Thursday, July 13, 2006

Tíu bestu íslensku lög allra tíma

Í staðinn fyrir mp3 blogg sem spretta alls staðar upp á netinu ætlar Ugluspegill að gera sinn lista yfir tíu bestu lög sem samin hafa verið á Íslandi. Úr nógu er að velja og neyddist hann til að sleppa ýmsum frábærum lögum sem eiga þó sinn heiðursess skilinn. Ugluspegill reyndi að hafa lög úr sem flestum kimum íslenskrar tónlistar. Að sjálfsögðu verða margir ábyggilega ósáttir við að þessi eða hin lög eru, eða eru ekki, á listanum en þetta er að sjálfsögðu mjög persónulegt mat þess sem ritar. Listi yfir tíu verstu lögin er svo væntanlegur.

10. Styttur bæjarins e. Spilverk þjóðanna

"Þeir gengu Miklubraut, og hittu Einar Ben
skáldið er alltaf í frakkanum aðhnepptum, hnésíðum.
Einar er ein af styttum bæjarins sem enginn nennir að horfa á...grey stytturnar."

Já grey stytturnar. Á þessari mynd sjáum við Jónas Hallgrímsson kúldrast einan í Hljómskálagarðinum sem áður tróndi eins og herforingi á Austurvelli áður en Jón Sigurðsson tók hans sess þar. Spilverkið kom, sá, og bjargaði íslenskri tónlist á sínum tíma sem var orðin álíka goslaus og volgt bónus-cola. Hljómsveitin sem upphaflega hét Hassansmjör, síðan Hljómsveit Árna Vilhjálmssonar og félaga, svo Egils og loks Spilverk þjóðanna notaði hvaða hljóðfæri sem þeir komust í og höfðu enga fasta hljóðfæraskipan né fjölda meðlima. Tónlistarmennirnir bjuggu einfaldlega yfir slíkum frumleika og sköpunarkrafti að útkoman var engu öðru lík. Í þessu lagi bregður fyrir þjóðlegu stefi eins og í svo mörgum öðrum lögum Spilverksins og er ágætt að byrja listann með hressilegu lagi sem þessu.


9. Watermelon woman e. Jagúar

Þetta er eiginlega besta fönk-stuðlag sem heyrst hefur frá íslenskri hljómsveit. Hið óviðjafnanlega bassagrúv eftir bassaleikarann í byrjun lagsins gefur góðan forsmekk að því sem koma skal. Fönk-vélin Jagúar vinnur hér á þrjú þúsund snúningum þar sem uppskriftin er ekkert svo flókin, aðeins þéttur taktur, leikandi bassi og rytmagítar sem spila undir alvöru partí-laglínu.




8. Í bláum skugga e. Sigurð Bjólu

Spilverks-meðlimurinn og stuðmaðurinn sem týndist samdi ekki mörg lög á ferli sínum með þessum hljómsveitum, en allir kunna þó stefið í þessu reykmettaða lagi sem er eitt það besta sem Stuðmenn hafa sent frá sér. Síðasta erindi lagsins ber þess einmitt sterkt vitni:

"Svo þegar vorið kemur á kreik
þá tek ég flygil og fæ mér reyk.
Hann er mín trú, og festa í lífsins leik..."

Sigurður hætti í Stuðmönnum skömmu eftir að hafa samið þetta lag og hefur ekkert sést til hans síðan. Í dag starfar hann sem hljóðmaður hjá Þjóðleikhúsinu. Lagið var á fyrstu plötu hljómsveitarinnar, Sumar á Sýrlandi sem kom út árið 1975. Á þeim árum voru meðlimir alltaf í dulargervum þegar þeir komu fram og hvíldi mikil leynd yfir því hverjir væru í hljómsveitinni, og urðu margir til að gagnrýna söngvarann fyrir að vera alltaf að stæla Egil Ólafs. Um gæði plötunnar þarf varla að deila og hægt og má tína til mörg
önnur lög á þessari plötu sem ættu heima á þessum lista.


7. Íslendingaljóð 17. júní 1944(Land míns föður, landið mitt) e. Þórarin Guðmundsson

Að sjálfsögðu verður að vera a.m.k. eitt alvöru ættjarðarlag á þessum lista. Ugluspegill átti í miklum innbyrðis deilum um hvort hann ætti að setja þetta lag á listann eða Heyr himna smiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson við ljóð Kolbeins Tumasonar. Þórarinn Guðmundsson er nafn sem hringir varla bjöllum hjá mörgum en hann gerði margt á sínum ferli, meðal annars að stofna vísi að Sinfóníuhljómsveit Íslands 1921 þegar hann setti saman fiðluhóp sem átti að spila við heimsókn Kristjáns X. Danakonungs. Textinn eftir Jóhannes úr Kötlum er líka meitlaður og ætti að vekja upp smá þjóðerniskennd jafnvel hjá mesta malbiksplebba. Þrátt fyrir að lagið sé ekkert flókið í sniðum og engin nýlunda sem tónsmíð er hægara sagt en gert að semja einfalt sönglag sem situr vel í minni en er þó fallegt og án tilgerðar. Þetta lag hefur verið á dagskránni hjá nær öllum kórum frá því það var samið sjálfstæðisárið mikla og mun vonandi gera það til frambúðar.

6. Venus as a boy e. Björk












Þetta lag er flott.


5. Til þín e. Hjálma


Hljómsveit Bob Marley hafði það orð á sér að þrátt fyrir að samanstanda af tíu til þrettán manns unnu þeir saman eins og ein heild og voru það þéttir í spilamennsku og takti að það var ótrúlegt. Hjálmar eru af svipuðu kalíberi. Mikið af reggí tónlist er orðin að einföldum töktum með fábreyttri laglínu eða stefi sem oft er rappað yfir eða sungið á sömu nótunni allan tímann. Hjálmar eru hins vegar svo lýriskir með tónsmíðarnar að saman myndar þetta pottþétta blöndu. Skilaboðin eru þau sömu óháð takti, klæðaburði eða útliti, góð tónlist villir ekki á sér heimildir.


4. Ástarsæla e. Gunnar Þórðarson(Sefur þú nú sætt og rótt)


Það væri að sjálfsögðu hneisa að skilja Gunna Þórðar eftir á þessum lista. Hann hefur svoleiðis dælt út úr sér lögunum að hægt væri að gera sér lista einungis með lögum eftir hann. Margir telja að þetta lag sé einum of væmið fyrir sinn smekk en Ugluspegill er ekki á sömu skoðun og vill kenna textanum um. Quarashi notaði bút úr viðlaginu í hinu vinsæla lagi þeirra Tarfur og afgreiddi þar með alla gagnrýni um væmni í þessu annars hugljúfa lagi sem mætti oftar vera spilað.


3. Haustvísur til Máríu e. Atla Heimi Sveinsson

Framlag Atla Heimis til íslenskrar tónlistar- og tónsmíðasögu verður seint fullmetið. Hann var, ásamt Magnúsi Blöndal Jóhannessyni og Þorkatli Sigurbjörnssyni með þeim fyrstu á Íslandi sem gerðu tilraunir með raftónlist og sínus-bylgjur. Þekktari eru þó kórverkin hans og í þessu fallega en sorglega lagi er fjallað um dauðann á áhrifaríkan hátt. Það er, ásamt Allt eins og blómstrið eina(og reyndar My way) með þeim títtsungnari í jarðarförum landsmanna.
Atli gerir hér tilraunir með ýmsa hljómaganga sem fléttast niður í lok hvers erindis með lækkuðum níundum og öllu tilheyrandi sem setur sterkan, íslenskan kórstimpil á haustvísurnar.

2. Viðrar vel til loftárása e. Sigurrós

"Það besta sem Guð hefur skapað er nýr dagur." syngur Jónsi rétt áður en strengirnir og rafmagnsgítararnir springa út í einu magnaðasta klæmaxi íslenskrar tónlistarsögu. Það er lengsta lagið á hinni ótrúlegu plötu Ágætis byrjun og muna eflaust margir eftir myndbandinu þar sem tveir ungir strákar á sjötta áratugnum finna ástina í slow-motion, Helga Björns til mikillar mæðu.
Þegar hlustað er á lagið vakna svo margar tilfinningar, minningar og langanir; maður fyllist nýrri von um að hægt sé að gera heiminn betri en hann er og vill helst ekki hugsa um neitt ljótt á meðan.

1. Sveitin milli sanda e. Magnús Blöndal Jóhannsson

Það er eiginlega engin spurning hvaða lag trónir efst á þessum lista. Ellý Vilhjálms, eða Henný Eldey eins og hún hét réttu nafni, er sú eina sem getur valdið þessu lagi svo vel sé. Þarna er toppnum náð í hinni klassísku dægurlagatónlist frá sjöunda áratugnum.
Ellý er líka bara einfaldlega besta söngkona sem Ísland hefur alið. Hún slær öllum söngkonum tónlistarbransans hér í dag við með léttum leik. Engin önnur nær þessum töfrum, þessari einstöku raddbeitingu og hinni sönnu listfegurð sem hún bjó yfir og beitti án þess að hafa
tiltölulega mikið fyrir því. Hljómsveitir dagsins í dag veigra sér við því að kovera þetta lag því það væri einfaldlega óvirðing við þá töfra sem áttu sér stað í upptökuveri Ríkisútvarpsins árið 1965 þegar hún og hljómsveit Svavars Gestssonar spiluðu sig beint inn í hjörtu þjóðarinnar með þessu kynngi magnaða lagi Magnúsar Blöndals. Á þessum tíma þóttu marimba og þverflautusóló bara sjálfsögð í dægurtónlist sem sveipar þetta lag skemmtilegum nostalgíusjarma, en Svavar Gests spilaði sjálfur á marimbuna. Árið eftir giftust þau og áttu fjóra drengi, þeirra á meðal Mána Svavarsson sem gerir nú tónlist fyrir Latabæ.

Vert er að skrifa um lagahöfundinn Magnús Blöndal Jóhannsson sem hefur nokkuð gleymst í íslenskri tónlistarsögu. Eins og kom fram áðan var hann sá fyrsti á Íslandi sem gerði tilraunir með raftónlist og tilbúin hljóð, sínusbylgjur ofl. í tónlist og samdi nokkur verk sem hafa fallið í gleymsku og voru aðeins flutt í örfá skipti.
Hann vann hjá Ríkisútvarpinu í þónokkur ár og komst þar í ný tæki og tól þess tíma sem, þrátt fyrir að vera einstaklega frumstæð, voru honum sem algjör töfratæki til að þróa nýja stefnu í tónlist. Magnús átti þrátt fyrir það erfiða æfi, var alla tíð ásakaður um að hafa hrint eiginkonu sinni niður stiga með þeim afleiðingum að hún lést(þótt um slys hafi verið að ræða) en eftir hann liggur þó þetta gullfallega lag. Og hugsa sér, það er ekki einu sinni texti. Stundum
þarf heldur ekki að óhreinka tónlistina með hinu talaða orði.

Þrátt fyrir miklar umhugsanir er greinarhöfundur viss um að einhver lög vanti á listann sem hann einfaldlega man bara ekki eftir. Öll komment hvað lagavalið varðar eru því vel þegin.

No comments: