Fullur harmi finnst mér rétt að setja
fáeinar línur þér til minningar.
Særð til bana fallið hefur hetja
sem hávært syrgja moggabloggarar.
Í fyrstu hóf hún sína raust upp roggin
og ritaði á stafrænt kálfaskinn
af sannleiksþrá (því sjaldan lýgur Mogginn
og síst af öllu almannarómurinn.)
Með tímanum það vakti feikna furðu
hve fagurt stílform okkur birtist þar.
Sögur þessar ódauðlegar urðu
undir styrkri leiðslu Ellýar.
En hversu sem hún kann að vera fögur
þín kæra dagbók, full af orðagnótt
þá sjá menn í henni klúrar kynlífssögur
af kvenmönnum með dulda brókarsótt.
Já, öfundin er illgjörn vél á hjólum
sem orðspor manna í rústir leggur enn;
Í internetsins ystu skálkaskjólum
skulu ætíð þrífast vondir menn.
Í hljóði bið ég sjálfan Guð að senda
þeim samúð, fyrir náð og miskunn hans
svo þessar sögur þyrftu ekki að enda
undir bláum öldum ljósvakans.
En veslings Ellý, hvað ætli varð um hana?
Ættum við að fella nokkuð tár?
Nei, sko, hún hefur skipt í gamlan vana
og skrifar núna í Moggann stjörnuspár.
1 comment:
haha, mjög skemmtileg og alþýðleg vísa;)
Post a Comment