Saturday, December 30, 2006
Til Kristins Ármannssonar
Í fjórða bekk er fullt af nýjum hlutum
sem finnast mörgum hugleiknir í bland
Sokkabandsins sérstaklega nutum
og sextán skáldin ortu um sitt land.
Í seinni tíð er sé ég einkunn lága
og skríð um vorið heimskur eins og tröll
Þá vil ég minnast bókarkornsins bláa
sem bar mig oft í svefnsins draumahöll.
Skræða sú er skrýtnum kostum búin
og skilja sumir ekkert henni í.
En fyrir aðra telst hún vera trúin
á tilveru sem lifnar við á ný.
Þar fornir tímar tala við manns hjarta
þó tyrfið málfar oft þar geti sést
Vitna má í viskumola bjarta
og vísdóm líkt og ferrum durum est.
Fyrstu beyg. fengum við að glósa
og fornöfn eitt af öðru stigu á stokk;
rosa, rosam, rosae, rosae, rosa
og hic, hanc, huius, huic, hoc.
Eitt er það sem breikkar sagnabrunninn
og birtist oss sem tákn frá himnum sent
að ojb. frá rótum sínum runninn
reynist vera pass. í deponent.
Ýmsar villur urðu til af slysni
einkum eftir gleðskap frá í gær.
En eitt er víst að kenningar í Kristni
komast hinum boðorðunum nær.
Mitt skap er nú sem sjórinn öldur ýfi
ég engist um og reyti burt mitt hár
því eintakið af latínunnar lífi
ég lét í skiptum fyrir viskítár.
Hvar sem bókin kann að vera núna
hún kveikja má í lesandanum von
Mín eftirsjá er að ég missti trúna
á þér, kæri Kristinn Ármannsson.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Fallega og hagmælt kveðið hjá þér. Blessuð sé minning Kristins Ármannsonar.
"Óttast þú hestana, þræll?" Ahh, minningar. :)
Er ekki latína annars enn skyldufag á málabrautum í MR?
Post a Comment