Tuesday, May 22, 2007

Heimkoma, trúmál ofl.


Á vefsíðunni tru.is er að finna pistla eftir þjóðkirkjupresta um kristindóminn, bænir og fleira tengt kristinni trú. Þar er einnig undirsíða með spurningum og svörum þar sem lesendur geta sett inn fyrirspurn.


Ég var að lesa umræður um kærleiksboðskap í kristindómnum, rakst á þessa síðu og fann þörf til að setja inn spurningu þess efnis hvers vegna Guð eða trúarbrögð væru nauðsynleg forsenda kærleiksboðskaps. Skúli Sigurður Ólafsson verður til svars sem hljóðar svo:


Hvers vegna er Guð(eða trúarbrögð almennt) nauðsynlegur til að boða kærleik?


Skúli Sigurður Ólafsson svarar:

Við getum kallað það kærleika sem dregur okkur hvert að öðru og hvetur okkur til þess að auka velferð hvers annars. Slíkar langanir eru blessunarlega til staðar í öllum mönnum og birtast í margvíslegri mynd. Þó kærleikur sé órjúfanlegur þáttur kristinnar trúar fer því fjarri að kærleikann sé ekki að finna utan hennar vébanda.

Því leyfi ég mér að umorða spurninguna með þessum hætti: Hvers vegna er kærleikurinn mikilvægur í kristinni trú?

Svarið við þeirri spurningu er á þá leið að Guð, eins og hann birtist okkur í Jesú Kristi, leggur okkur til það vegarnesti að æðsti tilgangur lífsins sé að elska Guð og náungann. Tvöfalda kærleiksboðorðið orðar þetta svo: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matt. 22.37-39)

Kærleikurinn birtir trú okkar og í Kristi fáum við fyrirmyndina að hinni skilyrðislausu ást sem að ofan er lýst.

Með kveðju,
Skúli


Það er strax áhugavert við orð Skúla að hann viðurkennir að kærleikann sé að finna víðar en innan vébanda kirkjunnar. Ætli hann viðurkenni það líka með öll trúarbrögð eða er kærleikurinn í kristinni kirkju á einhvern hátt öðruvísi en sá kærleikur sem múhameðstrú boðar? Ég vona bara að það sé hið fyrrnefnda þó margt kristið fólk vilji halda öðru fram.


Síðan tekur hann sér það risastóra bessaleyfi að umorða spurninguna í það hvers vegna kærleikurinn sé mikilvægur í kristinni trú. En ég var ekkert að spyrja um það! Seinni hluti þess svarar engu því sem ég vildi fá að vita. Mér er alveg sama þótt kærleikurinn sé mikilvægur í trúnni, ég vil að prestar þjóðkirkjunnar svari því hvers vegna trúin þurfi að fylgja með. Skúli segir að æðsti tilgangur lífsins sé að elska Guð og náungann. En hvers vegna þarf ég líka að elska Guð? Er ekki nóg að elska bara náungann? Er ekki eitthvað keimlíkt með þessu ef trúfélög væru í óða önn að predika mikilvægi þess að bursta tennurnar, eða nota bílbelti ef það stæði í Biblíunni?


Margar trúarumræður leiðast einmitt út í þetta málefni þar sem mér finnst kristallast helsta ástæða þess að trúarbrögð séu óþörf. Eitt stærsta haldreipi trúfélaga er að þau séu góð fyrir samfélagið vegna boðskapar síns. En þurfa yfirnáttúrulegar verur endilega að vera með í spilinu? Mig langar, nei, ég krefst þess að forsvarsmenn trúarbragða gefi mér greinargóð svör á spurningu minni sem Skúli Sigurður Ólafsson veigraði sér svona rækilega að gera.
Og já, ég er kominn til Íslands. Það er feitt.

14 comments:

Unknown said...

Þú hefur greinilega verið aðeins of lengi í Kína...

Annars myndi ég segja að mikilvægi Guðs til að boða kærleik hafi verið meiri fyrr á öldum áður en að húmanisminn ruddi sé rúms. Fólk þarf kannski bara e-n punkt til að miða siðferði sitt við. Fyrir suma er Guð þessi punktur en aðra er það maðurinn og velferð hans.

