Friday, August 10, 2007

Þórbergur Þórðarson

"Þér svöruðuð, að ófarsæld og ytri eymd væru hjálparmeðul til andlegs þroska. Slíkt hið sama kennir oss peningasiðfræði auðkýfinganna. En ég álít, að efnaleg eymd, ófarsæld og mentunarleysi séu oftast þröskuldur á vegi andlegs þroska. Og í nafni þessarar sömu skoðunar hafa mætustu menn mannkynsins á öllum öldum látlaust kostað kapps um að ryðja þessum tálmunum úr vegi. Öll mannleg menning er ávöxtur þeirrar ódrepandi viðleitni að sprengja í sundur víggirðingar andlegrar og efnalegrar eymdar. Aðeins trúaðir einfeldningar og auðugir hræsnarar hafa kent mannkyninu heimspeki eymdarinnar."



"Heimspeki eymdarinnar er svikaheimspeki. Til hafa að sönnu verið menn, er hafa getað beðið til guðs með tóman maga niðri í sorpinu, svo sem hinn heilagi Franz frá Assisi. En þeir eru hátíðlegar undantekningar. Allan þorra manna hefir ytri eymdin, örbirgðin, mentunarleysið og örvæntingin gert að óhreinum skepnum."


"Heimspeki hinnar mannbætandi ytri eymdar er söguleg fölsun. Vafalaust er yður sú staðreynd kunn, að meginþorri ágætismanna heimsins er hvorki upprunninn úr stétt öreiga né auðkýfinga. Þeir eru komnir úr miðstétt mannfélagsins. Þetta er staðreynd. Og allir guðspekingar bera virðingu fyrir staðreyndum. „Engin trúarbrögð eru sannleikanum æðri.“ Ef heimspeki hinnar mannbætandi ytri eymdar væri „sannleikur“, en ekki „trúarbrögð“, þá ættu úrvalsmenn mannkynsins að vera komnir úr stétt öreiga og volaðra. Þetta auðvirðilega eymdardekur, sem hefir jafnan verið öflugur þáttur í þrælasiðfræði kirkjunnar, er trúarsetning, fundin upp af auðugum hræsnurum, er hafa spekúlerað í eymd mannanna, og boðuð og viðhaldið af saklausum einfeldningum, sem ekki vita, hvað þeir eru að gera og þjónum auðmannanna, prestum og prelátum, er vinna fyrir sér með vísvitandi trúarbragðafölsun."

No comments: