Friday, March 30, 2007

Tvítugur

Ég vaknaði í morgun við vondan draum
og viðtökur enn óútskýrðar;
Því örlögin höfðu tekið í taum
minnar tindrandi æskudýrðar.

Ég teygði úr mér þegar loks tími til vannst
og tók svo upp afmælispakkann
En stírurnar nuddandi stöðugt mér fannst
ég standa við grafarbakkann.

Minn (fyrrum!) Adónislíkami flengingu fær
af fótunum sést ekki mikið;
Því bumban mín lafir langt niðrá tær
og leikur við sköflungaspikið.

Ég veit ekki hvers konar kvaðir ég hef
né hverjum það er að þakka
að nefhárin kæfa mitt kröftuga nef
og kollvik ná aftan á hnakka.

Með hrukkurnar, versnandi gláku og vömb
voru það mistök að fæðast.
Oft mínir foreldrar, ungir sem lömb,
að mér í sífellu hæðast:

"En svona er eðlilegt," segja þeir,
"þú sérð hvað þér er að hraka."


-Það ætti að henda mér inn á Eir
og yngja mig þannig til baka.

7 comments:

Anonymous said...

Kristján til hamingju með daginn,
Nú hefur þú náð strákunum í aldri.

Kær kveðja frá Herði, Boggur og Andra Stein

Anonymous said...

Kristján þú ert tvítugur - þessi lýsing á ekki við strax og vonandi aldrei! En til hamingju með afmælið og gaman að sjá þig með mömmu og pabbasín í Kína.
kveðja til allra frá okkur á Maríubaugi

p.s Gettu betur var nokk spennandi í gærkvöldi

Doddi said...

Hoho! Vonum bara að þeir taki ekki göngugrindina af þér í tollinum.

Doddi said...

Það er af,
áður sem var.
Glókollur mær
grástrý orðið,
haukfrán augu
slímhlaup blint.
Djúpt er siginn
ástarpungur.

Þorsteinn said...

Huggaðu þig við það eitt, að nú geturðu löglega keypt þér áfengi á Íslandi til að hugga þig við í ellinni.

Særún said...

Obbosí! Til hamingju með afmælið strákur. Betra er seint en aldrei...

Unknown said...

hehe, úps. búinn að skoða þetta margoft og aldrei kvittað fyrir afmæliskveðju. segjum bara að þú hafir vitað af mér í anda ;)

anywho, til hammó með ammó kall :D