára skólagöngu hafi unglingarnir útskrifuðu enga markverða reynslu af því að tala fyrir framan aðra og koma fram. Þó þeir séu stútfullir af þekkingu og menntun skuli vanta þann hæfileika að hafa sjálfsöryggi fyrir framan ókunnuga.
En það er ekki öllum gefið. Næsta atriði á þessum einkennalista Tjarnarskóla gefur ríkisreknu skólunum hins vegar þétt spark í rassinn:
"Í 10. bekk eru kennslustundir undir nafninu “menntun og störf” (me.st) og nemendur fá einnig fjármálafræðslu."
Ugluspegill varð sjálfráða á dögunum með því frelsi og þeirri ábyrgð sem fylgdi. Þegar hann fór í banka um daginn og ræddi þar við þjónustufulltrúa sinn lagði Ugluspegill spilin á borðið og viðurkenndi að hann skildi ekki helming þeirra orða og atriða sem þjónustufulltrúinn hugðist fræða hann um. Hann var einfaldlega ósynt fatlafól í hinum stormasama sjó fjármálaheimsins og fékk engan kút né kork til að halda sér á floti. Þegar foreldrar Ugluspegils lýstu yfir óánægju sinni á því að hann vissi ekki meiningu orða eins og víxill, yfirdráttarheimild, svardagi eða verðtrygging spariinneigna lagðist hann undir feld og kynnti sér þau mál öll. Því ef maður gerir það ekki sjálfur, hver á þá að gera það? Skólarnir?
Ugluspegill er handviss um að þarna úti í hinum óstyrka heimi unglinga á mörkum sjálfræðis fyrirfinnist stór hópur ungs fólks sem hafi heldur ekki hugmynd um ofantöld orð vegna þess að þeim hafi einfaldlega aldrei verið kennt neitt hvað varðar fjármál. Og þau sem þykjast vita meiningu þeirra, setjist niður og spyrjið ykkur sjálf hvort þið gerið það í raun.
Fjármálafræðsla er greinilega það sem vænta má í ríkisreknu grunnskólana á næstu árum. Miðað við hvað lífsleiknin hlaut góðar viðtökur væri þessi fræðsla auðfúsugestur í allar námsskrár.
En hvers vegna að líta á alla ríkisreknu skólana sem eitt stórt bákn? Það er ekki eins flókið og það sýnist. Ugluspegill heimsótti fleiri heimasíður. Hann byrjaði á heimasíðu Vesturbæjarskóla(sem er í umsjá ríkisins).
Þessi upptalning er að sjálfsögðu þörf og góð og nauðsynlegt að börnin í Vesturbæjarskóla tileinki sér þessi atriði. En sker Vesturbæjarskóli sig úr öðrum grunnskólum að því leyti að þeir leggi meiri áherslu á að innræta í börnum virðingu, jákvæðni, samkennd o.s.frv.?
Hérna er síðan Seljaskóli. Þar eru greinilega ekki alveg sömu gildi uppi á teningnum.
Ugluspegli finnst skemmtilegt að hver og einn skóli hafi sitt logo eða einkennistákn. Þetta er búið að gera við hvern einasta grunnskóla á landinu og skeyta einhverjum af þessum orðum úr hinum fjölbreytta orðabelg jákvæðra gilda fyrir neðan einkennistáknið. Austurbæjarskóli sérhæfir sig í fjölbreytileika og jákvæðni, Hlíðaskóli í eflingu þroska og þekkingu og svo framvegis. Algjört búllsjitt. Þótt Ugluspegill hafi að sjálfsögðu ekkert á móti þessum hlutum eða sérhæfingu grunnskólanna, þá efast hann stórlega um hvort þeir séu á borði sem í orði.
Eru grunnskólarnir eins og mennta- og framhaldsskólarnir eru í dag, hver og einn sérstakur og með sín einkenni? Hefðu hávær mótmæli heyrst ef ákveðið hefði verið að stytta grunnskólana um eitt ár í staðinn fyrir framhaldsskólana í nafni þess að verið væri að útrýma sérstöðu hvers og eins? Og hvað með þá einkareknu? Vilja ríkisreknu grunnskólarnir líkjast þeim einkareknu vegna þess hversu sniðugir og hugmyndaríkir þeir eru hvað varðar ný gildi og námsgreinar? Spegill spegill herm þú mér. Það þarf greinilega að leggjast undir fleiri feldi.
No comments:
Post a Comment