Monday, July 16, 2007

Nei já, nema auðvitað samkynhneigða

"Trúarbrögðin eiga að sameina en ekki sundra," segir séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur í frétt Fréttablaðsins í dag um brúðkaup milli ásatrúarmanns og kristinnar konu þar sem hann ásamt Hilmari Erni rugluðu saman reytum þeirra. "Mér fannst það ekkert annað en sjálfsagt og bauð þá velkomna í ræðunni minni enda var þetta skýrt dæmi um að heimurinn á að vera opinn og veggjalaus."

Nú er það sjálfsagt hið besta mál að prestar þjóðkirkjunnar taki öðrum trúarbrögðum með opnum örmum hvað mannskilning og umburðarlyndi varðar. En það er engu að síður gagnrýnivert þegar kirkjan er ekki samkvæm sjálfri sér. Ekki ætla ég að hengja mig í einhver guðfræðileg smáatriði en þetta hlýtur að vera brot á fyrsta boðorðinu sem var troðið í óflekkaðan hausinn á manni í grunnskóla; Ég er Drottinn, Guð þinn, þú skalt ekki aðra Guði hafa! Enn fremur er óhlýðni mannsins við Guð rauður þráður í gegnum þann vafasama leiðarvísi, þar sem hann fitlar við önnur trúarbrögð, gerir sér gullkálf og ýmislegt fleira við vægast sagt lítinn fögnuð himnaföðursins.

Þetta hljómar að sjálfsögðu eins og eitthvert svartagallsraus í mér. En málið horfir nokkuð öðruvísi við þegar við berum þetta saman við afstöðu kirkjunnar í hjónavígslum samkynhneigðra. Allt í einu er í lagi að gefa saman par með klerki úr öðrum trúarsið þótt það stangist á við fyrsta boðorðið ásamt ýmsum öðrum ákvæðum Biblíunnar, en það er enn þá bannað að gefa saman einstaklinga af sama kyni þó að allir eigi að vera jafnir fyrir Guði? Eiga trúarbrögðin þá ekki að sameina eins og Hjálmar sagði? Samkynhneigðir eiga börn, sofa hjá maka sínum, fara saman til útlanda og lifa lífi sínu alveg eins og venjulegt fólk. Aðeins kynhneigð þeirra útilokar það frá hjónabandinu. Ef þjóðkirkjan er svona upptekin af því að mismuna fólki, af hverju þá ekki að taka allan pakkann? Þarf að sleppa að grænsápuþvo bara hommaversin í Biblíunni? Við vitum vel að hjónaband á að vera sáttmáli karls og konu skv. þjóðkirkjuprestum af því það stendur í Biblíunni. Við vitum þó líka að hórkonur eiga að vera grýttar af sömu ástæðu.


En þetta er þó ekki aðalvandinn í þessu öllu saman. Ef kirkjan vill halda áfram að tilbiðja krossfesta költleiðtoga, éta oblátur og banna fólki að giftast ef það hefur áhuga á sama kyni má hún það sosum alveg. En um leið hefur hún fyrirgert rétti sínum til að heita Þjóðkirkja og fá árlega milljarða ef hún getur ekki þjónað þeim öllum. Það hlýtur hver maður að sjá.

5 comments:

Anonymous said...

Þetta minnir mig á þetta:
http://i.somethingawful.com/u/elpintogrande/april07/letter10.gif

Anonymous said...

Heyr Heyr. Af hverju viðgengst svona rökleysa. Við látum vaða of mikið yfir okkur t.d. er ekkert að gerast í kvótakerfismálum. Neytendasamtökin ættu að senda hóp að Íslendingum til Frakklands á mótmælendanámskeið

Ómar said...

Fáránlega góður punktur, gamli :)

Anonymous said...

Farðu með þetta í Moggann.

Einar Steinn said...

Tek undir með Eddu.