Monday, March 05, 2007

Yrkingar

Eftir miklar yfirlýsingar um tilvonandi feril minn sem leiguskáld ákvað ég að sitja ekki við orðin tóm og yrkja svolítið. Maður fær nú heimþrá stöku sinnum.


Kvæðið um Ísland

Þú afskekkta, hrímaða hrafntinnusker
með huldufólk, jökla og sanda
sem bregst engum vonum er frá þér ég fer
til fjarlægra Asíulanda.
Því lífið í Kína svo langt er þér frá
og léttvægt af alls konar völdum
og fólkið hér aldrei fær þig að sjá
á fallegum júníkvöldum.

Þín veðrátta mótar svo hæðir og hól
og huggun ég veit enga betri
en berfættur ganga í sumarsins sól
og skaflana ösla að vetri.
Með bakpoka frá þér í burtu ég skaust
að bíða ei lengur ég þori;
ég sakna þíns berjalyngs bláa um haust
og beljandi stórfljóta að vori.

Samt mæli ég það fyrir málstaðsins hönd
ég mikla ei fyrir mér vandann;
Að heimsækja framandi heima og lönd
er hollt fyrir þjóðernisandann.
Það ríki á jörðinni seint mun sjást
með skapandi menningu sína
sem magnar upp þvílíka ættjarðarást
og alþýðulýðveldið Kína.

5 comments:

Unknown said...

Með því flottara sem ég hef séð frá þér. Mjög vel ort.

Særún said...

Fallegt.is

Anonymous said...

Þetta er flott kvæði. Næsta verk hjá þér er að semja lag við kvæðið og sjá til þess að það verði ,,þjóðsöngur" Íslendinga sem búsettir eru í Kínverska lýðveldinu hverju sinni.

Kveðja,
Pabbi.

Anonymous said...

Töff :)

Einar Steinn said...

Þú ert hagmæltur, Kristján. Hlakka til að sjá fleira eftir þig.