Veturinn 2006-7 var ég ásamt tveimur vinum mínum og meðleigjendum nemandi í Menningar- og tungumálaháskóla Beijing, sem er oftast skammstafaður BLCU (Beijing language and culture University).
Það voru mín fyrstu kynni af háskóla, þótt þau væru nokkuð óhefðbundin, hér var maður staddur ásamt tíu þúsund öðrum útlendingum hvaðanæva að í ca. 17 milljóna stórborg, allar stærðir voru af öðrum skala en ég átti að venjast heima á Íslandi hvað t.d. verðlag og fólksfjölda varðar - ekki síst skólasvæðinu sem var gígantískt fyrir mér fyrstu vikurnar. Það einkenndist þó af einhverri akademískri ró; nóg af litlum steintorgum eða rjóðrum með sætum sem nemendur sátu við og lásu í haustblíðunni, hálf-sovéskar heimavistarblokkir með kínversku yfirbragði þar sem nemendur höfðust við í meinlætalegum íbúðum, litlar tjarnir með gosbrunni og steinbrú yfir og krúttlegri sjoppu þar sem maður gat keypt sér gos í frímínútunum.
Það var alltaf sól sem skein gegnum grenitrén inn á skólasvæðið og aldrei hin minnsta gola, og þarna lifði maður í mjög firrtu en þó róandi samræmi við tilbúna náttúru sem var sköpuð til að maður gæti fundið hvað mest næði til að lesa. Athugið að myndirnar úr skólanum eru allar teknar af mér, þegar minningin um skólasvæðið var ekki tengt öðru en ánægjulegum frímínútum og fallegu umhverfi.
Ég vissi náttúrulega um allar þær hörmungar sem höfðu gengið yfir þetta land allt frá elstu keisaraættum, en einhvern veginn spáði ég ekkert í það hvernig lífið hafði mögulega verið hjá nemendum um miðja síðustu öld. Þegar ég kom aftur heim til Íslands og fór að læra sagnfræði við Háskóla Íslands rakst ég á "rauðu bókina" svonefndu í kúrs um íslenska sósíalista.
Sú bók inniheldur skjöl, skýrslur og bréf frá meðlimum leynifélagsins SÍA (Sósíalistafélag Íslendinga Austantjalds) til Kommúnista-, og seinna Sósíalistaflokksins um kynni þeirra af kommúnisnanum í framkvæmd í hinum ýmsu löndum. Árið 1963 komst Heimdallur yfir þessi skjöl og sendi þau til Moggans sem hóf að birta þau smám saman en Einar Olgeirsson þáverandi formaður Sósíalistaflokksins varð æfur og vildi láta brenna öll gögnin.
Í bókinni eru m.a. bréf frá Skúla Magnússyni, ungum menntamanni af Vestfjörðum sem hreifst af kommúnismanum, fór til náms í Kína 1959 og lærði kínversku í sama skóla og ég. Hann átti í bréfaskiptum við annan skoðanabróður sinn, Hjalta Kristgeirsson sem var við nám í Búdapest og eru þar að rökræða um framkvæmd (eða "byssnessinn" eins og þeir orða það) kommúnismans. (Þessi Skúli var meira að segja líka í bréfaskiptum við Hjörleif Guttormsson!) Við skulum þó gefa Skúla orðið:
"Þú hefur enga hugmynd um , hvað ég á við, þegar ég nefndi "byssnessinn." Þú virðist halda, að þar sé um marxíska kenningarfræði að ræða. Það er alrangt, að minnsta kosti að því er undirstöðuna og aðalatriðin viðvíkur. "Byssnessinn" eru þær fjarstæður, sem flokkurinn heldur að fólki í ræðu og á prenti og allir verða viljugir nauðugir að syngja undir. Af slíku er nóg í Kína, um Ungverjaland veit ég ekki, en að óvörum kæmi mér það ekki. T.d. fólkið er frumkvöðull alls, allir eru fullir af áhuga og elska flokkinn út af lífinu, flokkurinn er óskeikull, hamingjan tekur risaskref upp á við meðan vinnubúðirnar fyllast af fólki, sem hefur verið svipt frelsi sínu..."
Hann heldur síðan áfram og fjallar um ástandið í skólanum og að næðið þar til náms sé orðið heldur knappt vegna ýmissa "anna":
"Þegar ég hafði dvalizt í nokkra mánuði í landi þessu upphófst mikill annatími. Hann far ekki falinn í þeim störfum, sem ég þekkti vestan af fjörðum: hrognkelsa- og silungsveiði, smölunum og réttum vor og haust, heyskap á sumrum né tóvinnu á vetrum. Hann var falinn í sjálfsmorðum. Sumir átu nagla, títuprjóna og glerbrot, aðrir stukku niður af þriðju og fjórðu hæð, enn aðrir köstuðu sér í vötn þau, sem hér eru í campusinum. Einn prófessor var t.d. dreginn upp úr vatninu og barinn af stúdentum sínum með þeirri yfirlýsingu, að hann hefði gjörla vitað, að vatnið væri of grunnt til að drekkja sér þar í og væri hann bara í þykjustuleik; og var téður prófessor hið snarasta sendur á geðveikrahæli (vinnubúðir). Einn stúdent kastaði sér niður af þriðju hæð og braut á sér báða fætur. "Framvarðalið verkalýðsins: Flokkurinn" (með stórum staf eins og Guð) rak niður tvo þölla á staðnum og negldi þar kassafjöl á með slíkri áletran: "Hvaða óhreina plan gegn fólkinu hafði téður stúdent í huga, þegar hann kastaði sér hér niður?"
Hér voru á ferðinni þeir menn, sem orðið höfðu við áskorun Maos í ræðu hans 27. febrúar 1957 um blómin og skólana, svo sem frægt er orðið, að segja hug sinn allan. Ég get sagt þér, að svo mikið er traust alþýðu manna til "framvarðaliðs" síns, að menn héldu sem fastast kjafti í að minnsta kosti tvær vikur... ...meðan flokkurinn lagði sem fastast að þeim að tala. Loks sprakk stíflan, en aðeins í tíu daga, þá var troðið upp í skarðið. Allir þeir, sem ég veit um, töluðu meira og minna ófúsir vegna hvatningarorða og loforða, og svo mun hafa verið um flesta. Flestir komu aðeins með blákaldar staðreyndir, nokkrir þó með "kennisetningar".
Það komust þeir lengst á villunnar braut að boða borgaralegt þingræði og tveggja flokka kerfi. Á þessum mönnum var síðan barið á þann hátt, að æstur var upp skríll, þeir settir í miðjuna í hring, sem skríllinn myndaði, (aðeins einn í hvert skipti að sjálfsögðu) og látnir hneigja höfuð, síðan öskrar skríllinn skammir og svívirðingar að þeim; og við útlendingar hér heyrðum óhljóðin, þegar við fórum í hressingargöngur á síðkvöldum. Þeir sem hættulegri þóttu fengu enga hvíld, hvorki á degi né nóttu. Það var gert á þann hátt, að sendur var hópur manna til að atyrða þá; þegar sá hópur hafði dvalið um stund var annar sendur og svo koll af kolli, dag og nótt, sólarhringum saman. Ein stúlka, örvilnuð af öllu saman, svipti sig öllum klæðum, svo að karlmennirnir kynnu ekki við að dvelja lengur, þá voru stúlkurnar bara sendar í staðinn. Síðar frétti ég, að stúlkuauminginn hefði sturlazt."
Skúli gerðist afhuga kommúnismanum þegar hann kom heim og þeim "byssness" sem honum fylgdi. Fyrir venjulegan nemanda eins og mig hefði það verið erfiður "byssness" að þurfa að upplifa eftirfarandi:
"Hverju mannsbarni hlýtur að vera ljóst, að allir eru alltaf að njósna um alla. Margir stúdentar eiga engan trúnaðarvin meðal skólafélaga sinna; þeir lifa ekki normölu andlegu lífi. Börn fara hér á skrifstofur "framvarðasveitar verkalýðsins" og gefa reglulegar skýrslur um foreldra sína. Kona og maður og börn þeirra njósna hvort um annað; eðlilegt mannlegt samband milli fólks er rofið, en í stað þess liggja allir þræðir um lófa "Flokksins".
Ég fæ ekki betur séð en, að Kommúnistaflokkur Kína sé með verstu úrhrökum, sem veraldarsagan greinir. Eignist kínverskur stúdent okkur að vinum og ef upp kemst, eru þeir oftast nær skammaðir og bannað að hafa við okkur samneyti. Fellum við ást á stúlkum, hverfa þær sporlaust.
Þetta, sem ég hef nú verið að skrifa, kalla ég m.a. "byssnessinn", sem beri að sjá í gegnum. Fólk sem ég hefi haft iðulegt samneyti við, hefur nokkrum sinnum horfið, auk þess veit ég þess dæmi (um þá, sem ég hefi ekki þekkt persónulega) í tugatali. Ég veit, að slóð þessa fólks liggur í öllum tilfellum um skrifstofur öryggislögreglunnar.
Ég hefi komið inn á heimili nokkurra alþýðukvenna með yngsta barnið á nöktu brjóstinu og skara hinna stærri í kring og eigandi föðurinn og fyrirvinnuna í nauðungarvinnu. "Flokkurinn" þurfti á vinnuafli hans að halda til að geta dregið brattara strik í línuriti á blöðum tímarita, gefnum út á erlendum málum og á glanspappír og með myndir af hlæjandi eða brosandi Kínverjum, í þeim tilgangi að villa útlendingum sýnar á hinu raunverulega kínverska þjóðfélagi. Þetta dirfist ég enn að kalla "byssnessinn".
Það hefði verið skrýtið, næstum því ógeðfellt fyrir mig að ganga um götur heimavistarinnar í BLCU vitandi allt þetta. Að sjálfsögðu var okkur haldið öllu þessu leyndu fyrir okkur og í annálum skólans helst minnst á það að hann hefði samræmt hið svokallaða pinyin kerfi, latnesk hljóðritun fyrir kínversku, á alþjóðavísu. Ósköp held ég að fáir vinir mínir sem lifðu og sváfu á heimavistinni hafi vitað hvað raunverulega gerðist þarna fjörutíu og sex árum fyrr.
Oft þegar ég sá gamalt fólk úti á götu velti ég því fyrir mér hvernig það forvitnilega og frumstæða Kína sem það ólst upp í hefði verið. En þegar ég sá þrítugt, fertugt og fimmtugt fólk velti ég fyrir mér hvaða ólýsanlegu hörmungar það hefði upplifað í hundrað blóma átakinu og menningarbyltingunni. Það er ótrúlega stutt síðan og fyrir okkur Íslendingum var kommúnisminn í Kína raunveruleg og viðurkennd stjórnmálastefna. Það er auðvelt að kyngja þeim mistökum í dag en fyrir Skúla Magnússon árið 1959 hefur það verið öllu erfiðara.
Wednesday, January 30, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
12 comments:
Magnað... Alveg ótrúlegt.
Áttu meira svona í sarpinum, Ugluspegill?
bloggaðu kiddi heiti!
Ótengt umræðuefninu, en þú bætir kannski I Rainbows við skoðanakönnunina?
Gleðilega páska.
Hello. This post is likeable, and your blog is very interesting, congratulations :-). I will add in my blogroll =). If possible gives a last there on my blog, it is about the Flores Online, I hope you enjoy. The address is http://flores-on-line.blogspot.com. A hug.
Verulega gott blogg hér hjá þér. Ég horfði á heimildarmyndir um tíma Mao Tse Tung fyrir all nokkru og innihald þessa bréfs Skúla Magnússonar endurspeglar það sem þar var greint frá. Það verður bara því meira raunverulega þegar Íslendingur lýsir því. Hvílíkur harmleikur og brjálæði var ríkjandi þarna. Kúmmúnisminn misheppnaðist því þeir gleymdu sjálfræðinu. Jöfnuður er falleg hugsjón og mikilvæg en þvingun þegnanna í slíkum tilgangi vinnur á móti sjálfum tilgangnum.
Jæja, Ugluspegill. Hvenær hygstu á ný brynna almúganum á skemmtibrunni þínum?
Magnað að lesa þetta
Heya. If you need help with Hebrew, my MSNM is seto1@walla.co.il. I wanna start learning Icelandic myself. =3
Amiable dispatch and this post helped me alot in my college assignement. Thanks you as your information.
[url=http://www.playatonlinecasinos.com/]casino bonus[/url] [url=http://www.casinovisa.com/deposit-casinos/]online casino[/url] , [url=http://www.concordiaresearch.com/games/slots/index.html]casino bonus[/url] , [url=http://www.realcazinoz.com]blackjack[/url] , [url=http://www.avi.vg/category.php?a=sex4sexx&cid=25]dildos[/url]
Loose [url=http://www.COOLINVOICES.COM]make an invoice[/url] software, inventory software and billing software to beget masterly invoices in bat of an eye while tracking your customers.
top [url=http://www.001casino.com/]casino games[/url] coincide the latest [url=http://www.casinolasvegass.com/]casino las vegas[/url] free no deposit hand-out at the foremost [url=http://www.baywatchcasino.com/]casino games
[/url].
Post a Comment