Wednesday, June 28, 2006

Og hvað á barnið svo að heita?


Sjáið þennan litla og umkomulausa iPod. Þessi græja sem rétt hefur slitið barnsskónum er þó orðin svo útbreidd að önnur eins markaðshlutdeild og sú sem Apple hefur á mp3 spilara markaðinum þekkist varla. Íslendingar, sem þó eru þjóða duglegastir við að búa til nýyrði yfir hin fjölmörgu tæki og tól sem hingað berast á skerið hafa enn ekki fundið fullnægjandi orð yfir spilarann sem náð hefur útbreiðslu í hinu daglega máli. Við skulum þó líta á nokkur af þeim nýyrðum sem búin hafa verið til fyrir hinn blessaða iPod:

iBelgur: Þetta orð leit fyrst dagsins ljós af iPod nýyrðunum og er í rauninni bein þýðing úr enskunni. Í rauninni eru spilararnir ekkert ósvipaðir litlum belgjum (baunabelgjum?) sem hægt er að geyma ógrynni af tónlist. Að sjálfsögðu skal i-ið borið fram að íslenskum hætti. Spurning hvort að nýjustu nano-arnir séu belgslegir í laginu, en Ugluspegill á einn slíkan og er oft hræddur um að brjóta litla dýrgripinn sem virðist svo viðkvæmur, eða einfaldlega týna honum.

Tónhlaða: Þetta nýyrði birtist í grein eftir Árna Johnsen í Morgunblaðinu fyrir nokkrum vikum. Í þeirri eftirminnilegu grein skammast Árni út í "hin kvenlegu tök blaðsins", sumsé að konur sem vinni við blaðið séu hrifnari og áhrifagjarnari fyrir erlendum orðum en karlarnir og áhrif þess megi sjá á síðum Moggans með notkun á enska orðinu iPod. Urðu ýmsar konur óánægðar í kjölfarið og spunnust nokkrar deilur af þessu og tilgangur greinarinnar, fæðing orðsins tónhlaða, týndist í kjölfarið. Þetta orð er hugsað á svipaðan hátt og rafhlaða og þykir Ugluspegli þetta vera líklegasti valkosturinn sem fjölmiðlar taki að sér(ef þeir ætla að drullast til þess á annað borð). Þótt tónhlaða hljómi asnalega fyrst um sinn er Ugluspegill viss um að rafhlaða hefur gert það líka á sínum tíma. Áfram Árni.

Spilastokkur: Abbababb segja sumir, hér er gamalt vín á nýjum (i)belgjum! Þótt hið belgslega útlit spilaranna beri nafn með rentu eru þeir óneitanlega líkir spilastokkum hvað stærð og lögun varðar. Spilastokkur er þó ekkert nýyrði í sjálfu sér eins og allir vita en gömul og gróin orð hafa þó áður fengið nýja merkingu í málinu, til dæmis gemsi, sími, skjár o.s.frv. Eina sjáanlega hindrunin er að spilastokkur er ekki beinlínis hluti af gömlu máli. Hið upprunalega gemsaorð er nær einungis notað í samhenginu vandræðagemsi og símað og skjárinn eru bæði orð sem hætt voru í notkun þegar tækninýjungarnar komu fram. Auðvelt væri að ruglast á venjulegum spilastokki og spilastokki sem geymir tónlist. Við skulum þó hafa þetta orð bak við eyrað ef ske kynni að landinn hætti alveg að spila Ólsen Ólsen.



Padda: Hér er loksins líkt eftir hljóðunum í enska orðinu, pod og padda. Ugluspegill heyrði þetta fyrst á hljómsveitaræfingu þótt sá sem talaði um "pödduna" gerði það meira í gríni en alvöru. Það fer þó vel í munni og er enginn tungubrjótur sem gerði notkun enska orðsins meira aðlaðandi. Spurning hvort að hin neikvæða notkun orðsins padda yfir skordýr (og jafnvel sem hnjóðyrði yfir sumar manneskjur!) muni hindra útbreiðslu þess.

Hljóðkútur: Þetta orð varð upphaflega til úr smiðju Sigurðar Nordals þegar hann tók að sér að íslenska hin fjölmörgu stykki utan á bifreiðum þegar þær komust í almenna notkun á Íslandi. Önnur bílaorð eftir hann sem festust undir eins í hinu daglega tali eru t.d. blöndungur, kúpling, drifskaft að ógleymdum sjálfrennireiðartógleðurshringnum, sem dekkið leysti blessunarlega af hólmi. Hér er orðið komið yfir iPod spilarana og þykir mörgum hugvitsamlega að verki staðið. Mörgum þykir það þó of krúttlegt yfir eitursvalar græjur eins og iPod og býst Ugluspegill helst við því að það verði notað yfir hina baunalöguðu mp3 spilara frá Sony, en bleika gerðin af honum þykir einmitt sérlega krúttleg.


Það er löngu kominn tími til að RÚV, dagblöðin og aðrir miðlar taki að sér íslenskt orð yfir þessa mp3 spilara. Við megum ekki láta enska orðið festast í málinu eins fast og það er orðið í dag. Það er nauðsynlegt að eiga formlegt nýyrði yfir sem flestar tækninýjungar, því þótt það sé ekki mikið notað nema af ríkisfjölmiðlunum er nýyrðið þó yfir hendi og hver veit nema einn daginn muni hið daglega mál taka það í sátt. Án efa eru til fleiri nýyrði yfir iPod spilarana og hvetur Ugluspegill lesendur til að kjósa um líklegasta valmöguleikann í kommentakerfinu og/eða leggja til ný orð yfir þessa spilara.

No comments: