Friday, August 31, 2007

Kominn aftur til Kína


Klukkan er að verða hálfellefu og ég sit á þvældum bakpoka á lestargangi á leiðinni til Nanjing. Í gær komst ég loksins til höfuðborgarinnar og náði einum af síðustu miðunum daginn eftir. Það eru eiginlega fjögur farrými á lestum í Kína; fyrsta farrými samanstendur af mjúkum rúmum í lokuðum lestarklefa – síðan eru það hörðu beddarnir í opnum rýmum sem minna frekar á skjalaskápa en vistarverur fyrir fólk. Þar næst eru sæti, nokkuð sem er sosum ásættanlegt því lestarferðir í Kína taka oft átta tíma og jafnvel lengur – og að lokum er hægt að kaupa sér fyrir spottprís pláss á ganginum þar sem maður getur hímt með öðru fólki sem hafði ekki efni á betra farrými. Ég var nógu vitlaus að kinka kolli þegar konan í sölubásnum sagði mér að hörðu beddarnir væru fullir og hér er ég því niðurkominn.


Á miðanum mínum stendur að ég eigi að vera í vagni fjórtán og síðan fyrir aftan eru tvö tákn – tian og zuo. Ég þekki þau bæði – tian þýðir himinn og zuo er sæti, en því miður þýddi það ekkert himnasæti heldur þvert á móti. Það er svo þröngt hér að ég þarf eiginlega að kúra upp við miðaldra kínverska konu sem var nógu forsjál að velta ruslatunnunni á hliðina og sitja þar – á hinni hliðinni liggur þétt uppi við mig einn af kínversku farandverkamönnunum með allar eigur sínar í litlum strigapoka og reykir.


Ég þarf að standa upp í hvert skipti sem lestarvörðurinn ekur rjúkandi matarvagninum framhjá. Lestin kemst ekki til Nanjing fyrr en klukkan átta í fyrramálið – þetta verður svefnlítil nótt. Ég veit ekkert hvar ég mun gista þegar ég kemst á leiðarenda, og heldur ekki hvaða íbúð ég mun hafa í vetur, hvernig hún er, eða með hverjum ég mun leigja (leigji ég þá með einhverjum, þ.e.)



Uppfært: Húrra, önnur miðaldra konan sem sat á ruslatunnunni prílaði upp á vaskborðið og lúrir nú þar upp við spegilinn og hin kerlingin bauð mér sæti á hörðum málminum, sem er algjör lúxus miðað við kenginn sem ég var kominn í. Klukkan er nú að verða fjögur um nóttina og ég er enn glaðvakandi. Á móti mér er verkamaður sem er lamaður öðrum megin og rýkur við og við upp með andfælum og öskrar eitthvað yfir vagninn (nei, þetta er heldur ekki grín).


Uppfært 2: Ég náði um hálftíma blundi og sit nú á hótelherbergi í Nanjing – hugsa sér, það er meira að segja nettenging! Ég verð að skella einhverju inn áður en ég fer að sofa, klukkan er að verða tólf á hádegi. Kínversk stjórnvöld hafa aftur lokað fyrir blogspot, en ekki blogger síðuna þar sem ég skrifa færslurnar, svo ég get sett nýtt efni inn á síðuna en ekki skoðað það. Það er því leitt að heyra hve mörg komment eru komin á miðlafærsluna sem ég á eftir að svara – en vonandi kemur það allt í tæka tíð.


Tregafullar kveðjur til frónsins


Kristján

2 comments:

Anonymous said...

Skemmtileg færsla
Gott að þú ert kominn á áfangastað
Kveðja,
Pabbi

Anonymous said...

Þú ert náttúrulega alltaf sama nánösin og tímir ekki að kaupa þér almennilegt far. Gaman samt að heyra frá þér og vita að þú sért kominn til Nanjing en það verður einhvern veginn hálf tilgangslaust að koma með athugasemdir á síðuna þegar þú getur ekki lesið þær.

Skilaðu kveðju frá mér (þegar þú sérð þetta) til Mao formanns og þakkaðu honum fyrir síðast.