Margir eiga skilið lofkvæði, en fáir þó meir en Þórarinn Sigurðsson, núverandi inspó, sem verður nú kveðið um. Óskar undirritaður honum alls hins besta heima á Fróni.
Ég skipstjóra þekkti sem Þórarinn hét
á þrímastra skólafleyi
sem hlaðið af vistum úr höfninni lét
á hægviðris sumardegi.
Á sjónum það dveldi í um það bil ár
þá ætti það heim að venda
því skipstjórinn þótti of klókur og klár
til að kunngjöra heimsins enda.
Þar hásetar starfa, auk stýrimanns
sem stendur þar vaktina í miðið
(ef kæmi eitthvað fyrir kænuna hans)
og kokkur sem eldar í liðið.
Skipstjórinn gerir sér grein fyrir því
hve grimmlyndur Ægir sig heldur.
Ei hættir á neitt, slái harðbakkann í
og hrynji á þá ís eða eldur.
En hörð eru örlög á hættunnar sjó
því hrakviðri fljótt verður gefið
Þórarinn sig undir þrumurnar bjó
og þögull svo fær sér í nefið.
Brátt verður allt skipið sem skjálfandi agn
og sullast á dekkið heilt lón inn
En skipstjórinn mælir út öldunnar magn
og Mozart svo setur á fóninn.
Hinir á þilfari þræta um hvort
að þetta sé rétt sem þeir geri
Það dróst að koma með djúpsjávarkort
ef dallurinn steytti á skeri.
Möstrin nú svigna sem mauksoðin strá
og má ekki neitt út af bera
en hugmynd í kollinum kviknar þá
um hvernig það skal síðan gera.
Hans elja er þrotlaus, hans augnaráð beitt
hann aldrei má glata trúnni
og svo meðan hinir suða út í eitt
þá situr hann hugsi í brúnni.
Loks sést hann á dekki og segir sinn hug
þá samstundis hinir þagna.
Hann fremri er öllum í festu og dug
(og fyrningu enskra sagna).
Þá grípur hann stýrið og beygir af braut
þó brotsjónum seint myndi linna
því einhvern veginn í huga hans hlaut
hann réttu leiðina að finna.
Svo áhöfnina hann leiðir í land
úr logandi öldunnar bræði.
Hans ráð hafa aldrei siglt í strand
þótt sjórinn hann stundum hræði.
Það hreystiverk ei gleymist glatt
og glæðir hann hetjuljóma
þó renni það burtu helst til hratt
í hafsjó doða og dróma.
Hið lífsglaða æskufjör ber hann til blóðs
er við busana stígur hann dansinn
og verði þér, Þórarinn, viskan til góðs
og verndi þig lárviðarkransinn.
Saturday, November 04, 2006
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
ugluspegill.blogspot.com is very informative. The article is very professionally written. I enjoy reading ugluspegill.blogspot.com every day.
instant payday loan
online payday loan
Very informative post. Thanks for taking the time to share your view with us.
Post a Comment