Monday, September 03, 2007

“Já, en þú veist hvað þessir Kínverjar geta tekið upp á,” sagði óstöðuga vinkona mín sem var nýhætt í starfi sem smokkaprófari fyrir austræna karlmenn

Já, það er aldrei að vita hvað þessir Kínverjar geta tekið upp á. Þessi orð eru skrifuð í bráðabrigðaíbúð sem ég er fluttur í og mun hafast að í henni þangað til ég flyt inn í nýja. Ég er ekki alveg viss um hvort Zhao á eftir að finna hana fyrir mig eða hvort beðið sé eftir því að gömlu íbúarnir flytji út. Hann er ekki sá sleipasti í enskunni og það er auðvelt að misskilja hann, blessaðan karlinn. Það er nefnilega aldrei að vita hvað hann tekur upp á.



Hann hefur samt verið ótrúlega hjálpsamur við mig og þrátt fyrir að ég sé alltaf að lyfta upp veskinu þegar það þarf að borga fyrir eitthvað, hvort sem það er matur, hótelgisting eða eitthvað annað ýtir hann því alltaf niður og heimtar að fá að borga sjálfur. Ég veit ekki hvaðan hann gróf upp þessa íbúð en til að vera alveg hreinskilinn er hún algjört hreysi, með brotnum gluggum sem vísa út að pínulítilli götu þar sem föt hanga til þerris milli húsa. Til allrar hamingju er þó loftkæling en því miður enginn spegill þannig að í morgun var erfiðara að raka sig en venjulega.



Fasteignamarkaðurinn hér er jafn furðulegur og heima. Leiguverðið er 1.000 RMB á mánuði, heilar níu þúsund krónur. Það er lítið, eiginlega skuggalega lítið. Skiljanlegt að ég bíði með nokkurri eftirvæntingu að sjá nýju íbúðina. Verðlag á hlutum er nefnilega svo skrýtið á mörgum hlutum, raksköfublöð kosta jafn mikið ef ekki meira og á Íslandi, sem og farsímar, eldspýtur o.s.frv., en svo sér maður verðið á ýmsu öðru sem fær mann til að reka upp stór augu. Ég hef t.d. litlar áhyggjur af því hvort loftkæling fylgi með nýju íbúðinni eða ekki, það er ábyggilega ódýrara að leigja sér Kínverja með blævæng í staðinn.



Kínversk stjórnvöld hafa aftur lokað fyrir blogspot síður þannig að ég get ekki séð þessa hér nema gegnum erlenda mirrora, og þá get ég ekki skoðað athugasemdirnar. Ég þyrfti nefnilega að svara einu og öðru í umræðunum sem sköpuðust um miðlafærsluna, fékk nokkur af þeim kommentum gegnum msn og bíð í eftirvæntingu með að geta skrifað svör. Kannski ég geri bara aðra og ítarlegri færslu um þessa peningaplokkara, oft var þörf en nú er nauðsyn. Síðan langar mig í kjölfarið að skrifa svipaðar gagnrýnisgreinar á aðra kukl-starfsemi, s.s. heilara, tarot-spákerlingar, stjörnuspeki (þó þess þurfi nú varla), hómópata, blómadropalækningar...listinn er nær endalaus. Mér finnst alltaf jafn skrýtið hvers vegna svona starfsemi nær að grassera í upplýstu 21.-aldar þjóðfélagi.



Uppfært:



Ég hef heldur betur fengið á hreint núna hvernig íbúðamálin standa. Ég verð víst í greninu um óákveðinn tíma. Á meðan ég hírist þar hyggst ég taka upp nafnið Grendill, og ég er viss um að samnefnd forynja úr Bjólfs-sögu hefur mátt búa á svipuðum stað.



Áðan tókum við Zhao fyrstu subway-línuna í Nanjing út á Ólympíuleikvang þeirrar borgar, sem er síðasta stoppistöðin. Þar spurði hann tvo eða þrjá á lestarstöðinni hvar ákveðin gata væri (sem hin meinta íbúð stæði við) og svo borgaði hann einhverjum Kínverja 20 kuai fyrir að aka okkur þangað. Við fórum í heljarlangan bíltúr um þetta nýja og annars huggulega blokkarhverfi, hring eftir hring því hvorugur vissi hvar gatan var. Þeir byrjuðu síðan að hækka róminn í samræðum sínum og voru farnir að hnakkrífast undir lokin. Bílstjórinn leit minna og minna af veginum og meira og meira á Zhao í rifrildinu og ég, í beltislausu aftursætinu, var ekki farið að lítast á blikuna. Loks hættu báðir og Zhao sagði “this apartment too far away, we go home and find new.”



Þannig lauk þeim bíltúr. Við tók unaðsleg máltíð á einhverjum veitingastað og hér er ég aftur kominn, án sjónvarps, útvarps, síma eða nokkurs annars sambands við umheiminn.



Grendill kveður í bili.

No comments: