Sunday, April 16, 2006

Inri 2

Júdas frá Ískaríot


Hér fyrir ofan sjáum við blaðsíðu 16 úr hinu "nýfundna" guðspjalli sem á að vera komið frá Júdasi. Þessir páskar hafa að einhverju leyti einkennst af umræðu um hlutverk Júdasar í kristninni og hið sígilda þrætuepli um hvort hann hafi raunverulega svikið Jesú eða "hjálpað" honum að uppfylla tilgang sinn á jörðinni, að deyja fyrir syndir mannanna. Handritið í heild sinni er ekki mikið, aðeins um 26 blaðsíður af rifnum papýrustætlum og er blaðsíðan fyrir ofan með þeim heillegri. Það er talið skrifað um 180 eftir Krist og gekk manna á milli á svartabraskmörkuðum og er vitað að það hafi innihaldið 62 blaðsíður en margar af þeim týnst eða eyðilagst þangað til National Geographic keypti það árið 1999.

Nú hafa þeir rýnt í blaðsíðurnar og hafa sett fram þá kenningu að Júdas hafi í raun tekið að sér að "svíkja" Jesú með hans samþykki þar eð Jesú hafi talið hann vera nánastan sér af lærisveinunum og sá sem hann treysti best. Júdas sé því í raun orðinn engu minni píslarvottur en Jesú og í raun hafi hann þjáðst meira fyrir mannkynið þar sem hann þurfti(eða þarf) að sæta eilífum þjáningum í helvíti. Að sjálfsögðu hafa ýmsir orðið til að mótmæla þessu og fer páfagarður þar fremstur í flokki.
Þær bækur sem Biblían inniheldur voru ákveðnar á fjórðu öld eftir Krist af mönnum sem þarna höfðu í raun alvald til að ákveða hvað trúarrit kristindómsins samanstæði af. Fjölmörgum bókum, svonefndum apókrýfar bókum var hafnað og þær jafnvel brenndar eða fargað. Má þar ætla að Júdasarguðspjallið hafi ekki verið vel séð af þessum kirkjunnar mönnum.

Nú telur Ugluspegill sig vera trúlaus en hann hefur þó áhuga á kristindómnum rétt sem öðrum trúarbrögðum. Hjá honum vöknuðu þessar hugrenningar þegar hann las um Júdasarguðspjallið í mogganum:


- Þótt það standi í Biblíunni að Jesús hafi vitað að Júdas myndi svíkja hann er þó alltaf sá möguleiki að hann hafi einfaldlega ekki haft hugmynd um það. Þetta er ábyggilega einfaldasta hugmyndin sem menn geta mótað af Júdasi, að hann hafi verið samviskulaus svikari.

- Hafi Jesú vitað af tilvonandi svikum hans, er þrennt í stöðunni:

1. Að hann og Júdas hafi gert það í samráði hvor við annan eins og Júdasarguðspjallið á að boða

2. Að Jesú hafi horft upp á spádóma sína rætast án þess að hann hafi komið nokkrum vörnum við eins og hin guðspjöllin boða. Það setur Júdas óneitanlega í mikla klípu.

3. Að Jesú hafi horft upp á spádóma sína rætast þrátt fyrir að hann hafi geta komið í veg fyrir þá, s.s að þetta sé bara partur í hlutverki hans á jörðinni. Ugluspegill dustaði rykið af biblíu afa síns og las guðspjöllin á föstudaginn langa. Þar tók hann eftir því að Júdas gerir samning við æðstuprestana um að vísa á Jesú áður en Jesú segir þeim við síðustu kvöldmáltíðina að einn úr þeirra hópi muni svíkja sig. Hérna er ekki hægt að útiloka að hann og Júdas hafi verið saman í ráðum um að hann muni taka að sér "svikarahlutverkið" í þessu píslarferli Jesús á jörðinni.



Hlutverk Júdasar í biblíunni er ekki öfundsvert og í gegnum aldirnar hefur nafn hans orðið að tákni fyrir svikara. Það er þó merkilegt hvað guðspjallamennirnir eru hlutlausir gagnvart Júdasi og þeir segja eiginlega bara frá atburðunum eins og þeir gerðust án þess að fella einhvern dóm um hann. Annar lærisveinn, Símon Pétur, svíkur Jesú að hluta til í orði með því að afneita honum þrisvar í hallargarði æðsta prestsins. Jesú talar þó um að Satan hafi þarna verið með í ráðum og að Símon Pétur sé því í raun ekki ábyrgur gjörða sinna. Gildir það sama um Júdas eða ekki?

Í þessu kristallast boðskapur kristindómsins um hvort maðurinn hafi frjálsan vilja eða ekki:

1. Ef Jesús sá fyrir svik Júdasar má færa rök fyrir því að Júdas hafi ekki frjálsan vilja og sé því bara leiksoppur í þessu dauðaspili Jesúsar. Hann þurfi samt sem áður að þola eilífa vist í helvíti á meðan Jesús sitji við hægri hönd Guðs og þar með er Júdas orðinn jafnmikill píslarvottur mannkyns og Jesús ef ekki meiri.

2. En samkvæmt biblíunni er Júdas einfaldlega svikari og það sé á engan hátt hægt að afsaka það með einhverri forlagatrú. Þetta ítrekaði páfagarður í páskaræðu Benedikts 16. páfa nú í dag þegar þetta er skrifað á páskadegi. Hér er biblían á vissan hátt komin í mótsögn við sjálfa sig, sbr. orð Jesús: "Faðir, fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra." Fyrst þetta á við um Símon Pétur, gildir það einnig um Júdas?

No comments: