Ég lá í dimmum draumförum
við drungann var að kljást
og hóf þá við að hugsa um
horfna bernskuást.
Í draumi leit ég laskað fley
sem lá þar upp við sand,
því sumir bátar endast ei,
og aðrir sigla í strand.
Þín ævi reyndist ekki löng
ung þú fórst frá mér
og röddin létt sem lögin söng
löngu hljóðnuð er.
Það finnast engin orð í bók
yfir mitt tregabál
er Dauðinn grimmi til sín tók
tuttugu vetra sál.
Blíðleg varstu við mig þar
í vorsins hlýja þey
Í draumnum ætíð dagur var
og dimman þekktist ei.
En feigðarboði fljótt kom þá
sem fölan gerði mig:
Heljar svartan hund ég sá
hátt hann gelti á þig.
Þá lyftist maran loksins af
með látum hrökk ég við
en úti regnið ýrði í kaf
og ekkert sólskinið.
Ég minnist þeirrar þjáningar
sem þetta jarðlíf er;
-á hafsins botni bylgjurnar
blíðlega vagga þér.
Wednesday, March 14, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
3 comments:
Fallegt og afbragðs kvæði. Þú ert hið efnilegasta skáld, ég hlakka til að sjá meira af þér.
Klapp fyrir kristjáni! :D
Glæsilegt hjá þér. Afar fallegt ljóð.
Post a Comment