Það er hins vegar annað vandamál að Guð hefur því miður ekki alltaf verið notaður til að boða kærleik heldur hið öfuga. Það er slæmt.

Kristján Hrannar said...

Það er rétt Bjössi, Guð hefur verið notaður til að boða fólskuverk jafnt sem góðverk.

Okkur hefur sem betur fer farið áfram í siðfræðinni, og reyndar erum við komin heldur langt frá ýmsu því sem Lúther hamraði á í sínum ritum þegar hann var að þróa þá kirkjudeild sem er á Íslandi enn í dag, t.d. að góðverk sem væru ekki unnin í nafni Guðs væru einskis verð, konan væri óæðri karlmanninum o.s.frv. En flestir eru börn síns tíma.

En ef við lítum á þetta fólk sem þarf Guð til að miða siðferði sitt við, getur það ekki verið tvíeggjað sverð? Það fólk er ekki með fullmótaðar siðferðiskoðanir og notar Biblíuna sem leiðarvísi getur fundið ýmislegt fáránlegt og jafnvel hættulegt ef það túlkar það á réttan hátt. Þá finnst mér betra að sleppa því alveg.

Anonymous said...

Hvort Kristján hafi verið of lengi í Kína eða hvort Björn Reynir ætti bara ekki að skella sér þangað er varla sputning.
Það er einmitt í menningunni eystra sem vestrænt fólk lærir að vera fólk.
Þetta þekkja þeir sem reynt hafa. Ég er nærri viss um að ekki er til betri skóli fyrir okkar unga fólk en að fara til Kína eitt misseri eða svo (það er bara hætta á að fólk ílengist þar).

Með kveðju frá Kína, G.B.

Unknown said...

Jæja, einn að taka þessu létta gríni mínu aðeins of alvarlega. Þetta var nú bara smá skot þar sem Kristján er nú orðinn svo gagnrýninn á kristna trú og stjórnvöld í Kína hafna trúarbrögðum. Ég efast ekki um gildi þess að ferðast þvert yfir hnöttin til að víkka sjóndeildahringin.

En Kristján, það er reyndar alveg rétt að fólk getur túlkað biblíuna á mismunandi hátt til góðs eða ills. Sumir eru bókstafshyggjumenn og telja sig knúinn til að fara eftir hverjum einasta lagabókstaf og getur því fundið ýmislegt slæmt. Aðrir einblína þó á kjarna siðaboðskapsins í guðspjöllunum sem segir að allir skulu elska Guð sinn og náungan. Biblían er full af mótsögnum, enda 66 bækur í raun, þess vegna tel ég best að miða boðskap fyrir kristna menn út frá Jesú enda er hann miðpunktur trúarinnar.

Kristján Hrannar said...

Það er vissulega margt gott og rétt í því sem Jesús boðar. Mínar hugrenningar tengdust aðallega því hvers vegna þyrfti einmitt Jesús til að breiða það út. Alls staðar í samfélaginu sjáum við félög og stofnanir(t.d. Barnaverndarstofa, Héraðsdómur, Lions-klúbburinn o.s.frv.) sem miða að því að bæta samfélagið og auka réttlæti í þjóðfélaginu og geta samsvarað sig að mörgu leyti í því sem Jesús boðar hvað varðar náungakærleik. En þau vinna á engan hátt í nafni hans eða trúar yfir höfuð.

Hvað segir það okkur um nauðsyn þess að vinna góðverk í nafni trúar? Samkvæmt minni lífsskoðun á fólk að gera góðverk út frá sinni eigin kærleiksþörf, ekki af því að Jesús segir það. (Maður sem hefur aldrei kynnst trúarbrögðum vinnur samt góðverk, gleymum því ekki!)

Það hljómar eins og einhver skipun að ofan og ég kann afskaplega illa við það.

Anonymous said...

