Í öðru landi ég eitt sinn bjó
hef öldu stigið;
Í eiturgrænan asískan sjó
af ánægju migið.
Oft ég vakti eftirtekt
fyrir ásjónu mína.
Og öðruvísi er ýmislegt
úti í Kína.
Ég stundum himin starði á
stjörnum prýddum,
Ísland fannst mér ætíð þá
í öðrum víddum.
Björtum nóttum gat ei gleymt
né gráum ströndum.
Oft mig hefur um þig dreymt
í austurlöndum.
Þar eitt er bannað, annað má
og æ skal lofa.
Skýjakljúfar skiptast á
við skakka kofa.
Fátæktin þar ærin er
í alls kyns líki.
Í fámenninu finnst mér hér
sem friður ríki.
Ég hef þó komið varla við
í veröldinni.
Og aðeins kíkti í anddyrið
á Asíunni.
Okkur finnst við hrein og há
og heimsins nafli.
Aðeins helmingur mannkyns heldur á
hníf og gaffli.
2 comments:
Snilld að vanda.
Frábært ljóð.
Post a Comment