Monday, September 17, 2007

Fluttur í Kristjánsborgarhöll

Síðasta vika hefur verið erilsöm. Ég er fluttur inn í 220 fm Kristjánsborgarhöll, ásamt einkaþjóni mínum sem heitir David og er samkynhneigður Breti sem bjó á fljótabát á Thames áður en hann ákvað að skella sér til Kína. Hann talar, auk ensku og kínversku, flæmsku reiprennandi, þýsku, hrafl í spænsku, japönsku, les latínu jafnvel og ég, getur stautað sig fram úr Bjólfskviðu og reyndi meira að segja einu sinni að læra íslensku en gafst þá upp á málfræðinni. Á heimavistinni þurfti hann að deila herbergi með einhverjum biblíunöttara frá Kansas sem var sköpunarsinni af verstu sort og fyrirleit samkynhneigða.

Við höfum farið ófáar ferðirnar í Walmart, Suguo og Carrefour til að kaupa nauðsynlegustu húsgögnin (eigum reyndar eftir að redda okkur almennilegum sófa þannig að David sefur í stofunni á svefnsófanum sínum svo við getum notað hann á daginn). Þvottavél kom ekki í húsið fyrr en á allra síðustu stundu, og þá hafði ég búið í ferðatöskunni í tæplega tvær vikur án þess að geta þvegið eina einustu spjör. Sú sem við Siggi og Halldór notuðum í Beijing spilaði alltaf Jingle-bells þegar hún var sett í gang en þessi spilar brúðkaupsmars Wagners hátt og snjallt. Hvað er málið?


Stöðuprófið sem ég fór í reyndist hroðalega, hroðalega erfitt og ég var settur í algjöran byrjendabekk, sem ég átti að sjálfsögðu ekkert heima í, ásamt fleirum sem voru á svipuðu stigi og ég og skildu ekkert í þessu. Það tók við gríðarlegt stapp að fá að breyta því ásamt meðfylgjandi rifrildi á kínversku við konurnar í afgreiðslunni sem vildu greinilega fá munnlega sönnun á því að við ættum heima í þessum eða öðrum bekk.

Íbúðin er enn þá bara hálfköruð, þótt stór sé. Ég hafði verið hér í um viku þegar David flutti loksins inn, og hafði fram að þeim tíma þurft að fara í ískaldar sturtur því ekkert var heita vatnið. Það fyrsta sem hann rekur augun í er einhver málmkassi í eldhúsinu með rafmagnssnúru út úr sér, og verður feginn. “Jæja, það er gott að það er a.m.k. heitt vatn hérna,” segir hann um leið og hann stingur draslinu í samband, skrúfar frá gasventli og flýtir sér upp í sjóðandi heita sturtu á meðan Íslendingurinn sem hafði alist upp við heitt vatn streymandi upp úr jörðinni varð frekar kindarlegur. Að sjálfsögðu hafði ég ekkert eldað fram að þessu með engin eldhúsáhöld og var skíthræddur við að koma við alla þessa gasventla. “Engar áhyggjur Kristján, þetta er bara óumflýjanlegur menningarmismunur,” segir David um leið og hann vefur handklæði um höfuðið á sér eins og homma (og kvenna) er siður.



En til að aumingja David geti svo mikið sem sturtað niður þarf hann að láta renna vatn úr sturtuhausnum ofan í opinn vatnskassann svo hægt sé að teygja höndina niður að gúmmítappanum og hleypa vatninu niður. Það sama gildir á mínu klósetti nema ég fékk þennan lúxusspotta sem sjá má á myndinni.

Það verður innflutningspartý hjá okkur næsta föstudag. Ég taldi mig nú vera alveg þokkalega félagsveru en hann þekkir nú þegar alla í bekknum mínum á undan mér, og eiginlega bara hverja einustu útlensku hræðu í Nanjing háskólanum, sem hann hefur að sjálfsögðu boðið í húllumhæið.



Annars er lífið hér í Kína óðum að taka á sig fastar skorður. Ég kem þó heim fyrr heldur en síðar, og mun eyða jólunum á Íslandinu með fjölskyldunni og yndislegustu kærustu í heimi sem bíður eftir mér þolinmóð. Á gervihnattaöld er þægilegt að flokka það ekki undir munað að geta talað

við hana í síma í meira en klukkutíma á dag, heldur ókeypis valkost þökk sé internetinu. Ein mynd af henni verður að fylgja með.



3 comments:

Anonymous said...

Næst læturðu mynd af David fylja með....

Anonymous said...

ehemm fylgja...átti þetta nú að vera ....

Anonymous said...

Ó þá náð að eiga David
einkaþjón í hverri þraut....

P