Fyrirgefðu Björn Reynir hafi ég stuðað þig.
Í Kína lærir fólk (vestrænt fólk) að sjá munin á öfgahyggju og öðru. Hér eru svo miklir öfgar frá A til Z að fáir trúa því.
Getur bara ekki gengið nema hér.
Annað sem vert er að skoða er tíðni glæpa pr. persónu. Þar er Kína í einu af neðstu sætunum.
Já þökk sé guði segir þú kannski, en ég tek ekki undir það.
Hvernig stendur á því að maður er öruggari að labba í gegnum Beijing að næturlagi en Reykjavík?
Kannski refsing guðs?

Unknown said...

Ég get verið sammála um það góðverk þurfi ekki að vera í nafni trúar, en á hin bóginn spillir ekki fyrir að trúin boði kærleik. Kannski er mikilvægi Guðs í þessu samhengi fólgið í því að boða kærleik til fólksins sem leitar svara til hans og því er gott að hann boði kærleik en ekki e-ð slæmt. Það sem ég segi í raun er það verður alltaf fólk sem leitar til Guðs, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Mikilvægi hans felst í því að ná til þeirra og veita því góðan innblástur. Ég vona að þú skiljir hvert ég fer með mál mitt.

En ég er þó sammála þér um að grundvallartilgangur kærleikans sem slíks er að auka velferð allra manna, óháð því hver boðar hann.

Anonymous said...

Þetta er líka spurning til Kidda (Kristjáns)sem ég tel hæfari öðrum hér til að svara.

Anonymous said...

Bara að skoða þetta.:

"En ég er þó sammála þér um að grundvallartilgangur kærleikans sem slíks er að auka velferð allra manna, óháð því hver boðar hann."
Hvaða tilgang ertu að tala um? Hér er fólk sem þekkir ekki þennan grundvallartilgang en hefur það samt bara gott.

Kærleikur er ekkert bundin einni trú frekar en annarri. Ég hef ferðast víða (reyndar alltog víða segja sumir). Kristnir menn drepa ekkert síður en annarra trúar fólk.
Annars aftur að málefninu:
Hvers vegna er Guð (eða trúarbrögð almennt) nauðsynlegur til að boða kærleik?

Skúli Sigurður Ólafsson svarar:
"Við getum kallað það kærleika sem dregur okkur hvert að öðru og hvetur okkur til þess að auka velferð hvers annars. Slíkar langanir eru blessunarlega til staðar í öllum mönnum og birtast í margvíslegri mynd. Þó kærleikur sé órjúfanlegur þáttur kristinnar trúar fer því fjarri að kærleikann sé ekki að finna utan hennar vébanda.

Því leyfi ég mér að umorða spurninguna með þessum hætti: Hvers vegna er kærleikurinn mikilvægur í kristinni trú?
Svarið við þeirri spurningu er á þá leið að Guð, eins og hann ....."

Hér brestur almættinu skilningur á þörf mannsins eins og gerðist í Eden forðum. Við getum náttúrlega ekki ætlast til þess að þjóðkirkjan hafi úr svo mörgum og alvitrum pennum að skrifa þannig að við verðum að sýna lítillæti og fyrirgefa henni fyrir það sem þjónn hennar skrifaði (kannski var hann ekki vel upplagður;-))

Kristján Hrannar said...

Ég vil ítreka það að hér skal skrifa undir nafni.

Hvað varðar öfgar hér á Íslandi miðað við í Kína finnst mér það tal nokkuð hæpið. Hvaða gríðarlegu öfgar hér á Íslandi ertu að tala um? Bílaeign, eða kókdrykkju? (Og ég er ekkert viss um að það sé öruggara að ganga um stræti Beijing að nóttu til, a.m.k. ekki í sumum hverfum.)


Hvað um það, við erum hér að ræða um trúmál. Bjössi talar um að það spilli ekki fyrir að trúin boði kærleik. Sá kostur er hins vegar hverfandi þegar við lítum á öll þau vonskuverk sem gerð eru í nafni trúar. Hún er tvíeggja sverð sem leiðir bæði gott og vont af sér, sverð sem við þurfum ekki á að halda.

Ef Lionsklúbburinn hefði eitthvert Lions-rit sem væri lesið um allan heim þar sem einhver Lions-guð er boðaður og bæði góðverk og illverk eru framin í nafni hreyfingarinnar væri ég alfarið á móti henni. Það er svo oft sem trú brýtur í bága við gagnrýna hugsun á lífið, hvað sé gott og vont(ef gott og vont er þá yfirhöfuð til) og þar fram eftir götunum. Hvers vegna mun alltaf verða til fólk sem leitar til Guðs? Ég leyfi mér að draga það stórlega í efa(ef við hugsum kannski aðeins lengra inn í framtíðina).


Fólk sem hefur aldrei kynnst trúarbrögðum mun aldrei leita til nokkurs Guðs þegar erfiðleikar bjáta á. Því myndi einfaldlega ekki detta það í hug. Trúarbrögð eru sköpuð af manninum sem hjálparleið við að finna sér tilgang í lífinu, nokkuð sem er algerlega óþarft í nútímanum.

Anonymous said...

Fyrirgefðu Kristján, þú bauðst upp á þetta og því er ég hér.
Ég er í Beijing og hitin fót víst í 36°C í dag (spáði 38°).
Taktu þennan möguleika út og ég er horfin. Svo einfalt er það.

Kristján Hrannar said...

Nei nei, bara að setja nafnið þitt neðst í kommentið eða eitthvað. Skiptir ekki máli.

Anonymous said...

Heill og sæll Kristján!

Mig langar aðeins til að varpa fram hugleiðingum mínum um þetta mál hér á síðunni þinni frekar en nokkurs staðar annars staðar:

Fyrst myndi ég vilja taka spurninguna þína til umræðu sem ég verð að segja að sr. Skúli tók ágætlega á. Spurningin þín felur í sér þá fyrirframgefnu staðreynd að Guð sé nauðsynlegur við boðun kærleikans. Skúli opnar umræðuna upp á gátt með því að segja að kærleikann sé að finna utan trúarbragðanna og þannig hefur hann varpað boltanum aftur yfir – ef kærleikann er að finna utan trúarbragðanna – þá eru þau líklega ekki nauðsynleg til boðunar hans.

Þá er ég dálítið hissa á því að þú sért hissa á…því að kærleiksþjónusta hinna trúuðu taki mið af því sem líklega mótar líf þeirra hve mest. Þ.e. trúin á Guð. Við hljótum að bera virðingu fyrir lífsskoðunum fólks svo framarlega sem þær valda ekki öðrum skaða. Eða er það ekki? Ég held því fram að kærleikurinn sé það sem eigi að ríkja milli manna hér á jörð og í því erum við vitaskuld sammála. Það á ekki að þurfa að draga á milli okkar þó að ég fari að tala um Guð. Kærleiksverkið er ekkert minna virði þó ég biðji fyrir náunga mínum. Þér finnst það óþarfi - en sem kristnum manni þykir mér það skylda. Eftir allt saman er það kannski ekki svo undarlegt að þú hafir ekki fengið svar sem þér líkaði á tru.is. Þeir sem svara spurningum þar ganga ekki út frá Guði sem yfirnáttúru, hindurvitni eða hugmyndafræðilegum leifum hinnar gráu forneskju. Fyrir þeim er Guð lifandi og starfandi – í þeirra lífi, hér og nú.

Líka verð ég að mótmæla því sem þú sagðir í kommenti hér að ofan um það að fólk gerði góðverk bara út af því að Jesús segði því að gera það. Í þessu greinir einmitt á milli kaþólskra og lútherskra í afstöðu til góðu verkanna - þú ert að gagnrýna hina kaþólsku afstöðu. Kaþólskir halda því fram að verkin séu forsenda hjálpræðis en við lútherskir teljum að trú á Jesú Krist Drottin vorn sé forsenda hjálpræðis. Hjá Lúther koma verkin annars staðar inn í myndina - eftir á. Lúther er nefnilega ekki svo slæmur ef menn hætta að einblína á klisjur sem svo lengi hafa verið notaðar gegn honum. (Ekki skilja mig svo að Lúther sé hafinn yfir gagnrýni, margt af því sem hann hefur sagt er úrelt og afkvæmi hans tíðaranda en guðfræðin hans er sígild - bara að menn myndu nenna að lesa hana áður en þeir afskrifuðu hana!)

Þessi "yfirnáttúrulega vera" sem fylgir með kærleiksverki hins trúaða er Guð. Guð skiptir hinn trúaða líklega óendanlega miklu máli (sbr. the ultimate concern) Ef menn fyrir það fyrsta viðurkenna að til sé fólk sem í raun og sann trúir á Guð og að þetta fólk sé kannski einlægt í þeirri trú, þá ættu menn ekki að vera svo hissa að þetta fólk fylgi tvöfalda kærleiksboðorðinu. Að elska Guð og náungann. Hvað er svona slæmt við það?

Umræðuna um skaðsemi trúarbragðanna myndi ég svo sannarlega vilja taka hér á þessari síðu við fyrsta tækifæri – jafnvel á morgun. Nú er þetta bara orðið svo helvíti langt.

Í allri vinsemd,

Halli

Kristján Hrannar said...

Sæll Halli og takk fyrir svarið.

Ég viðurkenni að spurningin var kannski asnalega orðuð. Lofum því mér að umorða hana í þetta skiptið, þó umræðan hafi (sem betur fer) beinst á þá svarbraut:

Er Guð óþarfi í kærleiksboðun?
Ef ekki, hvers vegna?

Hér hef ég áður nefnt dæmi um samtök sem vinna samkvæmt orði Jesú um að hjálpa náunganum, en gera það alveg ótengt honum. Þegar við berum þau saman við kristileg hjálparsamtök sjáum við að munurinn á þeim er (fyrir utan að setja hluta af fjármagni sínu í kristniboðun, a.m.k. hjá flestum) að þau gera það í nafni kristninnar. Og mér finnst það alltaf jafn skrýtið þegar ég velti því fyrir mér af hvaða ástæðum þær hefja störf. Hvort var það meira út af eigin þörf til að gera heiminn betri eða af því Jesú boðaði það? Kannski jafnt?

Ég sé enga praktíska hlið á því að hjálparstörfin starfi í þágu trúarinnar, það gerir þau á engan hátt öðruvísi en hin nema vegna þess að þau boða ást á einhvern Guð sem þeir sem njóta hjálparinnar hafa í mörgum tilvikum aldrei heyrt um. Hvers vegna þarf að flækja málin með því að setja Guð inn í þetta? Ég á afskaplega erfitt með að sjá það.


"Það á ekki að þurfa að draga á milli okkar þó að ég fari að tala um Guð."

Nei, en ég er að gagnrýna það þegar eitthvað óþarfi er dregið inn í verkin. Hvernig væri ef Guð væri alltaf með í umræðunni um að borða hollan mat? Fólk og prestar væru alltaf að tala um mikilvægi tannhirðu í nafni Guðs, minnst væri reglulega á það í stólræðum presta o.s.frv. Kirkjan er jú alveg að gera gott með þessu, en hún er alveg óþarfi í umræðu um tannhirðu.

Síðan minnistu á að það eigi að virða skoðanir ef þær skaða engan annan. Ég er því ósammála. Ég þarf ekki að bera neina virðingu fyrir skoðun sem stangast á við það sem ég held. (Að sjálfsögðu ber ég virðingu fyrir þeim sem hafa þær skoðanir, en hugmyndirnar sjálfar eru ótengdar.) Það er hins vegar annað mál.

"Að elska Guð og náungann. Hvað er svona slæmt við það?"

Það sem er slæmt við það er fyrirkomulagið á því hvað fólki "ber" að elska. Það er gallað kerfi að þurfa að hugsa alltaf að hugsa vel um tennurnar sínar OG Guð, hið sama gildir um náungann.
Við gætum breytt þessu í þrefalda kærleiksboðorðið. Að elska náungann, Guð og Hemma Gunn. Hvað er svona slæmt við það?